Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Side 95
L ó ð r é t t h r e y f i n g
TMM 2013 · 3 95
staðið þá er engin leið til að meta árangur áreynslunnar og líkast til verður
árangurinn enginn. Ég þreyttist á þessu og át því svolítinn sand og sofnaði
síðan eins og dauður. Þegar húðin skorpnaði greri hún aftur og eftir að hún
greri skorpnaði hún aftur. Smám saman varð hún þykkari. Mannfólkið fyrir
ofan mig er með þykka húð. Höfðu þau öll lent í því sem ég var að reyna?
Æ, þessi kyrrð, þessi hryggð! Líklega getur maður sætt sig við hana skamma
stund en ef hún verður viðvarandi, er maður þá ekki samasem dauður? Kvíði
lagðist hægt og sígandi á huga minn. Ég hugsaði um þann sem var horfinn:
kannski var hann enn lifandi. Einn möguleiki var sá að við værum báðir
lifandi og að í raun og veru myndum við aldrei deyja. Grafnir í þessum
endalausa sandi stykkjum við hvor í sínu lagi og myndum aldrei sjá hvorn
annan. Þegar mér datt þessi möguleiki í hug kipptist ég allur til. Þetta gerðist
þónokkrum sinnum.
Það var virkilega skelfilegt í síðasta skiptið. Ég hélt ég myndi deyja. Ég
varð var við fjallið sem var í rauninni hlutirnir tveir svörtu sem áður höfðu
verið fyrir ofan mig. Þeir hurfu um skeið en komu svo aftur. Þeir þrýstust
niður að mér en þrýstu mér ekki til dauðs. Þeir héngu bara uppi yfir mér.
Um þessar mundir hætti ég allt í einu að fá krampakippi. Þegar þeim linnti
fór meðvitund mín á mikinn hraða og síðan tapaði ég alveg áttum. Ég neytti
allra krafta til að stökkva upp! Samstundis varð fjallið svo miklu veikara
að það varð eins og tvö laufblöð – laufblöð fönix-trésins sem er ofanjarðar.
Ég fann þau satt að segja svífa um. Mér fannst kraftaverk vera að gerast. Ég
tók stórt stökk af spenningi og nú voru fönix-laufin orðin fjögur! Þau voru í
alvöru fjögur. Ég heyrði hljóðið frá hverju þeirra. Það var málmhljóðið sem
sagnirnar segja frá. Ég vissi að ég hafði ekki misst áttanna: ég var á réttri
leið! Innan skamms komu rifur á laufin og ég sá ljósið! Þótt ég hafi engin
augu kom það ekki í veg fyrir að ég „sæi“. Ég – skordýr neðanjarðar – sá
ljósið! Haha! Engan æsing. Hvernig fór ég að því? Með mínum örum setta
líkama, sem var tekinn og kvíðafullur? Eða voru þetta bara hillingar? Hver
gat ábyrgst að á því augnabliki sem ég kæmi út úr jörðinni rynni ekki upp
stund dauða míns? Nei, ég vildi ekki komast til botns í þessu máli. Það væri
fínt ef ég gæti bara fundið fönix-laufin fyrir ofan mig. Æ, þessi eilífu hvellu
laufblöð: kaldur andvari Móður Jarðar þaut í laufunum …
Það leið yfir mig. Þegar ég rankaði við mér heyrði ég sandinn suða allt í
kringum mig og innan í þessu hljóði talaði gömul og lágvær rödd.
„M, vex goggurinn þinn ennþá?“
Hver var þetta? Var þetta hann? Hver annar gat það verið? Það var svo
langt um liðið. Þessi eyðimörk, þessi eyðimörk … Hvernig stóð eiginlega á
þessu?
„Já, goggurinn minn, goggurinn minn! Gerðu það segðu mér: hvar er ég?“
„Þú ert á efstu skorpu jarðarinnar. Þetta er nýja heimilið þitt.“
„Get ég ekki borað mig út úr þessu? Meinarðu að héðan í frá verði ég að
ráfa um í þessum sandi? En ég er orðinn vanur lóðréttri hreyfingu.“