Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Side 121
E r n ý t t „ k a l t s t r í ð“ í u p p s i g l i n g u ?
TMM 2013 · 3 121
snúist um áferð.20 Rússland myndi áfram gefa þá mynd af sjálfu sér að það
væri stórveldi á alþjóðaleikvanginum, varðveitti staðfast og föðurlegt viðhorf
gagnvart nágrannaríkjum sínum og krefðist lykilstöðu í öllum mikilvægum
alþjóðamálum, jafnvel í málum þar sem áhrif Rússlands eru lítil, og myndi
streitast á móti því sem líta mætti á sem ásælni vesturvelda í nágrannaríkjum
Rússlands.
Ekkert af þessu er fráhvarf frá stefnu Pútíns. Að þessu leyti má líta
á Médvédév sem skrautfígúru, samkvæmt þessu tók Pútín áfram allar
mikil vægar ákvarðanir. Fræðimaðurinn Andrew Monaghan við bresku
hugveituna Chatham House, er meðal annarra þessarar skoðunar.21 Aðrir
telja sig hafa séð vissa breytingu frá herskárri línu Pútíns og að líta megi á
Médvédév sem frjálslyndari stjórnmálamann, a.m.k. ef bakgrunnur hans
væri skoðaður. Fleiri forystumenn í rússneskum stjórnmálum hefðu „mýkt“
orðfæri sitt þannig að það varð óþekkjanlegt eftir að Médvédév varð fram-
bjóðandi Sameinaðs Rússlands.22 Þó verður að telja að það hafi verið mikil
bjartsýni að búast við sérstakri stefnubreytingu.
Médvédév stóð þó e.t.v. að einhverju leyti fyrir nýrri stefnumótun því
að samþykkt var ný utanríkisstefna fyrir Rússland árið 2008 sem leysti
af hólmi stefnuna frá árinu 2000. Þá var samþykkt þjóðaröryggisstefna
2009 og hernaðarstefna árið 2010. Í utanríkisstefnunni er lögð áhersla á
breytt umhverfi alþjóðamála og sterkari stöðu Rússlands frá aldamótum
sem krefjist uppfærslu eða endurmats á fyrri stefnu. Fyrsta áhersluatriðið
snertir þjóðaröryggi, að viðhalda og styrkja fullveldið og hina landfræðilegu
einingu ríkisins og áfram er áhersla lögð á áhrifavald Rússlands í samfélagi
þjóðanna, þetta þurfi að vera til staðar til að styrkja getu á sviði stjórn-
mála, efnahagsmála og mannauðs.23 Þá er undirstrikað mikilvægi þess að
efna til góðra tengsla og samstarfs á erlendum vettvangi í því augnamiði að
nútímavæða Rússland, til þess að bæta lífskjör og treysta innviði og stoðir
samfélagsins, m.t.t. lýðræðis, réttarríkisins, mannréttinda og frelsis en líka
til að efla samkeppnishæfni landsins í hnattvæddum heimi. Vitaskuld er
ábyrgð Rússlands í samfélagi þjóðanna undirstrikuð og vilji til samstarfs
til að tryggja öryggi, þ.m.t. í sameiginlegum fjölþjóðlegum aðgerðum. Þar
kemur fram vilji til náins samstarfs við nágrannaríkin, ekki síst fyrrum
Sovétlýðveldi (að Eystrasaltsríkjum undanskildum), en hins vegar er litið
á stækkun NATO sem ögrun við Rússland. Sláandi er hversu sjálfhverf
utanríkisstefnan er um rússneska hagsmuni og í henni birtist andstaða
við einhliða áhrif Bandaríkjanna. Þetta er iðulega látið í ljós með óbeinum
hætti í gegnum orðanotkun, eins og með orðinu mnogostoronnyj sem þýðir
„marghliða“ en vísar til þess að alþjóðleg deilumál eigi að leiða til lykta með
aðkomu margra en ekki á forsendum Bandaríkjanna einna. Það kemur ekki
á óvart að hugtök eins og lýðræði og mannréttindi eru ekki skilin á vestræna
vísu heldur meira í samhenginu „Rússland er fullvalda lýðræði“ eins og það
sé andstæðan við hið vestræna „Messíasar“ lýðræði.24