Morgunblaðið - 05.05.2019, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 05.05.2019, Blaðsíða 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 6. MAÍ 2019 lagi. Ég geri mér grein fyrir því að eðlilegt er að menn komi og fari. Ég geri mér líka grein fyrir því að enginn er ómissandi. Ég er kominn á það skeið að vera mjög sáttur við þann árangur sem ég hef náð og nú er komið að því að ég segi: Minn tími er liðinn.“ Hörður var ekki nema 62 ára þegar hann fyrir um 19 árum lét af störfum sem forstjóri Eim- skipafélags Íslands. Hans verður minnst sem eins áhrifamesta leiðtoga í íslensku atvinnulífi á síðustu öld en um leið manns sem hélt á lofti mikilvægi menntunar og skýrrar framtíðarsýnar m.a. með því að láta málefni Háskóla Íslands sig miklu varða og var hann kjörinn heiðursdoktor við skólann. Ég votta Áslaugu, Ingu, Jó- hanni Pétri og fjölskyldu samúð mína. Merkur maður hefur nú kvatt okkur en hvatningarorð hans og sterk lífsgildi lifa áfram. Ásdís Halla Bragadóttir. Nú er skammt stórra högga á milli hjá þeirri kynslóð sem fæddist í konungsríkinu Dan- mörku-Íslandi árið 1938. Fyrst bárust fregnir af láti Atla Heimis Sveinssonar tónskálds og tveim- ur sólarhringum síðar um lát Harðar Sigurgestssonar. Við þrír hófum allir skólagöngu okkar í Melaskóla haustið 1946. Hörður var ekki í sama bekk og við Atli Heimir en við kynntumst á leik- vellinum við skólann. Eftir þriggja ára samferð í Melaskóla lágu leiðir okkar Harðar saman á ný haustið 1958 í Háskóla Íslands, en hann var þá við nám í viðskiptafræðideild og ég í lagadeild. Báðir fórum við fljótt að starfa í Vöku, félagi lýð- ræðissinnaðra stúdenta, og þar kom að Hörður var kjörinn for- maður Stúdentaráðs Háskóla Ís- lands sem fulltrúi Vöku. Hæfni Harðar í fyrirtækjarekstri kom þá þegar í ljós. Hann var um skeið hótelstjóri á Hótel Garði, sem þá var rekinn sem sumar- hótel og fórst það vel úr hendi. Þótt áhugi Harðar beindist fljótt að rekstri hafði hann samt alltaf auga á pólitíkinni, en sýndi engin merki um persónulegan pólitískan metnað. Hann vildi fylgjast með og hafði skoðanir. Mér er minnisstætt samtal við Indriða Pálsson árið 1979, sem nokkrum árum áður hafði tekið sæti í stjórn Eimskipafélags Ís- lands. Óttar Möller hafði tilkynnt að hann hygðist láta af störfum sem forstjóri Eimskips. Indriði spurði, hvort ég gæti bent honum á hugsanlegan eftirmann. Ég benti honum á Hörð. Hann sagði mér þá, að það hefðu fleiri gert. Og sú varð niðurstaðan. Næstu árin á eftir töluðum við mikið saman. Það var ómetanlegt fyrir mig í mínu starfi vegna þess hvað þekking Harðar á viðskipta- lífinu var mikil. Fljótt fór ég að verða var við umtal ungra manna, sem réðust til Eimskips í forstjóratíð Harðar, á þann veg að þeir litu á það sem eins konar ígildi háskólanáms að starfa þar undir hans stjórn. Við fall Sambands íslenzkra samvinnufélaga urðu samtöl okk- ar Harðar erfiðari en alltaf hrein- skilin. Eimskipafélagið hafði lengi haft einhvers konar ægi- vald í viðskiptalífinu og ég hafði orðið var við núning á milli rit- stjóra Morgunblaðsins og Eim- skipafélagsmanna á þeim tíma, sem Eyjólfur Konráð Jónsson starfaði á blaðinu. Ég varaði Hörð við að Eim- skip mætti ekki ganga of langt í að auka hlutdeild sína í viðskipta- lífinu í kjölfar