Morgunblaðið - 05.05.2019, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 05.05.2019, Blaðsíða 27
minnar fyrrverandi, Nínu Bjark- ar Árnadóttur. Næsta séníið var Alfreð Flóki – meistari linunnar – en við vorum „deeply in love“ meðan báðir lifðu. Næsta séní var Jón Helgason prófessor, en dóttir hans giftist Jóni Nordal tónskáldi, sem var nauðalíkur móður sinni, Ólöfu, en afi henn- ar, Jens rektor Sigurðsson, var bróðir Jóns forseta. Ungur – 13 ára – orti Jón: Hreinferðug er historian sanna hvar fortalt skal nú einn smúla frá sorgleg blífur endaligt illra manna ætið hittir refsivöndur þá. Hver í burtu heila grasið hífar hvorki rós ne jasmín skánar hann. Síðar þegar Jón lést 1988 eða ’89 hafði hann nokkrum árum áður kvænst fræðikonunni Ag- nete Loth. Við lát sitt arfleiddi hún Jesúítaregluna í Kaup- mannahöfn að húseign Jóns og gríðarlega merkilegu bókasafni tuga þúsunda binda. Þar var m.a. áritað eintak af Jónasi Hall- grímssyni í Fjölni og bók árituð frá Gaymard til Jónasar. Ekki síst var gestabók Jóns og konu hans en í henni var vélritað ein- tak af Maríukvæði Halldórs Laxness – örugglega ritað á rit- vél Árna Magnússonar og nafnið ritað með grænu bleki. Samdi Atli lag við þetta nú fræga ljóð sem ég var svo gæfusamur að finna og verður það væntanlega flutt við útför hans. Á heimili Atla og Sigríðar Sigurbjörnsdóttur á Lindargötu áttum við glaðar og lifandi stundir og síðar með lífsförunaut hans á seinni árum, Sif Sigurð- ardóttur. Fyrir nokkrum árum bauð Atli mér og Jörmundi Inga Hansen allsherjargoða til teitis í villu móðurfjölskyldunnar í Ás- garði – Flatey á Breiðafirði – en hús Guðmundar og Jónínu ömmu hans hafði þá verið gert upp yst sem innst. Þar steikti hann lambalæri, spilaði og söng og við allsherjargoðinn dreypt- um oggulítið á dýrum veigum með Guðmundi Páli Ólafsyni náttúrumanni og vini okkar. Atli Heimir átti barnaláni að fagna – synir þeirra Sigríðar og hans eru Auðunn og Teitur, báð- um foreldrunum til sóma og prýði. Blessuð veri minning þessa góða og trygga vinar. Bragi Kristjónsson. Þá er Atli farinn. Það eru mikil forréttindi hafa átt slíka menn að vinum og samverka- mönnum. Aðrir menn mér færari munu rekja þau miklu áhrif sem hann hafði í tónlistarlífi okkar, hrósa honum fyrir hans miklu færni og fjölhæfni, frjóu sköpunargáfu og elju. Mig langar hins vegar að minnast þess tíma, þegar okkar bestu tónskáld voru heimagang- ar í leikhúsunum og þar var hlutur Atla ekki minnstur. Við kynntumst í skóla eins og margur, og unnum satt að segja fyrst saman í véböndum MR. Það var í þeirri frægu sýningu, Bubba kóngi, eftir Jarry. Eftir það slitnuðu aldrei böndin. Hann samdi til dæmis að minni beiðni madrígalana fögru í Dansleik Odds Björnssonar. Ég hef það fyrir satt, að annar þeirra hafi orðið eftirlæti sænska útvarpsins. Ekki var hann minna bóngóður þegar ég hringdi að norðan, sagðist vera með Davíð Stefánsson í hönd- unum og leik um Sölva Helgason og nú vantaði mig fjögur lög sem lýstu útlagakennd skálds- ins. Viku síðar eða svo var Atli kominn norður með kvæðin sem ég hafði bent á og nú voru fædd lög, sem sennilega gleymast seint. Eitt