Spássían - 2012, Qupperneq 19

Spássían - 2012, Qupperneq 19
19 Frankfurtarmessuna. „Það hittist þannig á að ég var í Þýskalandi allt það ár og þá var alltaf verið að láta mann lesa upp einhvers staðar, bæði í tengslum við messuna en einnig sem upphitun eða eftirfylgni á undan og á eftir. Alls konar bareigendum og bókabéusum í stórum og smáum þorpum fannst ástæða til að gera eitthvað með þetta gestaár Íslands og notuðu til þess heimsóknir íslensku höfundanna. Menn fóru til Frankfurt til þess að lesa á messunni en voru svo allt í einu lentir í Sviss og farnir að lesa þar upp líka. Þetta var ansi mikil stemning.“ Eins og fleiri ljóðskáld er Sigurbjörg orðin nokkuð vön því að fara á ljóðahátíðir um allan heim. „Þetta er svona eins og músíkbransinn,“ segir hún og hlær. „Hróarskelda, Glastonbury og allar hinar hátíðirnar.“ Ljóðin eru þá þýdd á ýmsar tungur og Sigurbjörg viðurkennir að það geti verið skrítið að skilja ekki sín eigin ljóð. „Þá kemur að þessum dansi við þýðendur. Maður verður að setja allt líf sitt í hendurnar á þeim. Stundum get ég lesið yfir, t.d. þýsku þýðingarnar eða sænsku, en það er aðallega til að athuga hvort merkingin hafi skilað sér – ég er engu nær um blæbrigði, tón og slíkt. Ég reyni samt alltaf að vera þýðendunum innan handar, ef þeir vilja, og satt að segja er alltaf örlítið grunsamlegt ef það kemur ekki ein einasta spurning. Þá spyr maður sig: „Eru þeir bara að giska?““ Mörg af ljóðum Sigurbjargar gera einmitt út á tvíræðni orða og eru sett þannig upp að hægt er að lesa þau á fleiri en einn hátt. „Þetta er reyndar einkenni á ljóðum yfirleitt, þau eru mikið leikur að orðum og ég botna engan veginn í því hvernig fólk finnur upp á því að gerast ljóðaþýðendur. Það er svo mikið sem liggur í einu tungumáli, og ekki alltaf það sama sem liggur í hinu næsta. Stundum er ég spurð í útlöndum á hvaða máli ég skrifi bækurnar mínar. Mér finnst það alltaf jafn furðuleg spurning, eins og það kæmi mögulega til greina að skrifa til dæmis á ensku. Sumir geta það en ég kann ekkert tungumál jafn vel og íslensku og finnst ekki líklegt að ég geti hreyft mig inni í tungumáli, leikið á það og með það, nema það sé mitt eigið. Fyrir utan að ég er alltaf að sjá betur hvað mikið er eftir af ókönnuðum lendum í íslensku. Ef maður opnar orðabók er þar endalaus uppspretta. Fyrir mörgum árum skrifaði ég grein í Morgunblaðið um framandlega ávexti sem voru farnir að birtast á Íslandi. Þá gerði ég stutta könnun á því hvað væri til af íslenskum orðum yfir ávexti, hvort sem þeir væru til hér eða ekki. Og það eru til svo falleg orð; loðber og blæjuber og tröllaepli og eiraldin … Það veit enginn að sum þessara orða eru til. Þetta eru ekki einu sinni nýyrði, þetta er til í orðabókum en hefur einhvern veginn ekki komist í umferð. Mér finnst að við ættum að prófa sem mest og athuga hvaða möguleikar eru fyrir hendi áður en við hljóðþýðum úr útlensku. Það sparar auðvitað vesen að kíví sé einfaldlega kíví því það er alls staðar eins; en eiraldin – sem er apríkósa – er bara svo lýsandi og fallegt. Og ef ég fer í Lystigarðinn á Akureyri eða Grasagarðinn í Laugardal þarf yfirleitt að snúa við og sækja mig, því ég gleymi mér yfir spjöldunum með jurtaheitunum á íslensku. Tromptúlípani til dæmis, maður vissi ekkert að þetta orð væri til. Og það kveikir eitthvað. Þú getur alveg ort heilan ljóðabálk því þú heyrðir orðið tromptúlípani. Ég held að það sé engin ástæða til að vera óttasleginn gagnvart því að tala vitlaust í eitt og eitt skipti, svo lengi sem grunnstrúktúrinn í málinu er ekki farinn að breytast. Fólk á að vera djarft og finna upp orð og nota öll orðin sem eru til. Í unglingabókunum sem maður las á sínum tíma var alltaf verið að borða glóðað brauð með ávaxtamauki, en ekki ristað brauð með sultu. Það er gaman að allir þessir möguleikar séu til. En auðvitað er munur á því að hafa tíma til að liggja yfir texta og því að þurfa að segja frá nýjum atburðum í beinni útsendingu, eins og fjölmiðlamenn lenda oft í og auðvelt er að gagnrýna ef þeim vefst tunga um tönn. En þar sem svigrúm er til staðar er fullkomlega eðlilegt að fólk noti það svigrúm.“ ÞURFUM STUNDUM AÐ DRAGA ANDANN Sigurbjörg kynntist aðeins fjöl- miðlahliðinni á menningarumræðunni þegar hún vann á Morgunblaðinu og hún er ein þeirra sem sér eftir Lesbók. „Það var mjög sérstakt að dagblað væri með sextán síðna menningarumfjöllun vikulega – nánast óáreitta, því lengi vel var hún án auglýsinga. Jafnvel þeir sem hafa ekki endilega verið aðdáendur Morgunblaðsins í gegnum tíðina hljóta að sjá að þarna var merkilegt starf á ferðinni og mikil synd að ekkert dagblað geri þetta lengur. Það er líka eftirsjá að henni vegna þess að hún vó salt milli dægurumfjöllunar um menningu og lengri umfjöllunar sem tók tíma í vinnslu. En það virðist þurfa talsvert þolgæði til að halda úti

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.