Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 7

Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 7
Litli-Bergþór 7 Ein þeirra spurninga sem þarf að velta fyrir sér er, hvort kominn sé tími til að færa útgáfuna yfir á rafrænt form. Ritnefndin hefur rætt þessa spurningu og talið að slíkt skref gæti verið tvíeggjað og mögulega ver farið en heima setið að leggja út á þá braut. Það er hinsvegar Ungmennafélag Biskupstungna, sem er æðsta valdið í slíkum ákvörðunum. Ritstífla Skortur á fólki sem er tilbúið að skrifa í blaðið. Vissulega hefur tekist að fylla blaðið ár eftir ár af áhugaverðu efni af ýmsum toga og vonandi verður svo áfram. Það er hinsvegar rétt að huga að því að auka fjölbreytnina, þannig að blaðið höfði í ríkari mæli til yngri kynslóða en það hefur ef til vill gert. Ef ungmennafélagsandinn gefur eftir Því er ekki að neita, að þeim hefur farið fækkandi sem eru tilbúnir að vinna að samfélagsleg- um verkefnum, án þess að fá greitt fyrir. Litli-Bergþór er að öllu leyti unninn í sjálfboðavinnu, ef frá er talinn kostnaður við uppsetningu, prentun og dreifingu til áskrifenda. Þetta er ekki sjálfgefið, eins og hver maður getur ímyndað sér. Sannarlega telur núverandi ritnefnd ekki eftir sér að sinna þessari vinnu, enda rennur ungmennafélagsblóð um æðar hennar. Tíminn setur henni hinsvegar takmörk. Fyrir áratugum síðan var gefin út hljómplata sem bar heitið Útvarp Matthildur, sem þá var allskyns gamanefni. Í einu atriðinu spyr fréttamaður formann ungmennafélags hver sé stærsti vandi ungmennafélaganna í dag. Formaðurinn, sem eftir röddinni að dæma, var aldurhniginn karlmaður, svaraði: „Maðurinn með ljáinn“. Hér er auðvitað um að ræða alhæfingu, enda lætur fjölmargt ungt fólk til sín taka á vettvangi ungmennafélagsins á hverjum tíma, þó auðvitað megi því fjölga og það megi gera sig meira gildandi í starfi þess, meðal annars í ritnefnd Litla-Bergþórs. Ritnefnd Litla-Bergþórs hefur ákveðið að láta ekki deigan síga og halda útgáfunni áfram um ókomna tíð. Hún heitir hinsvegar á lesendur að leggja sitt af mörkum með sínum hætti. Það gæti verið með því að senda blaðinu efni, stutta frásögn, endurminningar, eða benda á áhugavert efni til að fjalla um. Það gæti verið með því að safna áskrifendum. Það gæti meira að segja dugað að senda ritnefndinni skilaboð um að hún sé frábær og ætti að halda sínu striki. Klapp á bakið er alltaf vel þegið. Við reiknum með að það séu fáir sem vilja sjá útgáfu Litla Bergþórs hætt án þess að nokkuð komi í staðinn. Það sem blaðið hefur fram að færa skiptir máli fyrir samfélagið hér í Uppsveitum. Það veitir meðal annars innsýn í mannlífið hér á hverjum tíma í máli og myndum og varðveitir sögu héraðsins fyrr og nú. Svona er þetta bara. Það eina sem við þurfum í rauninni að passa okkur á, er að verða ekki að nátttröllum. Til að forðast það er tvennt í stöðunni: að láta okkur hverfa áður en svo verður, eða taka slaginn með nýjum hætti. Við höfum ákveðið að taka slaginn og sjá til hvert það leiðir Litla-Bergþór. Verið velkomin með okkur í teymið!

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.