þeirra er Snert hörpu mína, sem hvert mannsbarn á Íslandi kann í dag. Eitt dæmi af mörgum. Atli bjó nefnilega yfir þeirri gáfu að geta samið ljúf og söng- væn lög engu síður en konserta og sinfóníur líkt og þeir Stock- hausen og Lutoslawski og aðrir nútímatónsnillingar og þar sem hann sýndi gjaldgengi sitt á því háa heimsins plani. En ekki held ég að lögin hans við kvæði Jón- asar eigi eftir að lifa skemur. Ótrúlega skemmtileg afmælis- kveðja til skáldsins og okkar allra. Og nú kemur að óperunum. Ég held að kveikjan að Silki- trommunni hafi fæðst eina bjarta vornótt í Björgvin. Þar var flutt verk eftir Atla sem heitir I call it. Þetta verk fyllti svo hug minn að við sátum hálfa nóttina og ræddum um – listina, hvað annað? Úr þessu varð æv- intýri sem bar okkur alla leið á kyrrahafsströnd Suður-Amer- íku. Ef dugur væri í Íslensku óp- erunni má benda á að kominn er tími aftur á þetta öndvegisverk. En þessi norska vornótt kallast á við aðra ógleymanlega slíka í Flatey, þar sem Atli átti einnig óðöl sín. Þar heilsaði nóttin degi og allir fuglar himins tóku undir. Í annað sinn munaði minnstu að við ynnum saman að óperu- verki. Atli hafði samið óperu í tilefni af kristnitökunni á Ís- landi, magnað verk. Við Sigur- jón Jóhannsson vorum valdir til að búa því sviðsbúning og þótt- umst hafa fundið allsnjalla sviðs- lausn sem hentaði þröngum húsakynnum Gamla bíós. En svo drógu menn að sér hendurnar og verkið er enn óflutt, eins og reyndar nokkrar aðrar íslenskar óperur, líka eftir Atla, því hann samdi þær fleiri að ógleymdri Tunglskinseyjunni, sem barst alla leið til Kína, og sjónvarps- óperunni Vikivaka, sem er byggð á sögu Gunnars Gunn- arssonar. Þetta var bara sýnishorn af því hvernig listgreinarnar sam- tvinnast. Það gerir vináttan líka og við Þóra eigum að minnsta kosti tvö verk sem hann tileink- aði okkur óverðugum. En Atla verður ekki minnst án þess að geta um hans hlýju vináttu og hans gjöfulu nærveru. Síðast þegar við sáumst var ég að býsnast yfir vitleysu heimsins, en að þessu hló Atli, farinn að sjá langt út yfir slíka smámuni. Sonum Atla sendum við Þóra hlýjar samúðarkveðjur. Sjálfur er hann kvaddur með trega. Sveinn Einarsson. Leiðir okkar Atla Heimis lágu fyrst saman í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hann kenndi mér veturlangt á píanó. Byrjandinn fékk Czerny til að glíma við en fljótlega bættust smálög eftir Schönberg á verka- listann. Seinna um veturinn mætti ég með klarínettuna í tíma og við spiluðum saman 4 lög op. 5 eftir Alban Berg. Á þessum mánuðum lærði ég vissulega undirstöðuatriði í pí- anóleik en heill heimur tónlistar opnaðist fyrir mér í nærveru þessa stórgáfaða snillings sem Atli var. Stuttu síðar hóf ég nám við Tónlistarháskólann í Vínar- borg. Eftir heimkomuna þaðan leiddi tónlistin okkur reglulega saman og úr varð vinátta sem entist alla tíð. Það var alltaf gaman að hitta Atla, hlusta á sögurnar hans og hlæja með honum. Þá er mér sérstaklega hugstætt hversu barngóður hann var. Varðandi flutning á verkum Atla koma margar góðar minn- ingar upp í hugann. Rondo Fan- tastico á norrænni tónlistarhátíð í Bremen, Tíminn og