Morgunblaðið - 05.05.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 05.05.2019, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 6. MAÍ 2019 Stjörnustríðs- og myndasögudagurinn Fjölmenni mætti í verslunina Nexus í Glæsibæ í Reykjavík á Ókeypis myndasögudeginum sem var haldinn í átjánda sinn á laugardaginn var, 4. maí. Sá dagur er einnig helgaður stjörnustríðsmyndunum ár hvert og fulltrúar keisaraveldisins úr kvikmyndasyrpunni vinsælu mættu því í verslunina í fullum herklæðum, auk myndasögulesenda. Hari Því er haldið fram að heilbrigðiskerfið hér á landi lifi sínu sjálfstæða lífi. Það er vissulega eitthvað skrýtið við þá fullyrðingu þar sem kerfum er ætlað að skapa ramma um sam- félagið, þau þurfa þar með að taka breyt- ingum með samfélag- inu, eða með öðrum orðum, þau eiga að laga sig að þörfum samfélagsins og þar með landsmanna allra. Ef litið er að- eins nokkra mánuði aftur má minn- ast þess að ríkisstjórnin ætlaði að skoða að draga úr kostnaði sjúklinga við ferðir og uppihald. Það þýðir að færa þjónustuna nær notendum hennar. En samt er staðan sú að flestir þurfa að sækja sérhæfða sjúkrahúsþjónustu á Landspítala við Hringbraut og þannig verður það áfram samkvæmt heilbrigðis- og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Kerfið lifir sínu sjálfstæða lífi og það er löngu fyrirséð að þetta fyrir- komulag hentar ekki. Áherslan er að mestu á framkvæmdir við nýjan Landspítala, mestallt fjármagn sem talið er til í fjármálaáætlun 2020-2024 er ætlað í framkvæmdirnar, þrátt fyrir að vitað sé að það er sokkinn kostnaður. Í nágrannalöndunum er önnur staða, verið að hugsa til fram- tíðar, reistir eru spítalar í útjaðri borga þar sem aðgengi er öruggt og gott. Því er haldið fram að með nýjum Landspítala við Hringbraut verði að- gengi mun betra, það er þó varla mögulegt þó svo á einhverjum tíma- punkti hafi það verið gerlegt. Stór- auka á dag- og göngudeildarþjón- ustu. Það er furðulegt þar sem núverandi fyrirkomulag hentar vel, þ.e. að nýta þjónustu sérgreinalækna sem starfa utan Hringbrautar. Reyndar er rammasamningur við þá í uppnámi en það skyldi þó ekki vera vegna þess að færa á þjónustu sem þeir veita núna inn á spítalann. Land- spítala við Hringbraut er einnig ætl- að að þjónusta börn og ungmenni í fíknivanda, þjónusta sem SÁÁ hefur sinnt fram að þessu, vegna þess þarf að ráðast í breytingar á húsnæði og auka þarf mönnun. Landspítali veitir enn fremur heilbrigðisþjónustu vegna sjúklinga frá Færeyjum og Grænlandi. Það verður að nefna að æskilegra er að Sjúkra- húsið á Akureyri sinni þessum þætti vegna praktískra atriða. Undanfarin misseri hefur gagnrýni á stað- setningu Landspítala helst beinst að aðgengi við Hringbraut. Þeirri gagnrýni hefur verið svarað á þann hátt að vandinn sé aðeins tíma- bundinn, allt verði í lagi að framkvæmdum lokn- um. Sú gagnrýni sem nær upp á yfirborðið er vöntun á bíla- stæðum við spítalann, 1.100 bílastæði eru þar nú og að framkvæmdum loknum verða þau alls 2.000. Að þessu sögðu er rétt að minna á að boðað hefur verið að sjúkrahótelið verði opnað fljótlega, það mun einnig auka umferð við spítalann. Eftir stendur að þó svo að fram- kvæmdum ljúki á einhverjum tíma- punkti stendur eftir sem áður kerf- isvillan sem felst í því að hlaða