Litli Bergþór - des. 2018, Blaðsíða 15
Litli-Bergþór 15
Iðu fyrstu árin eftir slysið. Hann dvaldi tíðum hjá
góðum kunningjum sínum, séra Gísla Jónssyni
(1867-1918) á Mosfelli, er verið hafði prestur
í Meðallandsþingum 1892-1900, Skúla lækni
Árnasyni (1865-1954) í Skálholti og Böðvari
Magnússyni (1877-1966) að Laugarvatni. Var
hann hjá þeim sitt hvert árið meðgjafarlaust, en
virðast þeir ekki hafa haft það í sér að vísa honum
á dyr er hann kom til þeirra.
Böðvar segir að Bjarni hafi þá verið „orðinn
gamall og útslitinn, en vel gerður og allra manna
kátastur, og allir höfðum við af honum hina mestu
ánægju, en hann var ósköp þakklátur fyrir það,
sem honum var gott gert ... Bjarni var hinn mesti
jafnaðarmaður, örlátur og gjöfull, ef eitthvað var
til að gefa, og leit á það sem sjálfsagðan hlut að
svo ætti það helst að vera með alla.“
Svo vildi til að Iða var þá í eigu Einars Jónssonar
(1867-1950) í Garðhúsum, sem þá var einn af
ríkustu mönnum á Suðurlandi. Var Bjarni þess
fullviss að hann gæti fengið Einar til þess að gefa
sér jarðarpart úr Iðulandinu og segir Böðvar sig og
Pál Guðmundsson (1872-1958) á Hjálmsstöðum
engan frið hafa fengið fyrir Bjarna, sem vildi fá
þá til liðs við sig til að skrifa bónarbréf til Einars.
„Að vísu höfðum við nú minni trú á þessu en
Bjarni, en létum þó til leiðast“, segir Böðvar.
„Skrifaði ég bréfið, en Páll orti kvæðið. Minnir
mig að við létum valinn mann skrifa þetta á
stóra örk. Var Bjarni mjög
ánægður með bréfið, en
langaði til að mega fara
með það til Skúla læknis og
bera það undir hann. En
það held ég að hafi kannski
ekki verið vel ráðið, því að
Skúli bauðst til að borga
undir bréfið, ef hann mætti
lesa það upp fyrir fólkinu,
og það leyfði Bjarni. Bréfið
var tvöfalt og lét Skúli
fimmtíu einseyris frímerki
á það, og líklega hefur
Einari hreppstjóra þótt nóg
um alla fegurðina.“ Segist
Böðvar hafa reynt ásamt
Páli að orða hugsun og tal
Bjarna eins nákvæmlega
og þeir gátu í orðum sínum
þótt þeir hafi nú satt að segja
brosað út í annað.
Bæði bréf og kvæði eru
dagsett í Iðu 1911 og lýsa að
því er virðist hugarástandi
hins aldna föður nokkuð vel. Grípum því aðeins
niður í bréfið:
„Tilefni þessa bréfs eru ástæður mínar. Ég er
orðinn gamall að aldri. Ég er búinn að reyna það
flest, sem fátækum bændum er títt að reyna á okkar
afskekkta, fátæka landi. Ég hef átt konu og börn,
en nýt nú einskis. Í upphafi æsku minnar logaði
ég af ást og æskufjöri, og í því ástandi ályktaði ég
að leggja hönd um háls, brjóst við brjóst, hjarta
við hjarta og - - - - á mína elskusprundi Kristínu
Runólfsdóttur frá Botnum í Meðallandi. En svo
lauk okkar innilegu sambúð að við uppfóstruðum
2 dætur og 1 son. Og dvelur nú mín kæra kona hjá
annarri dóttur sinni, Jónínu, og hennar hjartkæra
ektamaka Jóni H. Wíum, nú bónda á Álfsstöðum,
sem þér er að góðu og elskulegu kunnur, en ég á
eiginlega hvergi heima.
Af því ég er nú svo staddur sem ég er, nú 73 ára,
heimilislaus, jarðnæðislaus, vinalaus, eignalaus
– og það sem verst er, kvenmannslaus ... Sá
sem hefur verið umvafinn örmum æskubrosandi
yngismeyjar og komist inn í draumaland ástar og
algleymis þessarar jarðnesku fullsælu, sá einn
getur sett sig í spor þessa gamla manns, sem
verður að láta sér það eitt nægja að faðma og
umvefjast alslitnu brekáni.“
Í bréfinu fer Bjarni þess á leit við Einar að
hann gefi honum fimm hundruð í landi Iðu af
miskunnsemi sinni. Þetta er síðan endurtekið í
ljóðinu:
Þessi skemmtilega mynd er einnig tekin 1914. Myndin er eftir vökunótt á dansleik eftir
ungmennafélagsmót í Meðallandi. Sigríður og Þorgerður er nr. 3 og 4 í fremri röð frá vinstri. Sigríður
giftist síðar Sumarliða Sveinssyni sem er annar f.v. í efri röð en Þorgerður giftist Runólfi Bjarnasyni sem
stendur við hlið hennar í fremri röð. Hver veit nema þau öll hafi verið byrjuð að gjóa augunum til hvers
annars á þessu balli? Ljósmyndari Þorlákur Sverrisson.