Heimsmynd - 01.03.1990, Page 61

Heimsmynd - 01.03.1990, Page 61
0 fagra mynd... eftir FRIÐRIKU BENÓNÝS Hin nýja kvenímynd er frasi sem farinn er að heyrast nokkuð oft, án þess þó að því fylgi neinar skilgrein- ingar á því hver hún er eða hvað sé nýtt við hana. Konur jafnt sem karlar yppa öxlum og hugsa sem svo: „Æ, það hlýtur að vera átt við þessar uppa- kerlingar sem þykjast geta allt en láta svo bara ábyrgðina á börnunum og heimilinu hvfla á öðrum ómenntaðri konum.“ En svo einfalt er málið ekki. Eftir tuttugu ára kvennabaráttu virðast konur sjálf- ar vera búnar að missa sjónar á upphaflegum bar- áttumálum, hvað var það eiginlega sem við vorum að sækjast eftir? Jafnrétti er staðreynd á pappírun- um í flestum vestrænum þjóðfélögum, en eitthvað kemur í veg fyrir að konur nýti sér það og aukning barneigna bendir til þess að mörgum þyki hentugast að flýja í faðm heimilisins á meðan við reynum að átta okkur á því á hvaða grunni við viljum standa. Tískan heimtar stöðugt meiri kvenleika í fatnaði og fram- komu kvenna, en um leið er ekki nokkurri konu sæm- andi að gleyma því að konur eru menn sem vilja og eiga að hafa áhrif til jafns við karla. Mörgum reynist erfitt að sam- ræma þessi sjónar- mið, vilja að konur haldi áfram að skipa sér í flokka eftir því hvort þær kjósa að vera konur eða menn, kynverur eða vitsmunaverur. I könnun sem gerð var á rás tvö á bóndadaginn á því hvaða eiginleika konur mætu mest hjá körlum var yfirgnæfandi meirihluti kvenna á þeirri skoðun að karlmenn ættu að vera góðir skaffarar, fyrirvinnuhlutverkið væri enn þeirra og var helst að skilja að konur ættu bara að vinna úti sér til skemmtunar og til þess að eiga greiðari að- gang að sköffurunum. Orðið kvennabarátta er orðin klisja, sem í mesta lagi vekur hæðnislegt glott þeirra sem heyra. Karlveldi og karlremba álíka bannorð og dónalegu orðin á blaðsíðu áttatíu og tvö í heilsufræðinni í gamla daga. Allt ofstæki í málflutningi kvenna er á undanhaldi, enda konur í æ ríkari mæli að gera sér grein fyrir því að þáttur þeirra sjálfra í því hvaða stöður þær skipa í þjóðfélaginu er gildari en þær hafa viljað vera láta undanfarin ár. Tími byltingarinnar er liðinn og komið að skuldadögum. Nú er að standa eða falla með kröfugerð góðu áranna og það er einmitt þar sem hnífurinn virðist standa í kúnni. Spurningin forna: Hver er ég? Hvaðan kom ég? Hvert ætla ég? brennur nú á konum sem aldrei fyrr og margar þeirra hafa dregið sig út úr umræðunni og einbeita sér að því að rækta garðinn sinn hver á sinn hátt. Þær dreymir um að losna úr viðjum tíðarandans, nenna ekki lengur að æsa sig yfir þeirri kvenfyrirlitningu sem þær sjá stað allt í kringum sig og þó kannski skýrast í viðhorfum kvenna til sjálfra sín. Við kunn- um ekki að fara með það frelsi sem við börðumst fyrir. Erum ennþá hræddar við ábyrgðina. Hræddar um að við stöndum ekki undir þeim kröfum sem umheimurinn og við sjálfar ger- um til okkar. Samskipti kynjanna eru í rúst. Mjúki maðurinn sem við leit- uðum sem mest að höfðar þegar allt kemur til alls ekki til okkar og við verðum eftir sem áður skotnar í harðjöxlum og töffurum. Það skipt- ir ennþá meira máli að vera sæt og njóta aðdáunar karlkyns- ins fyrir það, heldur en að ná árangri í starfi. Best er auð- vitað að hafa tök á hvoru tveggja, vera sem næst fullkomnun á öllum sviðum, en því fylgir óyfirstígan- legt álag, sem við er- um sem óðast að gera okkur grein fyr- ir að eyðileggur okk- ur sem manneskjur. Hvað er þá til ráða og hvernig kemur hin nýja kvenímynd við þessa sögu? Jú, það eru til konur sem fara sínar eigin leið- ir að markmiðunum, láta kröfugerð tímans sem vind um eyru þjóta og tekst að samræma kynhlutverk kvenna árangri í starfi, án þess að yfirkeyra sig. Þar eru listakonur fremstar í flokki, enda njóta þær þeirra forréttinda að mega vera skrýtn- ar án þess að það bitni á möguleikum þeirra til viðurkenning- ar. Þær þora að fylgja sannfæringu sinni, rækta þennan marg- fræga garð og ryðja brautina að betra og jafnvægara lífi fyrir okkur hinar. Konur á milli þrítugs og fertugs, sem voru ungl- ingar þegar rauðsokkahreyfingin var upp á sitt besta, sem hafa fylgst með þróun mála og náð því marki að horfa á hring- iðuna utan frá, án þess að láta hana stjórna eigin lífi. Konur sem hafa þroska til að skilja hismið frá kjarnanum, sjálfstraust til að þora að vera þær sjálfar, og kímnigáfu til að taka sjálfar sig ekki of hátíðlega. HEIMSMYND 61

x

Heimsmynd

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heimsmynd
https://timarit.is/publication/1408

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.