allri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á einn blett með tilheyrandi kostnaði og álagi á starfsfólk, sjúklinga og að- standendur á sama tíma og Landspít- ala er einnig ætlað að vera héraðs- sjúkrahús fyrir rúmlega 200 þúsund einstaklinga og veita þjónustu eins og aðrar heilbrigðisstofnanir lands- ins. Það er mikilvægt að hefjast handa strax við að byggja nýtt þjóðar- sjúkrahús til framtíðar með öryggi og aðgengi að leiðarljósi og þar sem notendur þjónustunnar og þeir sem veita hana eru í forgangi. Í stað þess að setja frekari fjármuni í uppbygg- ingu við Hringbraut má nota fjár- magnið í brýn og aðkallandi verkefni innan heilbrigðiskerfisins alls sam- hliða því að gera við þann húsakost sem nú er við Hringbraut, þ.e. þau hús sem ekki þarf að rífa. Eftir Önnu Kol- brúnu Árnadóttur » Í stað þess að setja frekari fjármuni í uppbyggingu við Hring- braut má nota fjár- magnið í brýn og aðkall- andi verkefni innan heilbrigðiskerfisins alls. Anna Kolbrún Árnadóttir Höfundur er þingmaður Miðflokksins. Ríkið við Hringbraut Ný skoðanakönnun MMR sýnir að mikill meirihluti þjóðarinnar leggst gegn því að heimila innflutning á hráu ófrosnu kjöti, eða 55% en 27% eru því fylgjandi. Málið snýst um rétt Alþingis til að taka eigin ákvarðanir í málum sem lúta að lýð- heilsu, öryggi og holl- ustu innlendra matavæla og vernd viðkvæmra búfjárstofna gagnvart hættulegum smitsjúkdómum. Frystiskyldan er öryggisventill Þótt frystingin drepi aðeins sum- ar bakteríur gefur hún aðhald, tíma og svigrúm til að kanna hollustu vör- unnar áður en hún fer markað. Matvælafrumvarp EES/ESB veltist um í stjórnsýslunni frá því að fulltrúar þáverandi ríkisstjórnar ár- ið 2002 féllust á reglugerð nr. 178 frá ESB um frjálsan innflutning á kjöt- vörum. Sú samþykkt var að sjálf- sögðu gerð með fyrirvara um sam- þykki Alþingis. Vissulega var það óheillaspor en þá bjuggust menn alls ekki við því að nokkurntíma yrði flutt inn hrátt ófrosið kjöt eða óger- ilsneydd mjólk vegna fjarlægðar og flutningskostnaðar. Eyríkið Ísland var talið hafa þá sérstöðu að slíkt kæmi aldrei til. Ferill málsins á Alþingi Sótt var hart að Alþingi að sam- þykkja og innleiða þessa reglugerð ESB hér á landi. Sameiginlega EES-nefndin hafði uppi hótanir við ráðherra ef hann beitti sér ekki fyrir innleiðingunni. Mest var tekist á um „hráa kjöt- ið“, breytingu á þeim undanþágum sem Ísland hafði haft frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn, þ.e. undanþágu frá frjálsu flæði á lifandi dýrum, hráum sláturafurðum, óger- ilsneyddri mjólk o.fl. Lögð voru fram fjögur frumvörp fyrir jafnmörg þing, sk. bandormar til breytinga á ofangreindum lögum, sem öll fylgja hér með. Fyrst var lagt fram frumvarp á vorþingi 2008. Þar var kveðið á um að leyfisveitingakerfi fyrir hrátt kjöt o.fl. yrði fellt niður. Það frumvarp mætti mikilli andstöðu í þingnefnd og var ekki afgreitt úr landbún- aðarnefnd. Næsta frumvarp (frv. 2) sama efnis var lagt fram í janúar 2009. Það mætti áfram mik- illi andstöðu og var heldur ekki afgreitt úr þingnefnd. Frumvarp 3 var lagt fram á sumarþingi 2009. Þar var gerð sú meginbreyting að inn- flutningur á hráum sláturafurðum o.fl. var áfram gerður leyf- isskyldur, m.a. með frystikvöðum. Þetta frumvarp varð heldur ekki að lögum vegna andstöðu