vatnið í Langholtskirkju undir stjórn Pauls Zukofskys, ferðin með Kammersveit Reykjavíkur, Atla og verkum hans til Frakklands, margendurtekinn flutningur á tríóinu Plutôt blanche qu’azurée með Önnu Guðnýju og Bryndísi Höllu – m.a. í Svörtu perlunni í Kaupmannahöfn. En síðast en ekki síst flutningur á Jónasar- lögunum víða um land og erlend- is. Það ævintýri byrjaði árið 1996 þegar Atli bað mig að setja saman „vínarískan salonkvar- tett“ til að spila undir lögum hans við ljóð Jónasar Hallgríms- sonar. Lögin voru frumflutt í Skarðskirkju í Landsveit með Signýju Sæmundsdóttur í broddi fylkingar og síðan víða á Norðurlandi fyrir tilstilli Hall- dórs Blöndal, m.a. í Bakkakirkju í Öxnadal þar sem Jónas var skírður og úti í Grímsey. Á 200 ára fæðingarári Jónasar árið 2007 flutti nýr „Fífilbrekkuhóp- ur“ lögin á Íslandi, í London, Kaupmannahöfn, Berlín og á Gimli í Manitobafylki í Kanada. Atli og Sif Sigurðardóttir kona hans voru með í flestum þessara ferða. Árið 2014 stofnuðu nokkrir skólabræður Atla, þeir Halldór Blöndal, Ragnar Arnalds og Styrmir Gunnarsson, Hollvina- samtök Atla Heimis Sveinssonar og fengu okkur Áshildi Haralds- dóttur flautuleikara, Kristínu Sveinbjarnardóttur og fleiri í lið með sér. Samtökin hafa á und- anförnum árum unnið að útgáfu á óbirtum verkum Atla, gert heimasíðu, http://www.atliheim- irsveinsson.is, og stuðlað að flutningi á verkum hans svo eitt- hvað sé nefnt. Þessari vinnu verður haldið áfram. Við Anna Guðný kveðjum Atla með bæn sem hann tónsetti og gaf mér í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum: Bið ég María bjargi mér burt úr öllum nauðum annars heims og einnig hér, ástmær guðs, ég treysti þér, bið þú fyrir mér bæði lífs og dauðum. Blessuð sé minning Atla Heimis Sveinssonar. Sigurður Ingvi Snorrason. „Traustur vinur getur gert kraftaverk“ söng hann hástöfum fyrir mig í bílnum á leiðinni inn á Skriðuklaustur þar sem ég og tónskáldið héldum til æfinga. Það söng hann eftir að hafa spurt mig hvaða dægurlag ég héldi að honum þætti einna skemmtilegast. Og traustur vinur var hann. Ég naut þeirra forréttinda að fá að halda tvenna einsöngstón- leika með Atla Heimi sem var mjög svo gefandi tími og hann píanasti góður. Endalaus tími til æfinga fyrir söngkonu sem var dálítið áhyggjufull fyrir fyrstu einsöngstónleikana. Ekki vildi hann þiggja greiðslur fyrir, heldur sagði hann mér að kaupa mér eitthvað fallegt. Hann var mikill fagurkeri og hafði mikinn áhuga á því að vita í hverju mað- ur ætlaði að koma fram. Atli Heimir var haukur í horni þegar LÍN þráaðist við að lána fátækum námsmönnum í Amsterdam. Það var orðið frem- ur þröngt í búi þegar Atli hringdi og spurði hvernig gengi. Hann bauðst til þess að fara strax daginn eftir og lesa yfir hausamótunum á starfsmönnum þar. Lánið kom nokkrum dögum seinna. Var tónskáldið blessað í bak og fyrir. Atli Heimir var einnig sá maður og sá eini sem hringdi í einstæðu bíllausu móðurina í Hafnarfirði fyrir jól og spurði hvort hún þyrfti ekki að útrétta eitt og annað eins og að kaupa jólatré og konfekt. Ég átti þess kost að vinna með Alta Heimi m.a. í verki hans Tímanum og vatninu, hljóð- ritað