Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Blaðsíða 47
Fagið02/03
væri að lýsa myndrænt líðan einstaklings með þunglyndi, þá væri
það nákvæmlega svona. Með þungar byrðar, að kikna undan álagi,
sjá ekkert framundan nema gráa þoku og kalda rigningu og geta ekki
með nokkru móti gert sér í hugarlund hvert ferðinni er heitið. Eða
hvort ferðin sé í rauninni fyrirheit um nokkuð.
Mér kom þessi minning til hugar þegar ég las bók Matthew
Johnstone, Ég átti svartan hund. Höfundur segist sjálfur ekki vera
sérfræðingur í nokkru er varðar geðheilbrigði, heldur felist aðkoma
hans að efninu í því að eiga að baki þá erfiðu reynslu að hafa þjáðst
af þunglyndi, sem hann kallar Svarta hundinn. En líkt og kemur fram
í ágætum inngangi Hrannars Jónssonar, formanns Geðhjálpar, var það
Winston Churchill, fyrrum forsætisráðherra Breta, sem skilgreindi
fyrstur baráttu við þunglyndi sem baráttuna við svartan hund.
Það er fallegur stígandi í söguþræði bókarinnar sem er sögð í
fyrstu persónu. Sagan hefst þegar söguhetjan er um tvítugt og lýsir
lífsvegi hennar í samfylgd Svarta hundsins; hvernig Svarti hundurinn
hefur áhrif á allt daglegt líf og fær hann til að beinlínis sjá lífið með
augum hans. Hann dregur fram hvernig Svarti hundurinn hefur áhrif
á færni hans til samskipta við sína nánustu þegar Svarti hundurinn
hefur komið sér vel fyrir í miðju hjónarúminu á milli söguhetjunnar
og eiginkonu hans. Einnig er áhrifarík teikning af söguhetjunni sem
hefur verið fryst inni í klaka með Svarta hundinn á vappi í kringum
sig. Með því er höfundur að lýsa því hvernig sambúðin með Svarta
hundinum rænir hann tilfinningum. Eftir því sem líður á söguna fer
Svarti hundurinn að taka meira rými í lífi söguhetjunnar, sem fer
að beita ógagnlegum ráðum til að deyfa sársaukann sem vanlíðanin
kveikir. Þetta hefur einungis þær afleiðingar að sá Svarti verður
enn fyrirferðameiri og íþyngjandi og endar með því að söguhetjan
og Svarti hundurinn verða að einu. Þá fyrst sækir söguhetjan sér
faglega aðstoð og fær greiningu. Í seinni hluta sögunnar lýsir höf-
undur hversu jákvæð og heilandi áhrif það getur haft að viðurkenna
sjúkdóminn, tala um hann, vera meðferðarheldinn og að sækja sér
stuðning hjá öðrum sem einnig hafa sama hund samferða í lífinu.
Sögunni lýkur á því að söguhetjan hefur sæst við samfylgdina með
Svarta hundinum og hefur auk þess fundið sér hjálplegar aðferðir
til að njóta lífsins; hreyfa sig, stunda jóga og útiveru, skrifa dagbók
og hugleiða þrátt fyrir að sá Svarti verði alltaf hluti af lífinu: „... ég