þingsins, en fjórða frumvarpið var lagt fram haustið 2009. Í því frumvarpi var ein efnisleg breyting frá því þriðja, þ.e. að bætt var við hráum eggjum, ósótthreins- uðum hráum skinnum og húðum við bannvörur í 10. gr. laga um dýra- sjúkdóma og varnir gegn þeim (32. gr. frv.). Með þeim grundvallarbreytingum varð þetta frumvarp að lögum nr. 143/2009. Alþingi stóð fast á fyrirvörunum Það var ófrávíkjanlegt skilyrði Al- þingis fyrir samþykkt sk. mat- vælalöggjafar Evrópusambandsins 2009 að áfram væri bann við inn- flutningi á hráu ófrosnu kjöti, hráum eggjum, ógerilsneyddum mjólkur- vörum og hráum ósútuðum skinnum. Málið hafði fjórum sinnum verið lagt fyrir Alþingi Íslendinga sem hafnaði því afdráttarlaust að leiða „matvælapakka ESB“ í heild sinni sinni í íslensk lög þrátt fyrir yfirlýs- ingu og kröfu sameiginlegu EES- nefndarinnar á sínum tíma um að það yrði gert. Lýðheilsa og heilbrigði búfjár er ekki verslunarvara Það var mat Alþingis 2009 að það væri réttur Íslendinga að ákveða sjálfir öryggiskröfur sínar varðandi vernd heilsu manna og dýra og á þeim forsendum var „matvælapakk- inn“ samþykktur á Alþingi með skýrt skilgreindum frávikum. Heilbrigði íslenskra búfjárkynja og lýðheilsa þjóðarinnar er á póli- tíska ábyrgð íslenskra stjórnvalda en ekki verslunarvara í almennri samkeppni sem lýtur lögmálum frjálsra viðskipta. Á þeim forsendum var „matvælakaflinn“ samþykktur á Alþingi, annars hefði hann aldrei verið afgreiddur. „Matvælalöggjöf“ ESB öll fallin úr gildi Þessi afgreiðsla Alþingis var kærð fyrir dómstólum EES/ESB sem dæmdi undanþáguna og þar með innleiðingu reglugerðarinnar ólög- lega. Hæstiréttur hefur síðan stað- fest að ekki er hægt að samþykkja innleiðingu frá ESB með fyrirvara. Mín skoðun, sem ráðherra á þeim tíma, er sú að „matvælakafli“ ESB ásamt innleiðingu hans sé allur fall- inn úr gildi eftir dóm Hæstaréttar í málinu. Í meðferð þingsins voru öll þessi ákvæði samningsins sem ein heild. Alþingi var því fullkomlega ljós á þeim tíma alvara málsins og af- greiddi hann sem heild en ekki í bút- um. Alþingi hafnaði „hráa kjötinu“ alfarið 2009 Eftir ítrekaða höfnun Alþingis þótti fullreynt vorið 2009 að lög sem heimiluðu innflutning á hráu ófrosnu kjöti yrðu ekki afgreidd á Alþingi. Því var ákveðið í frumvarpinu sem flutt var sumarið 2009 að halda inn- flutningsbanninu, en tekið fram í greinargerð að það væri ekki í sam- ræmi við samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þannig var mál- ið einnig kynnt í ríkisstjórn og fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna. Sjávarútvegs- og landbúnaðar- nefnd Alþingis komst að þeirri nið- urstöðu 2009 að bannið við innflutn- ingi á hráu ófrosnu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk væri í samræmi við það sem Ísland hafði samið um við EES og vísaði þar til 13. gr. EES-samningsins. Þannig var frumvarpið í heild sam- þykkt samhljóða og mótatkvæða- laust á Alþingi sumarið 2009. Eftir Jón Bjarnason »Málið snýst um rétt Alþingis til að taka eigin ákvarðanir í mál- um sem lúta að lýð- heilsu, öryggi og holl- ustu innlendra matvæla og vernd viðkvæmra bú- fjárstofna. Jón Bjarnason Höfundur er fyrrverandi landbúnaðarráðherra. „Hráa kjötið“ og sjálfstæði Alþingis

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.