í Langholtskirkju. Þar var hinn oft á tíðum óbilgjarni Paul Zukofsky við stjórnvölinn og sendi Alta til þess að biðja íbúana í nágrenni kirkjunnar að hætta að slá þar sem hljóðið lak inn í upptökuna. Af stað stökk Atli Heimir og talaði við ná- grannana. Þá gargaði mávager sem einnig truflaði upptökuna og aftur hrópaði hljómsveitar- stjórinn á Atla Heimi. En þá var úr vöndu að ráða. Þá eru einstaklega minnis- stæðir tímar þegar við fórum ásamt góðum hópi tónlistarfólks með óperu hans Tunglskinseyj- una í ferð um Þýskaland og aft- ur þegar Eyjan var frumflutt í Peking. Félaginn og stemning- armaðurinn Atli Heimir er ógleymanlegur. Ef flutningur á verkum hans tókst ekki sem skyldi var hann alltaf jafn já- kvæður og hvetjandi og sagði: „Það var samt stemning í þessu.“ Atli Heimir var heimsmaður af guðs náð og kunni sig við öll tækifæri. Opnaði fyrir dömum dyrnar, dró fram stólinn og setti konur til sætis og sótti þær fyrir tónleika. Annan eins herramann var vart að finna á Íslandi. Hann var endalaus upp- spretta af visku og fróðleik. Ekki bara um tónlist heldur um bókmenntir, listir, heimspeki, stjórnmál og allt hvað er. Hver stund með honum var mennt- andi. Atli Heimir var einstakur maður sem á stórt pláss í hjarta mínu og er ég afar þakklát fyrir að hafa notið samvista við hann, flutt verk hans og tekið þátt í frumflutningi á tónsmíðum hans. Nú heldur hann í sína hinstu ferð á vit Sifjar, eiginkonu sinn- ar, sem hann elskaði heitt. Blessuð sé minning Atla Heimis Sveinssonar. Takk fyrir allt elsku Atli minn. Sonum hans og fjölskyldum votta ég mína dýpstu samúð. Ingveldur G. Ólafsdóttir. Ég átti því láni að fagna að umgangast Atla Heimi nokkuð stíft í meira en áratug. Við vor- um samkennarar í MR í fjögur ár og brölluðum ýmislegt saman eftir það um árabil, tróðum upp sem skemmtikraftar í þóknan- legum félagsskap, vorum hálf- gerðir heimagangar hvor hjá öðrum á tímabili, dóttir mín var eitt sumar hjá honum í Flatey og vingaðist við Jónínu ömmu hans. Fjölmargt mætti segja um þann hæfileikaríka mann. Ég kýs að draga fram skopskynið. Hann gat verið afbragðs sögu- maður þegar sá gállinn var á honum og ekki síst fundvís á veikleika náungans sem hann túlkaði með allt að því tónskáld- legum tilþrifum. Stundum grun- aði maður hann að vísu um að hagræða efninu örlítið í þágu skemmtanagildis, líkt og haft var eftir Jónasi frá Hriflu: „Fer betur á því svona. Gæti verið satt.“ En þótt hann ætti til að draga kollega sína sundur og saman í háði heima í stofu var hann ekkert nema mildin þegar hann skrifaði um verk þeirra í blað. Þá var mannúðin og skiln- ingurinn ríkjandi. Atli var reyndar afar stéttvís og einarður baráttumaður fyrir hagsmunum félaga sinna sem hann gætti af kostgæfni í hlutverki sínu sem formaður Tónskáldafélagsins í rúman áratug. Atli vildi brjóta nýjar leiðir í músíkinni, en það hnussaði í honum gagnvart þeirri hreyf- ingu sem gerði sig gildandi víða í Evrópu upp úr 1968 og ekki síst á Norðurlöndum, að tónlist- in ætti að vera „samhälls- orienterad“. Á einni slíkri ráð- stefnu sagðist hann hafa spurt á sinni gömlu dönsku: „Hvordan lyder et samfundsorientered strygekvartet?