Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 33

Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 33
Litli-Bergþór 33 Haustfundurinn okkar var haldinn þann 29. september og eftir fundinn kom gyðjan og jógakennarinn Unnur Arndísardóttir og fór í gegnum smá gyðjuathöfn með okkur, til að virkja góðar hugsanir og samkennd í hópnum. Að lokum lét hún hverja konu draga spil og lýsti persónueinkennum hennar út frá því. Kvenfélagið kom að hátíð, sem haldin var í tilefni 30 ára afmælis leikskólans Álfaborgar og gaf vinnu við veitingar. Var þetta frábær samkoma og einstaklega gefandi. Fjöldi tónlistarmanna úr héraði kom fram á samkomunni, auk Svavars Knúts, og safnaðist nokkurt fé til styrktar leikskólanum. En vegna skemmda á húsnæði og innbúi skólans, af völdum myglusvepps, þurfti að flytja starfsemina yfir í grunnskólann og endurnýja hluta af munum og leikföngum. Þann 1. október fórum við í haustferð með eldri borgurum og var það blómabærinn Hveragerði, sem varð fyrir valinu í þetta sinn. Fyrsta stopp var á Listasafni Árnesinga, þar sem samsýning Karls Kvarans og Erlu Þórarinsdóttur var skoðuð. Við fórum á steinasýninguna Ljósbrá, sem er eitt stærsta kristalla- og steingervingasafn í einkaeigu á Íslandi. Fengum okkur síðan kaffi í Skyrgerðinni, gamla Þinghúsinu, þar sem við hittum Njörð Sigurðsson sagnfræðing, sem keyrði með okkur um Hveragerði og sagði okkur sögur. Að lokum var snæddur gómsætur kvöldverður í Tryggvaskála í boði Kvenfélagsins, en rútan var í boði Bláskógabyggðar. Skemmtileg ferð og allir komu sælir heim. Hinn árlegi jólamarkaður var þ. 26. nóvember með tilheyrandi kaffiveitingum og tombólu og jólafund héldum við í Bergholti þ. 6. desember, þar sem konur gerðu sér glaðan dag. Kvenfélag Biskupstungna tók að sjálfsögðu þátt í vinnu við veitingar í kveðjuhófi læknanna okkar, þeirra Péturs og Gylfa, sem haldið var í Aratungu þ. 12. janúar s.l. En það var samvinnuverkefni allra hreppa og kvenfélaga í uppsveitum Árnessýslu, auk fleiri hópa, eins og leikdeildar Umf. Bisk o.fl. Var þetta hin skemmtilegasta samkoma og öllum til sóma. Kvenfélagskonur drifu sig í sumarbústaðarferð að Gljúfri í Ölfusi síðustu helgina í febrúar og nutu þar lífsins við spjall, veislumat og pottferðir. Síðari nóttina kyngdi niður mesta snjó vetrarins, en það kom ekki að sök, því konur voru vel búnar skóflum og allar komust heim. Sundlaugar Hveragerðis voru vel nýttar um helgina, Kvennabókasafnið á Eyrabakka heimsótt og matnum á Heilsuhælinu gerð góð skil. Hin besta helgi. Hveragerðisþemað hélt áfram viku síðar, þegar konur fjölmenntu í leikhúsferð til Hveragerðis og sáu leikritið „Naktir í náttúrunni“ í byrjun mars. Góð skemmtun og ekki spilltu fyrir góðar veitingar á Menam á Selfossi fyrir sýningu. Kvenfélagið sá um fimm erfidrykkjur á árinu 2016, sem er með meira móti. Ágóðinn af þeim mun skila sér aftur til samfélagsins í formi styrkja til ýmissa verkefna. Á síðasta ári styrkti Kvenfélagið m.a.: Leikskólann, með lestrarverkefninu „Lubbi finnur málbein“ (kr 45.850), Kvikmynd vegna 100 ára kosningaréttar kvenna, (100.000), hoppukastala á Tvær úr Tungunum (62.000), Þjóðhátíðarnefnd (50.000) o.m.fl. Lausleg áætlun á sjálfboðavinnu kvenfélagskvenna í þágu samfélagsins síðasta starfsár, er um 1511 klst, fyrir utan fundarsetu og almenn félagsstörf. Kvenfélagið óskar lesendum Litla-Bergþórs gleðilegs sumars með þökk fyrir samstarfið í vetur. Agnes Geirdal formaður. Sigrún Elfa skefur af bílnum fyrir heimferð úr sumarbústaðnum.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.