falls SÍS en að lok- um sauð upp úr á milli Morg- unblaðsins og Eimskips á árinu 1990. Þetta var erfiður tími í sam- skiptum gamalla skólabræðra en jafnaði sig þegar frá leið. Að sumu leyti má kannski segja að slíkt sé fórnarkostnaður þess ná- vígis, sem við búum við í okkar litla samfélagi. Hörður hélt alltaf þeim póli- tísku tengslum sem urðu til á okkar háskólaárum og varð á ýmsan hátt bakhjarl þeirrar nýju kynslóðar sem tók við völdum í Sjálfstæðisflokknum eftir að Geir Hallgrímsson lét af for- mennsku haustið 1983. En fyrst og fremst var hann þó afburðamaður í rekstri þeirra stóru fyrirtækja sem hann bar ábyrgð á. Styrmir Gunnarsson. Leiðir okkar Harðar lágu fyrst saman á Hótel Garði 1963. Hon- um hafði verið falið að finna eft- irmann sinn við hótelstjórnunina. Ég bar strax mikla virðingu fyrir þessum unga manni sem með yfirvegun og hægð hafði fest þennan nýja hótelrekstur há- skólastúdenta í sessi sem valkost í Reykjavík. Mér reyndist auð- velt að taka við starfinu af Herði. Svo vel hafði hann undirbúið allt. Með okkur tókst gagnkvæm virðing og djúp vinátta sem varði í rúmlega hálfa öld. Leiðir okkar lágu aftur saman þegar Hörður kom frá námi í Bandaríkjunum. Um svipað leyti var ég starfsmaður í fjármála- ráðuneytinu, fjárlaga- og hag- sýslustofnun. Ýmis verkefni voru á mínu borði, meðal annars mál er lutu að samgöngum. Hörður tók yfir mörg þeirra verkefna og má segja að við höfum haft eins konar vistaskipti í annað sinn þar sem ég fluttist þá til Bandaríkj- anna með Maju og strákunum þar sem ég hóf störf hjá Samein- uðu þjóðunum. Þrátt fyrir fjarlægðina sem aðskildi okkur var vináttan náin. Við vorum báðir áhugasamir um bætta menntun í viðskiptalíf- inu og bætta stjórnarhætti. Við Hörður störfuðum saman í Stjórnunarfélaginu og á þeim tíma voru miklar breytingar í viðskiptaumhverfinu. Hörður setti svip sinn á íslenskt við- skiptalíf sem greina má enn þann dag í dag. Við Maja nýttum ferðir til Ís- lands næstu árin til að heim- sækja og rækta vinskapinn við Hörð og Áslaugu. Mér er minn- isstætt í einni slíkri heimsókn að Hörður dregur fram forláta grammófónplötu með íslenskum karlakór og spilaði fyrir okkur. Tónlistin átti eftir að sameina okkur oft upp frá því og við átt- um stefnumót í ýmsum af bestu tónlistarhúsum heimsins. Þar má nefna Wiener Staatsoper, Wie- ner Konzerthaus, Wiener Volks- oper, Berliner Philharmonie og New York Philharmonic. Um tíma bjuggum við Maja í Sýr- landi. Hörður og Áslaug voru á ferð um Afríku og við mæltum okkur mót í Vínarborg og áttum þar ógleymanlega stund á tón- leikum með Jose Carreras í Mus- ikverein í Vínarborg. Önnur ógleymanleg minning er helgi sem við áttum á Hotel Schloss Fussel nálægt Salzburg. Veðrið og landslagið var eins og gerist best í Austurríki. Það var farið að halla undir starfslok okk- ar beggja þótt við ræddum það ekki mikið. Fórum við í langa göngu í kringum Fusselsee og ræddum margt. Gjarnan var farið í langa bíl- túra þegar okkur lá mikið á hjarta og kom fyrir að þeir drægjust úr hófi fram. Þegar aldurinn færðist yfir okkur báða breyttist kannski umræðuefnið eitthvað. Barna- börnin, trjárækt í sumarbústaðn- um og annað slíkt varð fyrirferð- armeira en alltaf naut ég þess að eiga Hörð að í blíðu jafnt sem stríðu. Æðruleysið