“ Atli var vissulega marglyndur jafnt sem fjölhæfur. Hann gat verið óhemja á skemmtisviðinu, en annað veifið líkastur mein- lætamanni. Hann sagðist öðru hverju þurfa að krossfesta hold- ið. Hann lét stundum sem hinn einlægasti alþýðuleiðtogi en stærði sig þess á milli af því að vera breiðfirskur aðalsmaður. Hann hafði samt ekki hið sam- anrekna breiðfirska vaxtarlag sem hann sagði að hefði þróast gegnum aldirnar við að róa ára- bátum. Atli hugsaði stórt en taldi aldrei eftir sér að rétta sína list- rænu hjálparhönd til hins smæsta, þótt ekki væri annað en semja lag við einfalda vísu um litla stúlku. Trúlegt mun líka að sum smáverkin hans muni lifa enn lengur en stórvirkin, á svip- aðan hátt og ævintýri Hosé And- ersens, sem hann sjálfur taldi lítt merkileg, urðu langtum líf- seigari en hin sem hann lagði mestan metnað í, ellegar smá- kvæði Goethes sem virðast lifa lengst af verkum þess jöfurs. Mörgum ágætismanni hefur maður kynnst um dagana, og Atli er án efa í efri kantinum. Árni Björnsson. Kveðja frá Tónskáldafélagi Íslands Tónskáld landsins standa í þakkarskuld við Atla Heimi Sveinsson. Ástæður þess eru margvíslegar og þau víðtæku áhrif sem hann hafði á starfsum- hverfi þeirra ótvíræð. Fyrst er að nefna störf hans í þágu Tónskáldafélagsins. Þau störf voru ávallt samofin vinnu hans að auknum tengslum við tónlistarlífið og þar með baráttu fyrir málstað og kjörum starf- andi tónskálda. Þetta leiddi til stofnunar Myrkra músíkdaga, tónlistarhátíðar sem orðin er ómissandi þáttur í menningarlífi okkar. Erlendir kollegar voru jafnan heillaðir af hæfileikum hans og hann átti auðvelt með að vinna sér bandamenn úr þeirra röðum. Hann styrkti því alþjóð- leg tengsl okkar og enginn þurfti að undrast að hróður hans og listfengi yrði til þess að hann fékk Tónskáldaverðlaun Norður- landaráðs, fyrstur íslenskra tón- skálda. Honum ber að þakka allt hans starf við fræðslu, ýmist sem vekjandi og hvetjandi kennari ungmenna – oft verðandi lista- manna – eða sem fyrirlesari eða útvarpsmaður sem kynnti nýja erlenda tónsköpun fyrir hlust- endum. Honum ber að þakka sú al- gera einurð sem hann sýndi hve- nær sem var í þágu frjálsrar og metnaðarfullrar tónsköpunar. Hann vakti þannig eyru, eða í það minnsta forvitni manna úr öllum stéttum. Þetta gerði öðr- um tónskáldum auðveldara að fóta sig í víðáttum nýrrar tón- listar. Honum ber að þakka öll sú hvatning og samstaða sem hann sýndi yngri tónskáldum. Um leið var hann öllum kollegum sínum fyrirmynd með eljusemi sinni og listrænum metnaði. Kersknin og kímnigáfan verða ekki skilin frá minningu þeirra sem kynntust honum enda næst- um eins og samofin tónlistar- hæfileikunum og sköpunarkraft- inum. Og þeir sem áttu vináttu hans munu ekki hafa kynnst traustari vini. Morgunblaðið/Golli Atli Heimir tekur í hönd svissneska hljóm- sveitarstjórans Baldurs Brönnimann að loknum tónleikum sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stóð fyrir í tilefni af af sjötugsafmæli hans. SJÁ SÍÐU 28 MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 6. MAÍ 2019

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.