Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Qupperneq 106
S v e t l a n a A l e x i e v i t c h
106 TMM 2013 · 3
frænku. Það er satt … ég er lík honum … Það er nú allt samband mitt við
hann. Pabbi kvæntist fallegri bóndadóttur úr fátækri fjölskyldu. Hann ætlaði
að gera fína frú úr henni en mamma var alltaf með skuplu sem hún dró
langt niður á enni. Hún var engin hefðarfrú. Faðir minn bjó ekki lengi með
okkur í Síbiríu … hann fór til annarrar konu … En ég var þá fædd … Ég
var refsing! Og bölvun! Engin hafði krafta til að láta sér þykja vænt um mig.
Ekki heldur mamma. Allt þetta varð að forriti í frumum mínum: örvænting
hennar, sárindi … og andúð … Alltaf vantar mig ást, meira að segja þegar ég
er elskuð trúi ég því ekki, ég þarf stöðugt á sönnunum að halda. Vitnisburði.
Ég þarf á þeim að halda á hverjum degi, hverja mínútu. Það er erfitt að elska
mig … ég veit það … (Þegir lengi). Mér þykir vænt um minningar mínar
… Ég elska þær vegna þess að þar eru allir lifandi. Þar hefi ég allt: mömmu
… pabba … Vlödju … Ég verð endilega að sitja við langt borð. Með hvítum
dúk. Ég bý ein en í eldhúsinu er ég með stórt borð. Kannski eru þau öll hjá
mér … Ég get gengið um og allt í einu líkt eftir látbragði einhvers. Ekki mínu
eigin … kannski einhverju sem Vladja gerði … eða mamma … Mér finnst að
hendur okkar snertist …
Ég er á barnahæli. Á barnahælinu voru munaðarlaus börn útlaga alin
upp til fjórtán ára aldurs en svo voru þau send í námurnar. Og átján ára
fæ ég berkla … eins og Vladja … Þannig eru örlög mín. Valdja var vön að
segja að einhvers staðar langt í burtu ættum við hús. En það var mjög langt
þangað. Þar varð eftir Marylja frænka, systir mömmu … Ólæs og óskrifandi
bóndakona. Hún gekk á milli manna, hún bað um liðsinni. Einhverjir
vandalausir skrifuðu fyrir hana bréf. Ég skil það ekki enn hvernig henni
tókst þetta. En barnahælinu bárust fyrirmæli um að senda okkur systurnar
á tiltekinn stað. Í Hvíta-Rússlandi. Í fyrstu lotu komumst við ekki alla leið til
Minsk, við vorum látnar fara úr lestinni í Moskvu. Allt endurtók sig: Vladja
var sett á spítala, hún var komin með háan hita, en ég var sett í einangrun.
Úr einangrun var ég send á upptökuheimili. Það var í kjallara, þar lyktaði
allt af klór. Ókunnugt fólk … Alltaf lendi ég hjá vandalausum … Alla ævi.
En frænka mín hélt áfram að skrifa … og skrifa … Eftir hálft ár fann hún
mig á þessu upptökuheimili. Aftur heyri ég þessi orð „hús“, „frænka“ … Það
er farið með mig í lestina … Það er dimmt í vagninum, ekkert ljós nema á
ganginum. Skuggar af fólki. Með mér er fóstra af heimilinu. Við komum til
Minsk og keyptum miða til Postavy … öll þessi heiti þekkti ég … Vladja
hafði beðið mig: „Mundu það að óðalið okkar heitir Sovtsjino“. Frá Postavy
förum við fótgangandi til Gridki … í þorpið hennar frænku … Við setjumst
niður við brúna til að hvíla okkur. Einhver nágranni var á heimleið af
næturvakt á reiðhjóli. Hann spurði hverjar við værum. Við svöruðum að við
værum á leiðinni til Marylju frænku. „Já, sagði hann, þið eruð á réttri leið“.
Hann hefur víst skilað því til frænku að hann hefði séð okkur … hún kom
hlaupandi á móti okkur … Ég sá hana og segi: „Þessi kona er lík mömmu
minni“. Það var allt og sumt.