Spássían - 2012, Síða 25

Spássían - 2012, Síða 25
25 Ísvaldur lærir til prests. Að lokum flytur Ísvaldur þó aftur til álfabyggða og stofnar kirkju en þeir Kjartan eru ávallt vinir. Boðskapur þessarar sögu er vitanlega fyrst og fremst kristilegur en engu að síður eru ástir Kjartans og Ísvaldar í forgrunni. Þeir búa reyndar ekki saman til æviloka en í sögunni eru tákn um eitthvað annað og meira en rómantíska vináttu, þar sem Kjartan umbreytir lífi Ísvaldar með kossi sínum og flytur hann yfir í sinn heim. Álfasagan er „saga inni í sögu“ og líta má á hana sem frásagnarspegil eða mise en abyme, eins konar vasaútgáfu af skáldsögunni sjálfri og lykil að túlkun hennar.13 Kjartan er líkt og Sölvi hin kristilega fyrirmynd en fær að vera mun erótískari og lifa í nánara ástarsambandi við ástvin sinn en Sölvi; hafa djúpstæð áhrif á líf hans og búa með honum á fullorðinsárum. Þótt Sölvi sé að draga sig saman við Steinunni í þessu sama jólaboði eru það ástir tveggja ungra manna sem fá rúm í sögu hans, sem styður þá tilgátu að álfafantasían sé birtingarmynd þeirra hómóerótísku tilfinninga sem ríkja í huga hans. Í ljósi þessa er athyglisvert að í eftirmála segir séra Friðrik eftirfarandi um það hvernig sagan af Sölva varð til: Það fór sem rafstraumur gegnum mig, jeg sá drenginn fyrir mjer og sagði hátt við sjálfan mig: „Hvað í ósköpunum var drengurinn að gera uppi á háfjöllum um vetur, aleinn!“ Öll þreyta rann af mjer, og jeg sá allt í einu, að þetta gæti verið byrjun að æfintýri. Jeg gæti látið drenginn villast og komast að Helgafelli við Kaldá og finna þar höll álfakonungsins, uppljómaða, lenda þar í veizlu í dýrðlegum sölum. Jeg þóttist hafa fundið efni í álfasögu, sem jeg gæti lesið upp um kvöldið.14 Álfasagan virðist því einnig hafa verið kjarni skáldsögunnar í huga höfundarins. HINSEGIN SKÁLDSAGA? Er Sölvi hinsegin skáldsaga? Já og nei. Sú rómantíska vinaást sem þar birtist var ekki endilega tengd samkynhneigð á þeim tíma sem sagan var samin en engu að síður er ljóst að skáldsagan fjallar um samkynja ástir og þrár og að því leyti er hún hinsegin í nútímaskilningi. Séra Friðrik var sjálfur ókvæntur og barnlaus en ól upp tvo fóstursyni og eins og áður segir var hans ástríða í lífinu sú að vinna með drengjum og ungum mönnum. Af viðtölum við hann að dæma hafði hann lítinn sem engan áhuga á stúlkum og uppeldi þeirra og í minningargreinum sem birtust í Bókinni um Séra Friðrik (1968) er aldrei nefnt að hann hafi verið við kvenmann kenndur. Þó skal tekið fram að ekkert bendir heldur til þess að Friðrik hafi átt í kynferðislegu sambandi við neinn af drengjunum sem hann starfaði með. Kannski var séra Friðrik samkynhneigður, kannski ekki, og mögulega vissi hann ekki af því – en áhugi hans virðist í það minnsta hafa legið hjá körlum fremur en konum  og það birtist afar skýrt í skáldsögunni um Sölva. Vel má velta því fyrir sér hvort eins nánu vináttusambandi tveggja karlpersóna og birtist í Sölva hefði verið tekið öðruvísi ef einhver annar en séra Friðrik hefði skrifað bókina. Hann var eins og áður segir einn virtasti maður Íslands og ímynd hins kristilega siðgæðis – og slíkt samfélagslegt vald hefur oftar en ekki dugað til að breiða yfir ýmislegt. Á sama tíma gaf