Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Síða 59
Tvæ r r e i m l e i k a s ö g u r
TMM 2013 · 3 59
„Hverjar eru líkurnar?“ sagði Lína, á endanum. Gunnar velti því fyrir sér
án þess að komast að niðurstöðu. – 36 var eina talan sem kom upp í hug
hans, og orðið „ómögulegt“.
„Mér líst ekki á þetta, alls ekki,“ sagði Karólína og tilkynnti að hún væri
farin að vinna. Þau hlustuðu á fótatak hennar fjarlægjast upp stigann á aðra
hæðina.
„Hann er hérna, það hlýtur að vera,“ sagði Ellen og fannst hafa kólnað í
herberginu. Hún hafði heyrt sögur af því: nærveru drauga fylgdi gjarnan
kuldi grafarinnar þar sem þeir dvöldu jú, svona í eiginlegri merkingu. En
kannski var þetta bara ímyndun.
Halldór handfjatlaði einn teninganna, sneri honum á allar sex hliðar og
sagðist vera að athuga hvort sexurnar væru á fleiri en einni hlið. Hann hætti
því fljótlega. Ellen horfði tortryggin á spilafélagana og spurði hvort þau væru
að stríða henni, tók teningana og raðaði þeim upp á borðinu fyrir framan sig,
sneri einum upp í loft á þeim öllum og ýtti þeim hingað og þangað í svolitla
stund.
„Við verðum að klára þetta,“ sagði Halldór og kinkaði kolli til Ellenar.
„Svo skulum við hætta,“ sagði Lína. „Ég hef ekki gaman af þessu lengur.
Þetta er mjög skrýtið.“
„Hentu þeim,“ sagði Gunnar hátt, sópaði upp teningunum og hellti í
lófa Ellenar. Þá hristi hún teningana, hristi herðarnar og höfuðið með, og
vingsaði olnbogunum furðulega, og í svipan sá Halldór fyrir sér hvernig hún
dansaði – hann mundi eftir því af einhverju balli – eilítið skækjulega. Loks
fleygði hún öllu heila klabbinu, holurnar ultu um borðið með lágu glamri
líkt og heyrist þegar álfar vaska upp, ímynda ég mér, teningarnir hægðu á
sér, hættu að hreyfast og sneru hámarkinu upp. Og jú, þökk sé Thor Jensen
var það sexu-jatsí, hið fjórða af því taginu í röð. Örlæti sumra á sér engin
takmörk.
Allt hljómar þetta ólíkindalega, enda ratar það beinlínis á blað í krafti þess.
En satt er það þó, hvernig sem skynsemin andæfir. Og að einhverjum tíma
liðnum, þegar fjórmenningarnir höfðu velt betur fyrir sér líkindareikningi
urðu þau ásátt um:
a) að ekkert er ómögulegt og
b) að Thor Jensen gengi aftur í húsinu, væri fær um að upphefja lög-
mál efnisins og tímans – til dæmis með því að hægja á honum, eða með
því að gista miklum mun hraðari tímavídd, líkt og sagt er að eigi við um
landamærasvæði drauganna – ergo: þegar húsflugan, með sitt tífalt hrað-
virkara taugakerfi sér hönd nálgast gerist það hægt, líkt og í draumi, hún
stingur úr tönnunum, deplar hundrað augum og er flogin löngu áður en
höggið kemur. Þannig sneri Thor teningunum, með hægð, á skoppi þeirra
yfir borðið og vélaði um sexurnar.