Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Síða 74
74 TMM 2013 · 3
Arthúr Björgvin Bollason
„… hve Íslands auðn er stór“
Hugleiðing um Dettifoss í ljóðum þriggja skálda
Austurríski sálfræðingurinn Sigmund Freud nefnir í einu rita sinna þá
undarlegu kennd sem vaknar hjá manneskju sem stendur á barmi hyldýpis
og óttast að missa fótanna og hrapa niður í tómið.
Á þessu andartaki, segir Freud, finnur manneskjan skyndilega fyrir
nánast ómótstæðilegri löngun til að láta sig falla. Það er eins og óttinn við
fallið snúist við, umbreytist í þrá eftir að hrapa og tortímast.
Hvergi hef ég sjálfur fundið jafn sterkt fyrir þessari óræðu löngun og á
barmi gljúfursins við Dettifoss. Þegar ég kom í fyrsta sinn að þessum vatns-
mesta fossi Evrópu, þar sem hann steypist niður í gljúfur Jökulsár á Fjöllum,
umlukinn víðáttumikilli og gróðarvana auðn, þar sem sést varla stingandi
strá, og horfði á þennan ógnarlega vatnsflaum hrynja með dynkjum og
drunum fram af þverhnípinu, fann ég sjálfur skyndilega fyrir löngun til að
fleygja mér fram af og steypast með vatnsflekunum niður í tómið.
Í grein sem Sigurður Nordal skrifaði á þriðja áratug síðustu aldar lýsir
hann áhrifum fossins á ferðalanga sem vitja þessa ógnarkrafts í auðninni:
Straumþungi árinnar er svo ógurlegur, bjargið svo þverhnípt, að vatnið þeytist fram
af brúninni í óskaplegum flekum, sem springa og sundrast í fallinu, leysast sundur
í vatnsstjörnur, sem þjóta í allar áttir og draga á eftir sér úðahala. Nafnið Dettifoss
er valið af glöggri athugun.
Nýir og nýir flekar detta, hver ofan á annan, hverfa ofan í mökkinn í gljúfrinu. Foss-
inn fellur endalaust og breytir þó mynd á hverju augabragði. Hann seiðir augað til sín,
– allt í einu finnst áhorfandanum bakkinn þjóta með hann út í geiminn með ógnar-
hraða og grípur ósjálfrátt hendinni eftir einhverju að halda sér í. Og hugann sundlar
eins og augað. Þessi vitlausi, tilgangslausi tryllingsleikur plægir sálina. Menn standa
eins og frammi fyrir stóradómi. Vitið skilur ekki. Viljinn bognar. (Áfangar, bls. 73)
Hér má beinlínis skilja orð Sigurðar á þann veg að hann sé að vísa til trúar-
legrar reynslu: menn standa eins og frammi fyrir dómstóli, þar sem hið
dýpsta í þeim sjálfum er vakið upp og knúið fram.
Fossinn vekur í brjósti þess sem á hann horfir djúpa kennd, snertir ein-
hvern kjarna, einhverja kviku sem leynist innst og dýpst í hverjum og einum.
Seiðandi og tryllingslegur flaumurinn, þetta ógnvekjandi hamsleysi nátt-
úrunnar, er ofvaxið mannlegum skilningi. „Vitið skilur ekki“.