Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 28

Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 28
28 Litli-Bergþór Í tímariti Verkfræðingafélagsins í apríl 1949 ritaði vegamálastjóri grein um Vega- og brúagerðir á því ári og sagði að nokkuð hafi verið unnið að Skálholtsvegi sunnan Hvítár, en þar væri áformað að byggja mikla hengibrú hjá Iðu. Brúin eða rafmagnið? Hvað dvelur Hvítárbrú við Iðu? - Orðsending til þingmanna Árnessýslu og vegamálastjórnar Íslands. Það má nærri geta, að heimamenn voru orðnir langeygir eftir að eitthvað gerðist í málinu, en flestir samt ekki talið sig þess umkomna að tjá sig um það á opinberum vettvangi. Einar Sigurfinnsson, bóndi á Iðu (1884-1979) hafði kannski umfram marga aðra beina hagsmuni af því að af brúargerðinni yrði sem fyrst og hann ritaði grein sem birtist í Alþýðublaðinu 13. ágúst 1950 og segir meðal annars: Fyrir næstsíðustu alþingiskosningar hrósuðu þingmenn Árnessýslu sér mjög af þvi, að þeir hefðu með harðfylgi og dugnaði fengið samþykkta þingsályktun um að brú á Hvítá hjá Iðu skyldi byggð og fullgerð fyrir árslok 1948. Ekki veit ég hvort þetta var aðeins kosningabeita af hálfu þingmannanna eða þingsins í heild. En menn glæptust á að trúa að hér væri af heilindum mælt, en ekki með ákveðin svik í huga. En svo mikið er víst, að ekki er verk þetta enn hafið. Ég er nú svo gamaldags að álíta að alþingi sjálft — sú virðulega stofnun — megi ekki svíkja gefin heit, að það verði að standa við gerðar samþykktir, jafnvel þótt einstakir þingmenn telji sér engan vanza að svíkja sín hátíðlegustu loforð. Heyrzt hefur, að verið sé að smíða þessa brú í Englandi, en aðrir fullyrða, að sú brú eigi að fara eitthvað annað. Hvað satt er í þessu veit ég ekki. En eitthvað „dvelur orminn langa”. Eitthvað tefur þessa nauðsynlegu samgöngubót. Síðan leiddi Einar fram helstu rökin fyrir brúarsmíðinni, en sagði svo: Okkur Iðubúum þykir all þung kvöð á okkur hvíla að verða að gegna ferjukalli, hvernig sem á stendur, í hvaða veðri sem er, á nótt sem degi. Og þótt við séum seinþreyttir til vandræða, getur að því rekið, að við neyðumst til að gera verkfall, ef stjórn samgöngumálanna sýnir ekki betri vott skilnings á starfi ferjumanna hér eftir en hingað til. Enda er það sjálfgert, því nú fæst ekki spýta í bátsár, hvað þá borðstubbi til að gera við ferjubát. En ferjubátar fyrnast og bila fljótt. Þeim er lagt í ísskrið og jakaburð, sem mjög reynir á traustleika þeirra og illa getur farið, ef ár brotnar, þegar ferjuskilyrði eru slæm. Fleiri uppsveitamenn áttu eftir að tjá sig um brúarmálið, en í millitíðinni var greint frá því í blöðum, að framkvæmdir við brúargerðina væru hafnar. Þannig sagði í fyrirsögn í Tímanum í september 1951: Hafin er bygging stórbrúar á Hvítá hjá Iðu. Brúin verður lengri en Ölfusárbrúin hjá Selfossi og mikil samgöngubót í héraðinu. Í fréttinni sagði ennfremur: Síðustu dagana fyrir helgina var verið að flytja að vélar og áhöld til brúarsmíðinnar. Skálar fyrir verkamenn voru fluttir í heilu lagi á stórum bifreiðum frá Selfossi og öðrum vinnustöðvum vegagerðarinnar eystra. Loftbor var fluttur þangað til að bora vegna sprenginga en allmikið þarf að sprengja úr klöppum í sambandi við brúarsmíðina. Mun eitthvað hafa staðið á því, að framkvæmdir gætu hafizt vegna þess, að sprengiefni vantaði og var ekki komið til landsins. — Í haust mun ekki ætlunin að vinna nema að undirbúningsframkvæmdum hjá Iðu. Ráðgert er að ganga frá undirstöðu undir stöplana og ef til vill steypa þá. En brúin sjálf verður ekki reist fyrr en næsta sumar, og þá ekki talið ólíklegt, að hægt verði að opna hana til umferðar næsta haust.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.