og rólyndið kom sér vel þegar Hörður þurfti að takast á við erfið veikindi. Áslaug og fjölskyldan öll stóðu eins og klettur við bakið á honum í gegn- um þau áföll. Ég votta Áslaugu, Ingu, Jó- hanni Pétri og fjölskyldum þeirra samúð mína. Ég minnist góðs vinar og er þakklátur fyrir að hafa fengið að njóta þeirrar vináttu í rúmlega hálfa öld. Steinar Berg Björnsson. Það er sárt að kveðja góða vini því fátt er dýrmætara en góð vin- átta. Við fráfall Harðar Sigurgests- sonar er mér efst í huga þakklæti fyrir ómetanlega vináttu og tryggð sl. rúm 50 ár. Herði kynntist ég fyrst þegar þau Ás- laug vinkona mín frá unglings- árum felldu hugi saman. Alla tíð síðan höfum við fagnað stórvið- burðum fjölskyldna okkar saman og átt ótal ánægjustundir. Þau Áslaug voru höfðingjar heim að sækja og heimili þeirra ber merki um hlýju, smekkvísi og þekkingu á listrænum gildum. Inga, móðir Áslaugar, naut þeirr- ar hlýju og umhyggju um margra ára skeið enda var Herði umhug- að um velferð fjölskyldunnar. Hann naut samvistanna við barnabörnin eftir að rýmra varð um tímann. Mér er minnisstætt þegar við hjónin vorum eitt sinn á göngu í Vesturbænum og ákváðum að líta við á Skelja- tanga. Þá var Hörður á kafi í leik við barnabörnin sem hann var að passa. Það leiddist greinilega engum. Eftir að ég varð ekkja og fet- aði inn á braut ferðaþjónustu sáu þau Hörður og Áslaug um að kynna mér helstu veitingastaði höfuðborgarinnar þegar ég skrapp í bæinn. Það var auðvitað ómetanlegt að sanka að sér öllum þeim hugmyndum sem þessar heimsóknir buðu upp á og fá góð ráð því Hörður var þvílíkur reynslubolti og glöggur á málefni líðandi stundar. Aldrei verður fullþökkuð sú umhyggja sem þau hjónin sýndu móður minni eftir að hún flutti til Danmerkur. Hún hlakkaði alltaf til heimsóknar þeirra. Ég veit að aðrir mér fremri munu tíunda farsælt og gjöfult starf Harðar í þágu sam- félagsins. Elsku Áslaug, Inga, Jóhann Pétur og fjölskyldur, hugur minn er hjá ykkur. Megi Guð styrkja ykkur. Blessuð sé minning Harðar Sigurgestssonar. Stella Guðmundsdóttir. Leiðir okkar Harðar lágu fyrst saman í Háskóla Íslands fyrir nær 60 árum. Auk þess að vera í sömu deild í námi áttum við mik- ið saman að sælda í félagsmálum skólans svo sem í stúdentaráði, Vöku og félagi viðskiptafræði- nema. Nokkrum árum eftir að námi lauk höguðu örlögin því þannig, að ég var orðinn fram- kvæmdastjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri. Fram hafði farið fjárhagsleg endurskipulagning á fyrirtækinu með aðkomu ríkis- sjóðs og tók Hörður þá sæti í stjórn. Hann starfaði á þeim tíma hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun fjármálaráðuneytisins. Í stjórn- inni sat hann tvö ár. Eftir það héldum við nánu sambandi, enda lágu leiðir okkar reglulega sam- an á ýmsum sviðum atvinnu- og viðskiptalífsins. Enn höguðu ör- lögin því svo, að ég var kosinn í stjórn Eimskipafélagsins, en Hörður var þá búinn að stýra fé- laginu síðan 1979. Sat ég í stjórn- inni frá 1987 til ársins 2000 og var hann forstjóri allan þann tíma. Þessi langa samferð leiddi til góðra kynna og vináttu sem hef- ur haldist alla tíð, enda þótt sam- fundir yrðu færri allra síðustu árin. Almennt er viðurkennt, að Hörður hafi verið frumkvöðull nýrra strauma í rekstri og stjórnun