Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 42
42 Litli-Bergþór
Ég gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Króknum
og lauk þar landsprófi. Fór síðan í Menntaskólann
á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem stúdent
1967. Árið sem ég hefði átt að vera í 5. bekk (3.
bekk) fór ég sem skiptinemi til Pennsylvaníu í
Bandaríkjunum í eitt ár á vegum þjóðkirkjunnar.
Þar bjó ég hjá yndislegri fjölskyldu sem ég held
enn sambandi við. Þrettánda mánuðinn var ég hjá
ættingjum í Kaliforníu, í Los Angeles og vinafólki
í Norður-Hollywood. Bandaríkjadvölin var mikið
ævintýri og margt nýtt sem maður upplifði þar.
Ég las svo 5. bekkinn utanskóla þarna úti og
útskrifaðist því með mínum árgangi frá MA.
Síðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég tók
BA í ensku, sögu og dönsku og í framhaldi af því
tók ég uppeldis- og kennslufræði í tvö ár. Við
Pétur kynntumst meðan við vorum í háskólanámi,
en við bjuggum bæði á Nýja Garði á sama gangi,
Pétur á herbergi nr. 11 og ég á nr. 13. Með námi
vann ég sem flugfreyja öll árin, einnig fyrstu
sumrin með kennslu í Hagaskóla, eða í 6 sumur
alls. Ég var í æfingakennslu í Hamrahlíð og hafði
mjög gaman af því, en kennsluferillinn hófst svo
í Hagaskóla þar sem ég kenndi ensku og íslensku
í 4 ár.
Flugfreyjustarfinu fylgdu fríðindi í formi frímiða,
eða ódýrra miða, svo við notuðum tækifærið
og ferðuðumst þó nokkuð á þessum árum, svo
mikið að sögn Péturs, að honum seinkaði um
eitt ár í námi! Við flugum m.a. til Hong Kong og
Bangkok með Cargolux eitt haustið og urðum
strandaglópar í Bangkok. Cargolux var ekki með
fastar ferðir til Bangkok, en þar sem það hittist
svo á að þeir þurftu að lenda þar, sögðu þeir okkur
að þessu mættum við ekki missa af og hentu
okkur út! Það endaði svo með því að við þurftum
að bíða í 4 daga eftir flugi, þar til næsta vél frá
Cargolux lenti þar fyrir tilviljun. Við vorum ekki
með mikinn gjaldeyri og lifðum síðustu dagana
aðallega á banönum. Áhöfn annarrar vélar, sem
lenti vegna bilunar, þurfti að bíða í viku eftir
varahlutum, svo við vorum fegin að hafa ekki
beðið eftir þeim. Ég mætti þá í annað sinn of seint
til kennslu í Hagaskóla vegna seinkunar á flugi og
lofaði Birni skólastjóra því, að ég myndi ekki fara
út fyrir Elliðaár fyrir skólasetningu framvegis!
Pétur lauk læknanámi við HÍ 1975 og tók
kandídatsárið sem læknir á Sauðárkróki 1976.
Í september 1977 lá leiðin síðan til Svíþjóðar í
framhaldsnám í heimilislækningum í Borås í
Suður Svíþjóð, þar sem við vorum í sex ár, eða
þar til við komum heim til Íslands og beint í
Laugarás, 1. júlí 1983.
Í Svíþjóð kenndi ég ensku í fullorðinsfræðslu
hjá námsflokkum í Borås og íslenskum börnum
móðurmál.
Það voru viðbrigði að koma í Laugarás, sem
dæmi má nefna að þá voru ekki komnir neinir
rafmagnsstaurar í Laugarás, bara ljós utan
á húsunum. Þegar dimmdi varð því algjört
svartamyrkur. Manni stóð ekki á sama þegar
krakkarnir voru úti einhversstaðar í heimsókn og
þurftu að labba heim í þessu myrkri.
Eins og ég sagði áðan, fékk ég strax kennslu við
Skálholtsskóla eftir komuna í Laugarás og kenndi
þar allt mögulegt, m.a. ensku, íslensku, dönsku
og sögu og fannst mér áhugavert að kynnast
lýðháskólahugmyndinni. Árið 1986 fór ég að
kenna í Reykholtsskóla og kenndi þar aðallega
ensku og íslensku sem umsjónarkennari. Þar vann
ég með skólastjórunum Unnari Þór Böðvarssyni,
Kristni Bárðarsyni, Stefáni Böðvarssyni, Arndísi
Jónsdóttur og Hrund Harðardóttur og get sagt að
mér hafi líkað ágætlega við þá alla. Þetta voru góð
ár í Reykholtsskóla. Ég tók mér reyndar hlé frá
kennslu á Reykholtsárunum og fór í bókasafns-
og upplýsingafræði við HÍ um aldamótin og vann
þá á Þjóðarbókhlöðunni með námi. Síðan sá ég
um bókasafnið í Reykholtsskóla í nokkur ár eftir
það, þar til ég hætti kennslu.
Guttormslundur.
Kennslunni hætti ég árið 2013 þegar við fluttum í
bústaðinn okkar, Guttormslund í Langholtinu og
keyptum þessa íbúð hér í Kópavogi.
Við höfðum eignast soninn Skarphéðin árið 1974,
áður en við fórum til Svíþjóðar, og dótturina Ingu
Dóru eignuðumst við svo árið 1980. Á milli þeirra
eignuðumst við son, sem við misstum í fæðingu.
Skarphéðinn var 9 ára þegar við fluttum í Laugarás.
Sumarið eftir fór hann í sveit hjá Gunnari og
Siggu Jónu í Hrosshaga. Þar vann hann ýmis
störf og fékk reynslu af barnapíustörfum, meðal
annars þurfti að skeina Ósk litlu og sú reynsla