Bændablaðið - 16.11.2017, Side 34

Bændablaðið - 16.11.2017, Side 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. nóvember 2017 Þegar blaðamaður Bændablaðsins var staddur í Lególandi í Billund í Danmörku á dögunum tók hann eftir því hversu veigamikinn þátt landbúnaður hefur í „litla landi“ garðsins þar sem sjá má glæsileg líkön af húsum, heilu bæjunum, farartækjum og mörgu fleiru sem allt er byggt úr Legókubbum. Áætla má að í litla landinu sé búið að byggja landbúnaðartengd kennileiti úr rúmlega tveimur milljónum Legókubba. Smiðurinn Ole Kirk Christiansen byrjaði að framleiða tréleikföng í nafni Lego árið 1934 og í kjölfarið hófst þróun á Legókubbum en markmið Ole var alltaf að framleiða hágæðaleikföng sem hefðu gott endingargildi. Nafnið kemur frá dönsku orðunum „leg godt“, eða leikið vel. Það var þó ekki fyrr en 13 árum síðar sem Ole byrjaði að gera tilraunir á plastkubbum sem síðar áttu eftir að verða hinir heimsfrægu Legókubbar. Kubbaverksmiðja tekur til starfa Uppbygging kubbanna með hinum smellanlega eiginleika kom til sögunnar tveimur árum síðar, eða 1949, en það tók önnur níu ár að fá einkaleyfi fyrir Legókubbum sem við þekkjum í dag, eða árið 1958. Það sama ár lést upphafsmaður Legó, Ole Kirk Christiansen, úr hjartaáfalli og fékk því aldrei að njóta vinsælda þeirra. Sonur Ole, Godtfred, tók við keflinu og framleiðsla á kubbum sem hægt var að setja saman hófst í verksmiðju í Billund í Danmörku. Segja má að verksmiðjan hafi síðar orðið hvati til þess að Lególandi var komið á fót. Nokkrir Legóskúlptúrar voru settir fyrir utan verksmiðjuna sem dró að fleiri og fleiri ferðamenn til Billund ár hvert sem komu til að líta skúlptúrana augum. Þegar ferðamennirnir urðu fleiri en 20 þúsund á ári fékk Godtfred þá hugmynd að gera eins konar safn með skúlptúrunum til að sýna fram á möguleika Legókubbanna og fyrsta Lególandið varð til. Ævintýraheimur úr 67 milljónum kubba Árið 1968 var Lególand í Billund opnað og þar má sjá alls kyns hluti byggða úr Legókubbum, allt frá vélknúnum farartækjum, flugvélum, bílum, bátum og lestum ásamt glæsilegum skúlptúrum. Í garðinum hafa verið notaðir 67 milljónir Legókubba til að byggja úr ýmislegt milli himins og jarðar til að gera upplifun gesta ógleymanlega. Við opnun garðsins fyrir tæpum 50 árum var hann 125.000 fermetrar að stærð en í dag er hann helmingi stærri. Nú er hann bæði tívolí- og skemmtigarður í bland við mörg glæsileg líkön af húsum og borgum sem allt er byggt úr Legókubbum og kallast litla landið innan garðsins. Litla landið verður alltaf hjartað í starfseminni þar sem garðurinn byggðist út frá því. Í dag eru starfræktir níu Lególandgarðar í heiminum, í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi og í Danmörku. Byggja upp betri landbúnað Það fer ekki á milli mála að landbúnaður skipar stóran sess í starfsemi Lególands, það er að segja í litla landi þess, og er mikil upplifun að sjá hvernig þeim hefur tekist til með að byggja úr kubbum ýmislegt sem tengist sveitinni. Þannig er Lególandgarðurinn í Günzburg í Þýskalandi, sem opnaður var árið 2002, umkringdur sveitabæjum á alla kanta og er sérstakt land innan garðsins sem er tileinkaður lífinu í sveitinni og þá sérstaklega kúabúskap. Lególandgarðurinn í Flórída í Bandaríkjunum á í sérstöku samstarfi við landbúnaðaryfirvöld á svæðinu til að kynna betur landbúnaðinn. Eitt verkefnið kallast „Ferskt frá gróðurhúsi í Flórída“ og á að hjálpa börnum að skilja út á hvað landbúnaður og ræktun gengur og hvaðan maturinn kemur. Með þessu móti ná landbúnaðaryfirvöldin að kynna landbúnað fyrir milljón gestum sem koma árlega í garðinn. Þetta sýnir að hægt er að kynna landbúnað og efla hann á margvíslega vegu og hvað er betra en að hafa Legókubba í hönd og byggja upp með þeim enn betri landbúnað til framtíðar?! /ehg Áætla má að í Lególandi í Billund í Danmörku sé búið að byggja landbúnaðartengd kennileiti úr rúmlega tveimur milljónum Legókubba. Myndir / ehg

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.