fyrirtækja og hafi þeir sem nánir honum voru notið góðs af því. Svo er víst að fjölmargir þeirra sem nutu handleiðslu hans hafa síðar orðið þekktir í við- skiptalífinu. Ég held að þessi staðreynd hafi þó ekki eingöngu verið handleiðslunni að þakka, þótt hún hafi vissulega vegið þungt, heldur hafði hann ein- staka hæfileika til að að velja sér samstarfsmenn. Var sá eiginleiki honum áreiðanlega í blóð borinn, því þessu kynntist ég þegar á há- skólaárunum, áður en hin eigin- lega barátta í lífsins skóla hófst. Þegar litið er yfir farinn veg hef ég alltaf styrkst í þeirri skoðun minni að þessi kostur leiðtogans sé oft afgerandi til þess að ná góðum árangri. Enda þótt ég sæti ekki beint á skólabekknum hjá Herði gat ekki farið hjá því að hlutverk hans sem leiðtogi hefði margvísleg áhrif á mig. Ýmis vinnubrögð hans og viðbrögð voru lærdóms- rík og er mér í því sambandi eft- irminnilegt hvað hann lagði mál vel og skilmerkilega fyrir á stjórnarfundum Eimskips. Ekki var þar síst um að ræða upplýs- ingar um framgang rekstursins, þannig að stjórnin átti kost á að rækja eitt sitt aðalhlutverk; eft- irlitsskylduna. Ekki get ég látið hjá líða að nefna að synir okkar Harðar bjuggu á sama tíma í New York og varð þeim vel til vina, sem haldist hefur síðan. Minnist ég sérstaklega þegar við áttum þar kvöld með þeim og fjölskyldum þeirra í góðu yfirlæti. Að leiðarlokum vil ég þakka Herði fyrir samfylgdina í nær 60 ár og margvíslegan stuðning sem hann hefur veitt mér á þessum tíma. Áslaugu, börnum þeirra og allri fjölskyldunni færi ég inni- legar samúðarkveðjur og veit að góðar minningar styrkja þau á þessum tímamótum. Guð blessi minningu Harðar Sigurgestssonar. Gunnar Ragnars. Merkur maður er fallinn frá. Við vorum vinir og samherjar í sex áratugi. Við kynntumst í Há- skóla Íslands. Ég hafði ekki þekkt Hörð áður en hann kom úr Verslunarskóla Íslands sem stúd- ent 1958. Það tókst strax gott samstarf á milli okkar og vinátta sem entist í ein 60 ár. Hörður varð formaður Stúdentaráðs og undirritaður varaformaður hans. Við stóðum sameiginlega að rekstri Hótel Garðs á vegum Stúdentaráðs (sumarhótel á Gamla og Nýja Garði ) en það voru ýmsir, síðar þjóðkunnir menn, sem stóðu að þessu með okkur, má þar nefna, Ólaf Egils- son, fv. sendiherra, Styrmi Gunn- arsson, fv. ritstjóra, og Árna Grétar Finnsson hrl. o.fl. Hörður var ráðinn fyrsti hótelstjórinn. Reksturinn gekk upp þrátt fyrir hrakspár. Þarna sýndi sig sterkur vilji og þrautseigja Harðar sem átti eftir að koma betur í ljós. Hörður var afl og máttarstólpi í íslensku viðskiptalífi um áraraðir. Ég tel óhætt að segja afl fram- fara. Hann hafði máttinn og vilj- ann til þess að framkvæma og láta að sér kveða. Okkar samstarf varð aðallega á sviði flug- og ferðamála. Hörður átti sæti í stjórnskip- aðri nefnd sem átti að reyna að sameina íslensku flugfélögin, Flugfélag Íslands og Loftleiðir hf. sem varð til þess að Flugleiðir hf. Icelandair var stofnað árið 1973. Þar kom þrautseigja Harð- ar að góðum notum. Nokkru síð- ar var Hörður ráðinn fram- kvæmdastjóri fjármálasviðs Flugleiða hf., en fimm árum síðar eða árið 1979 var hann ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands og þar varð hans aðalstarfsvett- vangur. Hörður var kjörinn í stjórn