Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 109
B e r n s k u s a g a
TMM 2013 · 3 109
um, er hrædd við að stíga til jarðar. Þarna er engin manneskja en þarna er
líf. Niður frá lífi … alls konar lifandi vera … Ég geng um og er hrædd um
að ég skemmi hús einhvers. Sjálf get ég komið mér fyrir hvar sem er eins og
maur. Ég trúi á heimkynni. Ég vil að blóm vaxi … að allt sé fallegt … Ég man
hvernig farið var með mig á barnahælinu inn í herbergið þar sem ég átti að
búa. Hvít rúm … Ég leita með augunum: er rúmið við gluggann upptekið?
Fæ ég eigið náttborð? Ég reyni að átta mig á því hvar ég muni eiga heima.
En núna … Hvað erum við búnar að sitja lengi og tala? Á meðan slotaði
þrumuveðrinu … nágrannakonan leit við … síminn hringdi … Allt hafði
þetta áhrif á mig, ég brást við þessu öllu. En á pappírnum eru bara orðin …
Ekkert annað verður þar: grannkonan verður þar ekki, ekki símhringingar
… ekki heldur það sem ég sagði ekki en samt brá því fyrir í minninu, það
var hérna hjá okkur. Kannski segi ég frá öllu öðruvísi á morgun. Orðin verða
eftir en ég stend upp og held áfram. Ég hefi lært að lifa með því. Og kann
það. Ég geng og geng.
Hver hefur gefið mér þetta? Allt þetta … Gaf Guð það eða mennirnir? Ef
Guð gaf þá vissi hann hverjum gefa skyldi. Þjáningin ól mig upp … Hún er
mitt sköpunarverk … Mín bæn. Mikið hefur mig oft langað til að segja ein-
hverjum frá öllu. Ég missti ýmislegt út úr mér. En enginn spurði mig nokkru
sinni: „En hvað var svo … hvað?“ En ég var alla ævi að búast við góðu eða
vondu fólki, ég veit ekki af hverju en ég var alltaf að bíða eftir fólki. Ég bíð
alla ævi eftir því að einhver finni mig. Og ég segi allt við hann … og þá spyr
hann: „Já, en hvað var svo …?“ Núna er farið að segja: þetta er sósíalismanum
að kenna … honum Stalín … Rétt eins og Stalín hefði vald eins og Guð. Hver
og einn hafði sinn Guð. Af hverju þagði hann? Frænka mín … þorpið okkar
… Ég man líka eftir Maríu Petrovnu Aristovu, frábærri kennslukonu sem
heimsótti hana Vlödju okkar á sjúkrahúsið í Moskvu. Vandalaus kona … en
það var hún sem kom með hana til okkar í þorpið, bar hana inn á höndum
sér … Vladja gat alls ekki gengið lengur … Maria Petrovna sendi mér svo
blýanta og konfekt. Skrifaði mér bréf. Og svo var það á upptökuheimilinu
þar sem verið var að þvo mér og sótthreinsa mig … Ég er uppi á háum bekk
… öll í sápufroðu … ég get hrasað og meitt mig á steingólfinu. Ég renn til
og klöngrast niður … Þá grípur mig ókunnug kona … einhver fóstra … og
þrýstir mér að sér: „Unginn minn litli“, segir hún.
Ég hefi séð Guð.