Spássían - 2012, Blaðsíða 14
14
Hefur það áhrif á bókmennta-
sköpun í landinu að stór hluti
íslenskra skáldverka er ætlaður
til gjafa? Ég fór að velta þessu
fyrir mér eftir að forleggjarinn
minn ákvað að gefa út bók eftir
mig, sagnasveiginn ást í meinum,
að sumri til og reyna að höfða til
þeirra sem vilja kaupa sér annars
konar sumarlesningu en reyfara.
Hefur það áhrif á rithöfundinn
sem situr heima og skrifar að
bókin hans er hugsuð til gjafa?
KVAÐIR JÓLABÓKAFLÓÐS
Um 70% landsmanna fá bók í
jólagjöf samkvæmt könnunum sem
gerðar hafa verið fyrir Félag
íslenskra bókaútgefenda. Og það er
margs að gæta þegar þessar bækur
eru valdar. Jólagjöf á helst að vera
falleg, næstum heilög, lýsa hug
gefandans til þiggjandans og falla
að almennum hugmyndum um þessa
mestu trúarhátíð landsins. Þess vegna
er gefandinn ekki líklegur til að taka
mikla áhættu við valið. Hann hefur
gjarnan takmarkaða þekkingu á
smekk þiggjandans og því er hætta
á að lægsti mögulegi samnefnari
verði fyrir valinu. Það skiptir líka
máli að gefandinn er oftar en ekki
af annarri kynslóð en þiggjandinn
eða úr annarri fjölskyldu. Sá sem
kaupir bók handa sjálfum sér er miklu
líklegri til þess að þjóna sérvisku sinni
vegna þess að þá hangir ekki eins
mikið á spýtunni, ég tala nú ekki
um ef bókin er í kilju og þar með
ódýrari.
Ég hef sjálfur átt margar bækur
á jólabókamarkaði, bæði þýddar
og frumsamdar, og orðið var við
að fólk kinokar sér við að gefa bók
sem gengur að einhverju leyti gegn
borgaralegu velsæmi. Einnig kinokar
fólk sér við að gefa bækur sem ekki
njóta almennrar viðurkenningar og
eru ekki eftir „löggilta“ höfunda. Einu
sinni þýddi ég bók sem sumir sneiddu
hjá vegna þess að á kápunni var
svolítið stórskorin mynd af svertingja.
Það getur líka verið erfitt að gefa
bók sem ber ögrandi titil, t.d. ímynda
ég mér að ekki hafi margt kristið
fólk fengið Orðabók andskotans eftir
Ambroce Bierce í jólagjöf.
Vitað er að markhópur hefur áhrif
á það hvernig höfundur nálgast vinnu
sína, sbr. fræðihugtakið „ífólginn
lesandi“ sem vísar til markhópsins
sem hafður er í huga, hvort sem
það er meðvitað eða ómeðvitað af
höfundarins hálfu. Blaðamaður á
The Sun í Bretlandi matreiðir sitt efni
öðruvísi en blaðamaður á New York
Times í Bandaríkjunum, svo ýkt dæmi
sé tekið. Það er því rökrétt að líta svo
á að jólaflóðsvæntingin hafi lúmsk og
jafnvel ómeðvituð áhrif á afurðirnar.
Mömmur og pabbar, ömmur og afar,
já jólabarnið sjálft, horfa yfir öxlina
á höfundinum, Haukur Morthens
raulandi jólalag í bakgrunni. Í
versta tilfelli má tala um eins konar
ritstýringu. Auðvitað reyna sumir
að bjóða markhópnum birginn, og
tekst það jafnvel, en hætt er við að
þeir geri það þá á forsendum hans.
Enginn kemst út úr því samhengi sem
hann lifir og hrærist í, en rithöfundar
ættu reyndar að vera betur til þess
fallnir en sumir aðrir að sjá í gegnum
samfélagsþrýsting.
JÓLALAG UM HÁSUMAR
Svona hefur þetta verið í áratugi og
átt þátt í að búa til bókmenntahefð
okkar. Sjálfsagt má finna bæði
kost og löst á þessu fyrirkomulagi.
Maður skyldi t.d. ætla að fólk reyndi
almennt að vanda sig vegna þess
að hrákasmíðar eru ekki líklegar til
að rata í jólapakka. Á hinn bóginn
gæti kristilegur tepruskapur átt til
að læðast inn, nú eða ýkt uppreisn
gegn honum, svo einföld dæmi séu
tekin. Ekki minnkar þetta líkurnar á
að höfundar teygi sig inn að miðjunni
og hlaupi á eftir tískustraumum.
Þetta fyrirkomulag hefur líka áhrif
á umbúðirnar sem bækurnar eru
settar í, bæði band og kápur,
og þar með á verð. Þá má spyrja
hvort jólagjafastellingin hafi gert
kvenhöfundum erfiðara fyrir enda
karlhöfundarnir búnir að koma
sér í þægilega stöðu, skreyta hver
annan með verðlaunum og skrifa
sig inn í bókmenntasögur. Einnig má
velta fyrir sér hvort þetta kerfi hafi
hamlað nýliðun því fólk velur yfirleitt
öruggasta kostinn þegar bók er
keypt.
Það er bæði annarlegt og
takmarkandi, jafnt fyrir lesendur sem
höfunda, að flest íslensk skáldverk
skuli koma út á haustmánuðum og
vera ætluð til gjafa. Höfundar sem
eru trúir bókmenntunum eiga ekki
að þjóna utanaðkomandi afli á
borð við jólagjafamarkaðinn. Það
skekkir myndina og býður þeirri
hættu heim að þeir svíki hugsjónir
sínar fyrir skjótfenginn gróða. Þess
vegna held ég að það gæti haft
góð áhrif á bókmenntasköpun í
landinu að rífa hana að einhverju
leyti út úr trúboðsstellingu jólanna
og því englahári sem henni fylgir.
Eðlis síns vegna eiga bækur ekki
einungis að vera gjafavara, þeim er
ætlað miklu margþættara hlutverk í
mannlegu samfélagi. Jólabókahefðin
setur höfundinn í svipaða stöðu og
lagasmið sem semur jólalag um
hásumar.
GJAFASTELLING
b ó k m e n n t a n n a
EFTIR RÚNAR HELGA VIGNISSON, rithöfund