Bændablaðið - 19.07.2018, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 19.07.2018, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júlí 20186 Nokkur umfjöllun hefur orðið síðustu daga um eignarhald á jörðum í ljósi vaxandi áhuga erlendra auðmanna á kaupum á landi hérlendis. Á árum áður voru frekari skilyrði í lögum hérlendis um ráðstöfun og nýtingu bújarða, en þau voru flest afnumin árið 2004. Fyrir því voru vissulega ákveðin rök – Alþingi á þeim tíma vildi að viðskipti með jarðir væru eins og með aðrar fasteignir og ekki mætti takmarka rétt jarðeigenda til að hámarka virði eigna sinna. En þar sem við erum undir EES-reglur sett að meira eða minna leyti, þá þýddi það um leið að réttindi allra á EES-svæðinu til að kaupa bújarðir hérlendis eru nákvæmlega þau sömu og okkar eigin. Einstaklingar og fyrirtæki utan EES sem vilja eignast jarðir þurfa sérstakt leyfi eins og mikið var rætt þegar kínverskur auðmaður hugðist kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Ekkert varð af því en sú jörð var síðan seld breskum auðmanni án þess að nokkur leyfi þyrfti til. Jarðir séu áfram í rekstri og áfram í byggð En málið snýst alls ekki um hvaðan eigendurnir koma, heldur hvað þeir gera. Verkin tala. Það er og verður mikilvægast fyrir samfélög sveitanna að jarðir séu áfram í rekstri og áfram í byggð, hver sem fer með eignarhaldið. Að gott ræktunarland sé ekki tekið með óafturkræfum hætti undir óskylda starfsemi án þess að nokkur fái rönd við reist. Að byggðin sé nægilega sterk til að ráða við sameiginleg samfélagsleg verkefni svo sem fjallskil og annað sambærilegt. Það hefur mikla þýðingu. Jarðeigendum sem taka jarðir úr landbúnaðarnotum og hafa lítinn áhuga á að taka þátt í sameiginlegum verkefnum hefur fjölgað verulega og það hefur áhrif. Síðan eru líka eigendur sem nálgast málin með allt öðrum hætti og leggja mikið af mörkum inn í samfélagið. Það er eins misjafnt og mennirnir eru margir, en eignarhald og áherslur geta breyst með skjótum hætti. Auðmenn, íslenskir sem erlendir, geta misst áhugann eða eignirnar sem lenda þá í höndum einhverra sem hafa kannski ekki önnur markmið en að mjólka út eins mikla peninga og hægt er á sem allra skemmstum tíma. Það er því frekar spurningin um hvort samfélag okkar geti sameinast um að setja einhver almenn skilyrði sem myndu ná bæði til okkar sjálfra og annarra. Það yrði engin séríslensk uppfinning því að margvísleg skilyrði gilda um eignarhald og viðskipti með bújarðir í nágrannalöndum okkar. Það er engri þjóð sama um sína matvælaframleiðslu og þess vegna er ekki litið á viðskipti sem þessi sömu augum og önnur. Möguleikar til matvælaframleiðslu séu ekki eyðilagðir Ræktunarland sem hverfur umhugsunarlaust undir annað verður ekki svo auðveldlega tekið aftur. Tilgangurinn er þá einfaldlega að tryggja að möguleikar til matvælaframleiðslu séu ekki eyðilagðir og að byggðirnar séu nægilega sterkar til að standa undir samfélaginu á hverjum stað. Sveitarfélögin sem fara með skipulagsvaldið eru þarna í lykilhlutverki. Sum hafa rætt þetta nú þegar en þar þarf meira að koma til. Hins vegar þarf líka að ræða fleiri þætti. Landbúnaðurinn glímir við harðari samkeppni en áður í kjölfar nýs tollasamnings við ESB sem tók gildi 1. maí sl. auk þess sem langvarandi hátt gengi krónunnar hefur grafið undan innlendri framleiðslu – ekki bara í landbúnaði. Vissulega nýtur landbúnaðurinn stuðnings í gegnum búvörusamninga og tollvernd, svo langt sem hún nær. Gengið hefur veikt hana gríðarlega mikið. Okkar afurðafyrirtæki eru núna að keppa við fyrirtæki sem eru sum hver 100 sinnum stærri eða meira. Þetta er ekki lengur einangraður markaður. Þetta eykur á óvissuna í greininni og veikir framleiðsluviljann sem alltaf þarf að vera fyrir hendi. Aðstæður þurfa að taka mið af stöðunni sem uppi er hverju sinni Ég efa það ekki að íslenskir neytendur eru mjög velviljaðir landbúnaði og vilja að hér sé stunduð matvælaframleiðsla bæði til lands og sjávar, en aðstæður þurfa að taka mið af stöðunni sem uppi er hverju sinni – svo að uppskeran verði góð. Það er best fyrir landið og fólkið. Erfiðleikar hjá nágrönnum okkar Bændur eiga allt sitt undir sól og regni eins og við þekkjum – því sem landið gefur. Það hafa verið misjafnar aðstæður hérlendis í sumar. Heyskapur hefur gengið vel á Norður- og Austurlandi og útlit fyrir mikinn og góðan heyfeng. Hingað til hefur staðan verið heldur verri á Suður- og Vesturlandi vegna mikilla rigninga. Lítið hefur verið um þurrk og tún eru sums staðar orðin illfær vegna bleytu ofan í kaupið. Það horfir vonandi til betri vegar núna í vikunni. Hins vegar hafa nágrannar okkar á Norðurlöndunum átt við allt annan vanda að stríða því þar hafa verið miklir þurrkar. Svo rammt kveður að því að tala má um uppskerubrest. Bændur hafa jafnvel þurft að slátra búpeningi vegna fóðurskorts. Það er sárt að þurfa að gera slíkt og við hugsum til kollega okkar við þessar aðstæður. Leitað hefur verið eftir möguleikum á því að kaupa hey hérlendis. Ég hvet alla bændur sem eru aflögufærir með hey, eða sjá fram á það, til að láta vita af sér til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Það er eðlilegt og sjálfsagt að hjálpa okkar norrænu kollegum eftir því sem fært er. Það hafa þeir gert þegar á hefur bjátað hérlendis, eins og í Eyjafjallajökulsgosinu fyrir fáum árum. