Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 54
S t e i n a r B r a g i
54 TMM 2013 · 3
Ellert kom einn heim og fórnaði höndum og um leið settist Katrín við
símann og byrjaði að hringja niður listann yfir vini Andra. Hún talaði við
hverja áhyggjulausa mömmuna af annarri sem sagði barnið sitt vera komið
heim og nei, Andri væri ekki hjá þeim í mat. Hjá tveim þeirra, sem spurðu
syni sína, fékk Katrín að vita að Andri hefði síðast sést á leikvelli við vestur-
enda Ægisíðunnar, þar sem farið var í feluleik; eftir það hefði hann ekki sést
en einn strákurinn sagðist halda að hann hefði hlaupið „í áttina að sjónum“.
Þegar listinn var tæmdur klæddi hún sig í létta yfirhöfn og rauk út, leitaði
um allt hverfið frá Melabúðinni að Neskirkju og á ströndinni við Ægisíðuna.
Engir gemsar voru til á þessum tíma, því hljóp hún með reglulegu millibili
heim til að athuga hvort Andri væri kominn og hringdi aðra umferð í
mæðurnar sem fóru að deila áhyggjum hennar; ekkert meira hafði komið
út úr börnunum varðandi afdrif Andra og tvær þeirra fóru út til að hjálpa
henni að leita í kringum KR-völlinn og á Melunum næst Hringbrautinni þótt
ólíklegt væri að hann hefði farið svo langt.
Engin umferð var nú um Ægisíðuna, Katrín hljóp hana á enda og fann á
sér að eitthvað slæmt hefði gerst. Hún fór aftur heim og hringdi í lögregluna
sem sagðist ekkert geta gert en tók niður lýsingu á Andra og beindi lausum
bílum á vakt í hverfið og út á Nes til að skima eftir honum.
Það sem gerðist eftir þetta man Katrín óljóst nema að hún sat heima ásamt
tengdamóður sinni meðan Ellert og bræður hans leituðu í öllum Vestur-
bænum og víðar og áttu í samskiptum við lögregluna og þá í hverfinu sem
hjálpuðu til við leitina. Þegar klukkan var að ganga sex næsta morgun var
Andri ekki enn fundinn og lögreglan samdi fréttatilkynningu til að lesa í
áttafréttum útvarpsins.
Við sólarupprás fannst Andri loks inni í einum af grásleppuskúrunum
við Ægisíðuna. Fyrr um nóttina hafði leitarfólk gengið þar hjá og hrópað
nafnið hans en ekki kíkt inn í skúrana sem voru læstir. Nú þegar birti sást til
hans um rifu á einum skúrnum þar sem hann sat flötum beinum úti í horni,
svaraði engum spurningum og virtist raunar ekki heyra þær; augun voru
opin en slakur svipur á andlitinu. Hár hans sem áður hafði verið dökkt var nú
orðið skjannahvítt og í fasi var hann svo breyttur, eitthvað við þögn hans var
svo fráhrindandi og sjúkt að þegar mamma hans kom hlaupandi voru fyrstu
viðbrögð Ellerts að varna henni aðkomu; það tókst auðvitað ekki. Hún kastaði
sér grátandi á hnén og faðmaði son sinn, hélt um hönd hans í sjúkrabílnum
og vék ekki frá rúminu á spítalanum þar sem hann lá næstu vikurnar. Engir
áverkar fundust á honum en læknar sögðu hann vera „í sjokki“ og það væri
sjaldgæft – en ekki óheyrt – að háralitur fólks breyttist við áföll.
Að nokkrum dögum liðnum fékk Andri aftur málið. Hann var undrandi
yfir því að allt hárið hefði verið rakað af honum, mundi ekki hvað gerðist
daginn sem hann hvarf og kvartaði undan vægum flökurleika. Brátt rifjaðist
upp fyrir honum feluleikurinn og að líklega hefði hann hlaupið niður í fjöru
en eftir það mundi hann ekkert. Þótt engin formleg rannsókn færi fram