Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Side 60
S t e i n a r B r a g i
60 TMM 2013 · 3
Nokkrum vikum eftir jatsí-ævintýrið, þegar Halldór var einn á leið út úr
húsinu í lok vinnudags, var hann gripinn ákafri bjórlöngun, nánar tiltekið
langaði hann að festa kaup á kassa af smygluðum bjór, þar sem varan var
bönnuð á Íslandi á þessum tíma (án þess að nokkur muni af hverju). Næst-
um um leið var einsog hvíslað að honum innanúr húsinu, að fara í næstu
sjoppu, sem þá var á gatnamótum Lækjargötu og Bókhlöðustígs, og kaupa
sér Happaþrennu. Á þessum tíma voru skafmiðar ný tegund happdrættis
á landinu; Halldór hafði aldrei verslað sér slíkt áður, og sem starfsmaður
Æskulýðsráðs var hann frekar á móti þeim. En í sjoppuna fór hann, keypti
eitt stykki happaþrennu, og minnugur náunga sem hann hafði eitt sinn séð
skafa af miðanum með því að klessa honum upp að steinvegg og rykkja til
hliðar, hélt hann aftur að Fríkirkjuvegi 11, gekk hálfa leið upp tröppurnar
að aðaldyrunum og staðnæmdist við ytri súluna – þar sem hann hafði oft
ímyndað sér að fátæklingar Thors hefðu stutt lófanum meðan þeir biðu hans,
örmagna og svolítið hræddir. Upp að súlunni klessti hann skafmiðanum, hét
á Thor Jensen og hvíslandi rödd hans, rykkti miðanum til hliðar og í ljós
kom vinningur upp á 3200 kr. – Sömu upphæð og sjómaðurinn, kunningi
hans, setti upp fyrir kassa af bjór. Þegar Halldór kom heim og útskýrði þetta
allt fyrir konunni sinni, sagði hún: Af hverju langaði þig ekki í bíl?
Með tímanum kvisuðust út sögur um áheitamanninn Thor Jensen, þótt
jatsí-spilarar flíkuðu ekki reynslu sinni. Fáeinum mánuðum eftir jatsíið
var einn starfsmanna borgarinnar, Erlendur, gestkomandi á Fríkirkjuveg-
inum. Hann beið uppáhellingar í eldhúsinu og þótt jatsí hefði ekki verið
spilað eftir hádegið örlagaríka, voru teningarnir enn á sínum stað í skúffu
þar sem Erlendur fann þá. Minnugur orðróms um jatsíið, dró hann upp
penna og pappír, hét á Thor og hóf að varpa teningunum – af rælni – í von
um að honum yrðu fengnar vinningstölurnar í lottói komandi helgar. Þótt
samlagning sex teninga útilokaði tölur neðan við sex og yfir þrjátíu og sex,
hafði hann ekkert betra að gera þá stundina, auk þess náðu lottótölurnar
á þessum tíma ekki nema að þrjátíu og tveimur. Fimm sinnum lagði hann
saman summu teninganna sex, fór þá og keypti staka röð í lottóinu, beið
útdráttarins og reyndist – eins og af rælni – hafa allar tölur réttar nema þessa
einu sem var undir sex.
Maðurinn endurtók leikinn síðar, en hvað sem leið áheitum hans, segir
sagan, gerðist ekkert. – Dapurlegt, en þó má í þessu sambandi hugga sig við
orð Björgólfs Thors, langafabarnsins, um glataða peninga:
„Þegar að, þegar að fjármunir tapast á þennan hátt að, sagði einn við mig
hérna sko, á þennan hátt að að þegar peningar tapast: a lot of money goes to
money heaven.“