Bændablaðið - 16.11.2017, Blaðsíða 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. nóvember 2017
Schierbeck landlæknir var líklega
fyrstur til að rækta agúrkur á
Íslandi en framleiðsla á þeim hófst
um miðjan þriðja áratug síðustu
aldar. Gúrkur eru um 96% vatn.
Á ævintýraeyjunni Balnibarbi
sem Gúlliver heimsótti á ferðalagi
sínu var reynt að vinna úr þeim
sólarljós.
Samkvæmt tölfræðideild
Matvæla- og landbúnaðarstofnunar
Sameinuðu þjóðanna, FAOSTAT, var
áætluð heimsframleiðsla á agúrkum
árið 2015 um 72 milljón tonn.
Kínverjar bera höfuð og herðar
yfir þær þjóðir sem framleiða mest
af gúrkum í heimunum og framleiddu
um 54,5 milljón tonn árið 2015 sem
er nálægt 76% heimsframleiðslunnar.
Framleiðslan í Tyrklandi sem er
annar stærsti gúrkuframleiðandinn
var sama ár 1,8 milljón tonn, Íran
var í þriðja sæti með 1,6 milljón tonn
og Rússland og Úkraína í þriðja og
fjórða sæti með 1,1 og eina milljón
tonn.
Helstu útflutningslönd á
agúrkum eru Indland, Þýskaland,
Tyrkland, Bandaríkin, Holland,
Víetnam Pólland og Kína. Hvað
innflutning varðar er mest flutt til
Kanada, Bandaríkjanna, Þýskalands,
Frakklands, Rússlands og Hollands.
Samkvæmt upplýsingum á vef
Hagstofu Íslands var innanlands-
framleiðsla á gúrkum 1.868 tonn árið
2016 en flutt inn 8.466 tonn. Mest er
flutt inn frá Hollandi og Spáni.
Ætt og uppruni
Ættkvíslin Cucumis er af graskersætt
og inniheldur 55 tegundir sem finnast
villtar í Afríku, Indlandi, Suð-Austur-
Asíu og Ástralíu. Meðal tegunda
innan ættkvíslarinnar eru agúrkur,
Cucumis sativus og melónur, C.
melo, af ýmsum gerðum, yrkjum og
afbrigðum.
Agúrka, eða gúrka, eru einærar
klifurjurtir, með greinilegan
meginstofn sem getur orðið fimm
metra langur og hysja sig upp með
spírallaga fálmurum sem plönturnar
vefja utan um næstu stoð. Sé engin
stoð til staðar er plantan jarðlæg
og skýtur trefjarótum víða út frá
hærðum stofninum. Blöðin stakstæð,
stór og hrjúf viðkomu, sepótt og
smástíftennt. Blómin lítil, gul eða
hvít og með fimm krónublöðum.
Aldinið er misstórt, 5 til 60 sentímetra
langt, oftast grænt eða gult, með
eða án fræja, beint eða bogið, ílangt
eða hnöttótt, slétt eða með hnúðum
eða hornum, allt eftir tegundum og
afbrigðum. Aldin gúrka sem myndast
án frjóvgunar er frælaust.
Samkvæmt skilgreiningu
grasafræðinnar er aldin agúrku ber.
Agúrkur sem almennt eru
á boðstólum eru 96% vatn og
ekki nema tólf hitaeiningar í
hverjum 100 grömmum. Þrátt
fyrir lágt næringarefnainnihald eru
gúrkur kalk-, járn-, A-, B- og C-
vítamíngjafi og því gott smakkerí
milli mála fyrir þá sem ekki vilja
þyngjast. Agúrkusneiðar eru sagðar
bólgueyðandi og góðar til að hvíla
þreytt augu.
Gömul ræktunarjurt
Agúrka eins og við þekkjum hana í
dag þekkist ekki í náttúrunni en talið
er að uppruni hennar sé á Indlandi,
milli Himalajafjalla og Bengalflóa,
og að ræktun hennar hafi hafist þar
fyrir um 5.000 árum og því með elstu
ræktunarplöntum þar um slóðir. Talið
er að agúrkan sé komin af villtri
gúrkutegund sem kallast C. hystrix.
Til er listi sem sýnir eitt og annað
sem Súmerar í borginni Úr í Írak,
sem var stofnuð 3800 fyrir Kristburð,
lögðu sér til munns og þar á meðal
eru agúrkur. Í Gilgameskviðu, sem
sögð er vera elsta bókmenntaverk
sögunnar, er lýsing á fólki að borða
einhvers konar agúrkur þannig að
þær hafa þekkst í Mið-Austurlöndum
á þeim tíma sem ljóðið var samið.
Frá Indlandi barst plantan til
Evrópu gegnum Mið-Austurlönd,
og Grikkland til Rómar. Rómverjinn
Pliny gamli segir í riti að unnin séu
lyf úr bæði ræktuðum og villtum
gúrkum og að þær séu hjálplegar
við margs konar meinsemdum eins
og stungu sporðdreka, slæmri sjón,
músagangi og ristregðu. Sagan
segir að konur sem langaði í barn
hafi gengið með gúrku bundna við
mittið og að ljósmæður hafi haft með
sér gúrkur þegar þær aðstoðuðu við
barnsburð og hent gúrkunni eftir að
barnið var fætt. Hér er líklega verið
að vísa til agúrkunnar sem reður- og
frjósemistákns.
Ræktuðu gúrkurnar sem Pliny
lýsir eru af nokkrum afbrigðum,
smávaxnar og líkjast fremur
smágúrkum í dag.
Sagt er að Tíberíus Rómarkeisari
hafi borðað að minnsta kosti eina
gúrku á dag alla daga ársins. Pliny
segir að gúrkurnar hans Tíberíusar
hafi á sumrin verið ræktaðar í kössum
á hjólum þannig að það gæti alltaf
skinið á þær sól en á veturna hafi
þær verið ræktaðar í gróðurhúsum.
Í 4. Mósebók 11:5 segir: „Nú
munum við eftir fiskinum sem við
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
HELSTU NYTJAJURTIR HEIMSINS
Aldinið er misstórt, grænt eða gult, með eða án fræja, beint eða bogið, ílangt eða hnöttótt, slétt eða með hnúðum eða hornum, allt eftir tegundum og afbrigðum.
Agúrka í gróðurhúsi á Íslandi. Mynd / Odd Stefán
í salati.