Bændablaðið - 27.06.2019, Page 6

Bændablaðið - 27.06.2019, Page 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 27. júní 20196 Alþingi hefur samþykkt lög sem heimila innflutning á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum eggjum frá og með næstu áramótum. Deilur hafa staðið um þetta mál lengi, eða allt frá því að stjórnvöld sömdu um að innleiða matvælalöggjöf ESB fyrir meira en áratug. Sú löggjöf var ekki hluti af EES-samningnum þegar hann var upphaflega gerður. Rökin að baki innleiðingunni voru að tryggja útflutningshagsmuni íslensks sjávarútvegs inn á EES-svæðið, sem vissulega eru gríðarlegir. Það hefur jafnframt þýtt að hagsmunir landbúnaðar hafa þá verið settir til hliðar á móti, eins og ofangreind niðurstaða sýnir. Bændur hafa lagst gegn þessum breytingum, eins og oft hefur komið fram hér, en lögðu jafnframt mikla vinnu í að leita lausna. Þess gætti ekki síst í þeim takmörkunum sem urðu hluti af löggjöfinni þegar hún var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi 2009. Við tóku þá deilur fyrir innlendum og erlendum dómstólum sem nú hafa verið leiddar til lykta með samþykkt ofangreindra breytinga. Ákvæði um vernd búfjár- og lýðheilsu dæmd út af borðinu Hér verður ekki deilt við dómarann en sárast við niðurstöðu þeirra er samt að ekkert hald væri í ákvæðum 13. greinar EES-samningsins sem heimila takmarkanir til að vernda búfjár- og lýðheilsu. Þau voru einfaldlega dæmd út af borðinu. Það er sérstakt að í ljósi þess þá hafa nú ESB-ríkin betri heimildir til að verja sína hagsmuni á þessu sviði heldur en EES-ríkin. Jafnræðið er ekki lengur fyrir hendi eins og fræðimenn hafa bent á. Að þessu sögðu verður að halda til haga að samþykkt laganna fylgdi líka sérstök þingsályktun í 17 liðum. Með henni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þar er að finna ýmsar þýðingarmiklar aðgerðir sem verður að fylgja vel eftir en geta alveg falið í sér ýmis tækifæri til að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Vöktun á sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum mikilvæg Af einstökum aðgerðum má sérstaklega nefna fyrirætlanir um að standa betur að vöktun á sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum og hamla því að matvælum þar sem þær greinast sé dreift á neytendamarkaði. Þetta er afar mikilvægt og setur Ísland í fremstu röð í baráttu gegn sýklalyfjaónæmi sem kallað hefur verið eitt stærsta heilbrigðisvandamál 21. aldarinnar. Þýðingarmikið er jafnframt að fá allar viðbótartryggingar sem hægt er vegna salmonellu og að dreifing á alifuglakjöti þar sem greinst hefur kampýlóbakter verði áfram bönnuð eins og gildir um innlenda framleiðslu. Þetta er til að varðveita þá einstöku stöðu sem okkur hefur tekist að ná í baráttu gegn þessum tveimur sjúkdómum. Það var gert með markvissum aðgerðum sem unnar voru í samstarfi framleiðenda og stjórnvalda sem skiluðu árangri sem aðrar þjóðir öfunda okkur af. Ráðherra á að skila skýrslu til Alþingis um framgang áætlunarinnar þann 1. nóvember næstkomandi. Þá er hægt að meta hvernig gengur, en auðvitað skiptir höfuðmáli að öllum aðgerðum verði fylgt vel og markvisst eftir, ekki síst þar sem tíminn fram að áramótum verður ekki lengi að líða. Bændur lögðu til að aðlögunartíminn yrði lengri til að aðgerðirnar væru lengra komnar þegar opnað yrði fyrir innflutninginn. Það gekk ekki eftir, þannig að nú er aðeins hálft ár til stefnu. Það er skammur tími og því skiptir enn meira máli að allar aðgerðir fari strax í gang. Betri gögn Hér í blaðinu og í síðasta blaði hefur verið fjallað um ný gögn varðandi losun kolefnis frá framræstu landi sem fram komu á ráðunautafundi Landbúnaðarháskólans og RML fyrir skömmu. Fagna ber að verið sé að vinna að því að bæta mat á þessari losun enda hefur margoft verið bent á að það sé ónákvæmt. Sú vinna þarf að halda áfram, en það má ekki gleyma því að loftslagsváin er ekki vandamál sem hægt er að kasta á milli eins og heitri kartöflu. Við erum öll hluti af vandanum og við þurfum öll að verða hluti af lausninni ef ekki á illa að fara. Það eru engar einfaldar lausnir til eða auðveldar ákvarðanir. Endurheimt votlendis þarf að vera hluti af lausninni ef Ísland ætlar sér að ná kolefnishlutleysi árið 2040 eins og stjórnvöld stefna að. En hún er engin heildarlausn sem hægt er að einblína á. Með því þurfa að fylgja orkuskipti, minni matarsóun, ábyrgari neysla, landgræðsla, skógrækt og hvað annað sem að gagni getur komið. Á sama tíma þurfum við að halda áfram að rannsaka þessi mál og bæta gögnin að baki. Við munum rekast á fleiri skekkjur, en á sama tíma þarf aðgerðir. Þær geta ekki beðið. Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.900 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar 5.450 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Stöndum með þjóðinni Íslendingar eru á margan hátt öfundsverðir ef horft er til landsgæða þótt hér hafi menn lítt verið að grafa eftir málmum, úrani, kolum eða olíu. Þess í stað eiga Íslendingar mun verðmætari náttúrugæði til lengri tíma, nefnilega gjöful fiskimið, gnægð af vatni og ómetanlega náttúrufegurð svo ekki sé minnst á mannauð og landgæði til ræktunar. Þó oft sé sagt með nokkurri kerskni að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims, þá er víst að náttúruöflin hafa ekki alltaf verið okkur hliðholl. Þannig hefur hafið og óblítt veðurfar oft valdið miklu manntjóni. Eldgos hafa líka í gegnum aldirnar höggvið skörð í byggðir landsins og orsakað mannfelli, bæði með beinum hætti vegna öskufalls og hraunflæðis og einnig kostað uppskerubrest og dauða búfjár. Sagnir eru til um að við slíkar aðstæður hafi fiskgengd og fuglalíf við Breiðafjörð og á Vestfjörðum haldið lífi í þjóðinni oftar en einu sinni. Þótt okkur þykir sögur um hörmungar vegna eldgosa fjarlægar og óraunverulegt sé að slíkt geti gerst á okkar dögum hjá hátæknivæddri þjóð, þá minnti Eyjafjallajökulsgosið okkur óneitanlega á mátt eldfjallanna. Forfeður okkar í sínum fábreytta veruleika voru ekki háðir ýmsum þáttum sem nútímaþjóðfélagið hefur vanið sig á. Þá var ekki búið að finna upp tæki eins og flugvélar. Eldgosið í Eyjafjallajökli, þó lítið væri á sögulegum mælikvarða, náði að stöðva för milljóna manna víða um lönd og loka fyrir nær allar flugsamgöngur í Evrópu svo vikum skipti. Í dag er umtalsverður hluti af því grænmeti sem neytt er í landinu flutt inn með flugvélum og skilur það um leið eftir sig stór kolefnisfótspor. Öflugt eldgos gæti hæglega lokað að mestu fyrir þessa aðflutningsleið. Ef aðflutningar truflast gæti fæðuöryggi þjóðarinnar líka verið ógnað. Á sama tíma búum við við þann veruleika að hægt væri að framleiða hér á landi stærstan hlutann af því grænmeti sem nú er flutt inn. Við þurfum ekki að vera háð innflutningi á grænmeti. Það er því kaldhæðnislegt að það skuli vera komið í veg fyrir það með okkar eigin stjórnvaldsaðgerðum að þjóðin geti verið sjálfri sér næg um framleiðslu á nær öllu grænmeti. Erlendar tilskipanir sem hér hafa verið innleiddar hafa gert það að verkum að orkuverð til garðyrkjubænda hefur margfaldast á skömmum tíma. Ástæðan er m.a. tilskipun um aðskilnað framleiðslu og flutnings á raforku. Samkvæmt gögnum sem Bændablaðið hefur undir höndum eru dæmi um þreföldun á flutningskostnaði raforku til garðyrkjubænda á einu ári. Margar milljónir í aukinn kostnað hjá hverri garðyrkjustöð er stór biti að kyngja og gúrkan gæti orðið ansi dýr ef ekki verður lát á slíku. Ekki er skrítið að þeir bændur óttist frekari innleiðingar á erlendum reglugerðum sem hæglega gæti riðið greininni að fullu. Íslenskir bændur ásamt íslenskum sjómönnum hafa alla burði til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar ef samgöngur við útlönd bregðast. Þeir gera það þó ekki nema að hér á landi sé rekin meðvituð stefna um slíkt. Það er ekki nóg að flagga fæðuöryggissjónarmiðum í ræðum ef hugur fylgir ekki máli þegar til kastanna kemur. Ráðamenn mega ekki láta grípa sig í bólinu með allt niður um sig í þessum málum og ákveða aðgerðir sem stefna grunnþörfum þjóðarinnar í voða. Íslendingar eru sannarlega öfundsverðir af öllum þeim gæðum sem landið og miðin bjóða upp á. Vonandi berum við gæfu til að varðveita og nýta þessa perlu af skynsemi, þjóðinni til hagsbóta. Þannig að fólk sjái sér hag í því að búa í þessu landi. /HKr. Næsta verkefni Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621 ÍSLAND ER LAND ÞITT Hvannadalshnjúkur í Öræfajökli er hæsti tindur á barmi gríðarstórs eldgígs í jöklinum og jafnframt hæsti tindur Íslands, 2.109,6 metar. Við hlið hans hægra megin á myndinni blasir Dyrhamar við. Hvannadalshnjúkur er staðsettur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og er vinsæll hjá fjallgöngufólki, reyndu sem og óreyndu. Tindurinn er ekki flókinn uppgöngu og þarfnast ekki mikillar reynslu eða tækni í fjallgöngum. Gangan krefst þó mikils úthalds þar sem oftast er gengið á tindinn og niður aftur á sama deginum. Hækkunin er rúmir 2.000 metrar, gangan tekur oftast 12–14 klst. í heild. Tvær uppgönguleiðir eru algengastar á hnjúkinn. Önnur þeirra er svokölluð Virkisjökulsleið, sem er fremur erfið og tæknileg. Er hún ekki talin æskileg nema fyrir reynda fjallagarpa. Hin leiðin sem flestir fara er farin upp frá Sandfelli og þykir öruggari og mun auðveldari. Mynd / HKr. Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands – sigey@bondi.is

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.