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Vegir íslenskra dómstóla virðast með öllu órannsakanlegir. Allavega eru niðurstöður dómara í hverju málinu á fætur öðru er varðar hag almennings í landinu ekki í neinum takti við nokkuð sem kalla má réttlæti til handa venjulegu fólki. Hagsmunasamtök heimilanna hafa vakið athygli á nýföllnum dómi hins nýja Landsréttar. Samkvæmt honum virðist mega krefja skuldara um greiðslu skuldar þótt kröfuhafi geti ekki framvísað frumriti skuldabréfsins. Samkvæmt dómnum er nóg að hafa afrit skuldabréfs og að líkur séu á því að kröfuhafinn hafi einhvern tímann haft frumrit skuldabréfsins undir höndum, jafnvel þegar svipta á fólk lífsstarfi sínu. Mikið var rætt um og margstaðfest í fjölmiðlum að mikill fjöldi veðskuldabréfa var seldur erlendum bröskurum á fjármálasviði í kjölfar efnahagshrunsins á „spottprís“. Kaupendur voru einkum sagðir vogunarsjóðir og bankar í Hollandi sem keyptu skuldabréf af íslensku bönkunum á brot af nafnvirði bréfanna, framvísuðu þeim svo hjá skattayfirvöldum í Hollandi og fengu út á það skattaafslátt. Síðan munu bréfin að stærstum hluta hafa verið afskrifuð. Íslensku bankarnir eru, allavega í einhverjum tilvikum, samt sagðir hafa haldið áfram að innheimta samkvæmt nafnvirði upphaflegu bréfanna. Þegar íslenskir skuldarar komust á snoðir um þetta voru bankarnir krafðir um að leggja fram frumrit gagnanna. Varð þá uppi fótur og fit í bankakerfinu. Það sem átti að vera sjálfsagt mál að fá að skoða frumrit skuldabréfa, varð allt í einu að stórmáli. Nú hefur þessi dæmalausi Landsréttur tekið ómakið af bönkunum. Þeir þurfa sko ekki að sýna nokkrum manni einhver frumrit gagna, aðeins ljósrit. Skuldari getur því ekki á nokkurn hátt vitað hvort bankinn eigi lengur umrædd frumgögn, eða sé fyrir löngu búinn að selja þessa pappíra, en haldi svo áfram að rukka samkvæmt ljósriti. Dómurinn Landsréttar er ávísun á stórfellda réttaróvissu eins og Hagsmuna- samtök heimilanna benda réttilega á. Farið verður fram á áfrýjun til Hæstaréttar. Í þessu máli er öllu réttlæti snúið á hvolf og réttarríkið Ísland í raun afskrifað og siðferði í viðskiptum hent út í hafsauga. Með honum er allri sönnunarbyrði snúið við. Nú þarf bankinn ekki lengur að sanna að hann eigi skuldabréf sem sannar réttmæti fjárkröfu á hendur skuldara. Heldur þarf skuldari nú að geta sannað að hann sé ekki skuldari að kröfu sem lögð er fram í formi einhvers ljósrits. Hvernig í veröldinni Landsréttur getur sniðgengið Konungstilskipun frá 9. febrúar 1798 sem enn er í gildi á Íslandi vekur furðu. Þar er kveðið á um skyldu lánardrottins til þess að skila frumriti skuldabréfs ef útgefandi skuldabréfsins borgar allan höfuðstól þess. Þá er kveðið á um skyldu lánardrottins til að „hafa við höndina frumrit skuldabréfsins“ og árita það þegar afborgun af höfuðstól er reidd af hendi. Konungstilskipunina má nálgast á vefsíðu Alþingis á þessari slóð: http:// www.althingi.is/lagas/140b/1798092.html Ein helsta forsendan að baki tilskipuninni var sú að tryggja rétt bæði útgefanda skuldabréfsins (skuldara), sem og rétt framsalshafa, þ.e. þess sem kaupir skuldabréfið af upprunalegum kaupanda þess. Þannig gat síðari framsalshafi treyst því að sú staða sem rituð var á skuldabréfið væri rétt og eins gat skuldari treyst því að síðari framsalshafi kræfi hann ekki um greiðslu sem þegar hefði verið innt af hendi ef skuldabréfið var áritað um hana. Konungstilskipunin hefur ekki verið numin úr íslenskum lögum. /HKr. Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: Rekstur og markaðsmál: tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Bjarni Rúnarsson br@bondi.is – Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – augl@bondi.is Vefur blaðsins: www.bbl.is bbl@bondi.is Prófarkalestur. Guðrún Kristjánsdóttir – ÍSLAND ER LAND ÞITT Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands sindri@bondi.is Land og fólkDómsatlaga gegn réttlæti í landinu Mynd / Hörður Kristjánsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.