Flugleiða hf. 1984, vara- formaður 1986 og kjörinn for- maður stjórnar 1991. Hann sat því í stjórn Flugleiða hf. í tuttugu ár og þar varð okkar samstarf náið. Þekking hans á samgöngu- málum og almennt á íslensku samfélagi og erlendu umhverfi var mikil og yfirgripsmikil. Hann hafði unnið sem sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, verið í stjórn Skipaútgerðar ríkisins og átt sæti í flugráði. Hann hafði lokið MBA-námi frá einum virtasta Háskóla Bandaríkjanna í viðskipta- og rekstrarfræðum, Wharton Shool, University of Pennsylvania, með samgöngumál sem sérgrein. Lokaritgerð hans fjallaði um flugumferð á Norður-Atlants- hafi. Ég varð varaformaður hans og samstarf okkar við Sigurð Helgason yngri forstjóra Flug- leiða var með miklum ágætum. Þegar Hörður lét af störfum í stjórn Flugleiða hf. árið 2004 var fjárhagsleg staða Flugleiða hf. sterk. Í viðtali í bók eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur sem heitir Í hlutverki leiðtogans sog kom út árið 2000 segir Hörður; Fyrir mig hefur starfið verið hugsjón sem felst í því að gera betur en við gerðum í gær, ekki einungis fyrir fyrirtækið heldur fyrir Ís- land og allt umhverfið sem við búum í. Honum tókst að sýna þessa hugsjón í verki. Hörður var af lýðveldiskyn- slóðinni sem svo er nefnd, sem hafði trú á Íslandi og framfara- möguleikum þess. Í stjórnar- störfum sínum var Hörður form- fastur og agaður. Það var kostur. Það var gæfa Harðar að á há- skólaárunum kynntist hann Ás- laugu Ottesen, síðar bókasafns- fræðingi, og giftu þau sig árið 1966. Hún varð hans stoð og stytta, ráðgjafi vinur og eigin- kona. Milli þeirra ríkti gagn- kvæm virðing og ástríki. Hún er yndisleg og einstök kona. Þau eignuðust tvö börn, Ingu, MBA, rekstrarhagfræðing, og Jóhann Pétur, lögfræðing og MBA, barnabörnin eru fimm. Við Gerð- ur vottum Áslaugu, fjölskyldunni og aðstandendum öllum okkar einlægu samúð. Ég mun sakna vinar og félaga í starfi og leik. Ég minnist hans með virðingu og vináttu og mun sakna hans. Grétar Br. Kristjánsson, fv. varaformaður Flugleiða hf. Það fylgir langlífinu að maður þarf að sjá á bak margra sinna bestu vina. Einn þeirra, Hörður Sigurgestsson, kvaddi annan páskadag eftir sjötíu ára kynni og einlæga vináttu. Ég man fyrst eftir Herði á Hverfisgötu 18, þar sem hann stóð á palli Chevrolet-bíls sem faðir hans hafði smíðað sjálfur úr öðrum bílum. Á þessum tíma voru bifreiðar næstum ófáanleg- ar í landinu svo bifvélavirkinn faðir hans tók málin í eigin hend- ur. Þetta var dæmigert. Faðir Harðar, Sigurgestur Guðjóns- son, var mjög vandaður maður, ákveðinn og traustur. Hörður sækir mjög til hans mannkosti sína og dugnað. Sigurgestur var verkstæðis- formaður og mjög félagslega sinnaður, einn af stofnendum Fé- lags bifvélavirkja 1935. Hörður ólst upp í félagslegu umhverfi. Það kom mér á óvart þegar Hálf- dán Helgason, starfsbróðir Sig- urgests og sveitungi, sagði mér óspurður að skoðanir hins unga Harðar væru allt aðrar en föður hans og væri hann alveg ófeim- inn að tjá þær. Hörður myndaði SJÁ SÍÐU 20 Hörður með Helmut Kohl, fv. kanslara Þýskalands, í Berlín ásamt Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Ingimundi Sigfússyni sendiherra, 22. nóvember 1999.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.