Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 99
Þ r j á r s ö g u r
TMM 2013 · 3 99
Ostur og sokkar
Fyrir skömmu keypti ég ost – alveg fokdýrt oststykki – og stóð við ísskápinn,
fékk mér bita af honum og þótti hann dásamlega góður á bragðið. Að kvöldi
dags var osturinn ekki lengur í ísskápnum, ekki heldur uppi í skáp, á borð-
inu, í frystihólfinu, ekki einu sinni í verkfærakassanum, í þvottavélinni, hjá
sængurverunum eða úti á svölum. Og ekki heldur í eldavélinni. Osturinn var
sem sé horfinn og það fyrir fullt og allt, enda varð ég ekki vör við vonda lykt
úr einhverju horninu næstu daga; horni sem mér hafði mögulega yfirsést
við leitina. Ég spurði móður mína, sem þekkir hvern krók og kima á heimili
mínu: Veistu hvað varð um ostinn? Nei, svarar hún. Getur verið að þú hafir
fleygt honum? spyr ég. Nei, svarar móðir mín.
Það sama henti son minn og litlu bókina sem lá jafnan til reiðu inni á
baðherbergi þegar honum dvaldist þar inni: „Hvernig skal lifa af aðstæður
sem maður lendir sennilega aldrei í?“ Í bókinni er meðal annars fjallað um
það hvernig verjast eigi krókódíl, hákarli og fjallaljóni, hvernig maður nái að
stökkva af vélhjóli yfir í bifreið á fullri ferð, auk þess sem kennd eru rétt við-
brögð við því ef að fallhlífin manns opnast ekki. Við höfum numið af þess-
ari bók löngum stundum, svo löngum stundum að ég nennti yfirleitt ekki
að lesa síðuna með hákarlinum og vildi fletta yfir á síðuna þar sem maður
er á fleygiferð eftir ísnum og skrúfar niður bílrúðurnar á fleygiferð svo að
þrýstingurinn jafnist út skyldi bíllinn sökkva – en þá er víst leikur einn að
koma sér út úr honum á botni vatnsins. Skyndilega var litla bókin horfin.
Hún er ekki í bókahillunni og ekki í endurvinnslupokanum, hún hefur ekki
dottið upp fyrir ofninn og ekki ofan í körfuna með óhreina tauinu. Ég spyr
móður mína: Hefurðu séð litlu bókina okkar? Nei, svarar hún.
Loks hverfur þriðji hluturinn; annar eftirlætissokkurinn minn – sem telst
varla til tíðinda. Mér skilst að í líkindareikningi sé til lögmál: Lögmálið um
Horfnu sokkana, það er einmitt notað til þess að fjalla um þetta fenómen,
sem er gríska orðið yfir fyrirbæri. Ég vonast sem sagt til þess að um leið og
hlutirnir hverfa á tilteknum stað, birtist þeir annars staðar í kjölfarið; að til
sé veröld þar sem sokkurinn minn, troðfullur af ostinum dýra, hrapi niður
af brú og lifi af ógnarhátt fallið.
Æska
Og ég á orðið erfitt með að lyfta handleggjunum, segir hún og horfir niður
eftir líkama sínum eins og ókunnum hlut. Hún lítur ekki öðruvísi út en
venjulega, er lítið eitt hrumari að sjá en fyrir fjörutíu árum, samt engan
veginn eins og gömul kona. Ég verð sjötíu og fimm ára í næstu viku, segir
hún og rödd hennar hljómar eins og hún hljómaði fyrir fjörutíu árum. Ég
á pantað í heilsulind við Eystrasaltið í næstu viku, í fyrsta sinn, segir hún.