Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 93
L ó ð r é t t h r e y f i n g
TMM 2013 · 3 93
„Faðir, ó, faðir, hinsta ósk þín er svo hræðilegt svarthol!“ Þetta harmakvein
gat af sér misskilning: svört moldarlögin sneru upp á mig eins og þau ætluðu
að snúa af mér líkamann. Ég fann líka að lík forfeðra minn voru falin innan
í fellingum jarðarinnar. Af líkunum stafaði leiftrandi fosfórljóma. Ofskynj-
anir mínar vöruðu aldrei lengi: mér var illa við tilfinningasemi. Mestallan
tímann steig ég upp skref fyrir skref. Steig upp!
Eftir að ég hóf mínar lóðréttu hreyfingar fannst mér líf mitt snúast meira
um öguð vinnubrögð, svefn, vinnu, svefn … Þessi reglusemi umbreytti líka
huga mínum. Áður fyrr hafði ég unun af sundurlausum dagdraumum – um
lögin í svörtu jörðinni, um forfeðurna, um Föður minn, um heiminn fyrir
ofan og svo framvegis. Það var fyrir dagdraumana sem ég gat slakað á, þeir
voru eins konar skemmtun, eins konar bragðgóður barrviðarvökvi. Nú var
allt breytt. Dagdraumarnir voru ekki lengur sundurlausir; nú höfðu þeir
markmið. Um leið og ég fór að hvíla mig tóku þessir tveir svörtu hlutir fyrir
ofan mig að marka stefnu, og þeir drógu hugsanir mínar í sömu átt. Hvað
var fyrir ofan? Í rauninni bara þessir tveir hlutir. Í hugrenningum mínum
heyrði ég þá gefa frá sér undarlegt hljóð eins og frá hrossabresti vaktmanns:
það var engu líkara en að einhver lemdi hrossabrestum hins forna fjalls í
jörðina fyrir ofan og að hljóðið næði í alvöru til okkar þarna neðanjarðar. Ég
hlustaði af athygli og hugsaði um þessa stóru svörtu hluti fyrir ofan. Á meðan
ég var gagntekinn af þessu hætti hljóðið frá hrossabrestinum allt í einu og
varð að hljóði okkar skordýranna – fjölmargra skordýra – þegar við borum í
jörðina. Stundum heyrði ég líka óljóst að skordýrin voru að tala – hljóð sem
ég hafði að líkindum heyrt fyrr. Ó, þetta hljóð! Var það ekki einmitt hljóðið
sem ég hafði heyrt skömmu eftir að ég losnaði frá líkama föður míns? Faðir
minn virtist enn vera á meðal okkar. Fyrir hans tilstilli fann ég fyrir stöðug-
leika, trúnaði, einhverjum sérstökum spenningi. Í þessu lá nýtt svið fyrir
ímyndunina. Ég áttaði mig á því að mér var vel við núverandi líf mitt. Þegar
maður var alveg að ná markmiðum sínum, þegar maður teygði gogginn
endalaust í átt að því sem vakti svo mikinn áhuga manns: leið manni þá ekki
vel? Ég hugsaði reyndar ekki of mikið um þetta: ég var bara sæll með mínar
nýju kringumstæður.
Ég áttaði mig á því seint og um síðir að svörtu hlutirnir tveir fyrir ofan mig
voru ekki bara alveg svartir heldur í óendanlegum litbrigðum á stöðugu iði.
Því nær sem ég komst mörkunum því veikari og veigaminni sýndust kjarn-
arnir verða, eins og þeir gætu komist í gegnum ljósið. Trúðu mér, líkami
minn var nærri því að skynja ljós sem var bleikt og svolítið heitt. Þegar ég
reyndi of mikið á mig einu sinni fann ég að ég hafði rifið upp einn kjarnann.
Ég heyrði meira að segja brothljóð – tsja. Ég var bæði spenntur og hræddur.
En eftir smástund áttaði ég mig á að það hafði ekki neitt gerst: þeir voru enn
fyrir ofan mig. Allt var harla gott. Mikill kjáni gat ég verið: hvernig gat orðið
ljóst neðanjarðar? Nú voru hlutirnir tveir svo snilldarlegir, svo seiðandi.
Bergmálaði ekki enn einu sinni óskýr rödd Föður míns?