Elías Mar út skáldsöguna Man eg þig löngum árið 1949, sem er mjög hreinskilin um samkynhneigð aðalpersónunnar. Bókin fékk lítil sem engin viðbrögð og viðfangsefnið var þagað í hel. Af því má dæma að íslenskt samfélag hafi ekki verið tilbúið til að viðurkenna eða ræða samkynhneigð í bókmenntum um miðja síðustu öld og því verður að telja líklegt að fáum hafi dottið í hug að ræða slíkt í tengslum við skáldsögu séra Friðriks. Sú þögn sem ríkti um hinsegin málefni langt fram eftir 20. öld veldur því að oft er fátt hægt að fullyrða en það er á ábyrgð bókmenntaáhugafólks 21. aldar að geta í eyðurnar og fylla þannig smátt og smátt inn í íslenska hinsegin bókmenntasögu. 1 Hér verður gengið út frá afar víðri skil- greiningu á hinsegin bókmenntum, það er að það séu bókmenntir sem fjalla á einhvern hátt um reynsluheim homma, lesbía, tvíkynhneigðra, transfólks eða annarra sem hafa kynvitund eða kynverund sem fellur ekki að hinu gagnkynhneigða regluveldi. 2 Nýlega kom í ljós að ljóðabókin Kirkjan á hafsbotni, sem kom út árið 1959 undir höfundarnafninu Arnliði Álfgeir og inniheldur meðal annars ástarljóð til kvenna, er í raun eftir konu. Sjá: Ásta Kristín Benediktsdóttir, „Bókin sem kom út úr skápnum“, Dagskrárrit Hinsegin daga í Reykjavík, 2012, bls. 16–18. 3 Friðrik Friðriksson, Sölvi I, Bókagerðin Lilja, Reykjavík, 1947, bls. 195. 4 Höfundur vill þakka Þorvaldi Kristinssyni fyrir að benda á séra Friðrik og skáldsöguna Sölva, sem og yfirlestur og góð ráð. 5 Friðrik Friðriksson, „Raunverulegur eptirmáli“, Sölvi II, Bókagerðin Lilja, Reykjavík, 1948, bls. 312–314. 6 Hinn er óvissan um faðerni Sölva sem ekki gefst tækifæri til að fjalla nánar um hér. 7 Friðrik Friðriksson, Sölvi II, Bókagerðin Lilja, Reykjavík, 1948, bls. 30. Frá Jónatani og Davíð segir í Biblíunni í fyrri Samúelsbók en þeir voru afar nánir vinir og ýmsir hafa síðar bent á erótískar hliðar sambands þeirra. Þegar Oscar Wilde sat fyrir rétti árið 1895 og var spurður að því hver hún væri, „ástin sem ekki vogar að nefna nafn sitt“, svaraði hann: „[Það er] sú djúpa ást fullorðins manns til ungs manns, er var milli Davíðs og Jónatans, sú sem Plató grundvallaði heimspeki sína á og sem finna má í sonnettum Michelangelos og Shakespeares.“ Sjá Linder, Douglas O., „Testimony of Oscar Wilde“, Famous World Trials, 2012, sótt 22. september 2012 af http://law2.umkc.edu/faculty/ projects/ftrials/wilde/Crimwilde.html. Þótt Wilde hafi einungis dregið fram tilfinningaleg hlið þessarar forboðnu ástar er vitað mál að hún var í huga hans einnig erótísk. Hvort séra Friðrik hafði ummæli Wildes í huga skal ósagt látið en vísunin í Jónatan og Davíð styrkir þá túlkun að samband Sölva og Sigurðar sé erótískt. 8 Sama rit, bls. 186–87. 9 Á síðustu árum hefur nokkuð verið skrifað um rómantísk vináttusambönd íslenskra karla. Sjá t.d.: Sigrún Sigurðardóttir, „Tveir vinir. Tjáning og tilfinningar á nítjándu öld“, Einsagan – Ólíkar leiðir, ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon, Háskólaútgáfan, Reykjavík, 1998, bls. 145– 169; Þorsteinn Antonsson, „Sveinaást Ólafs Davíðssonar“, Vaxandi vængir. Aftur í aldir um ótroðnar slóðir, Fróði, Reykjavík, 1990, bls. 103–109; og Þorvaldur Kristinsson, „Loksins varð ég þó skotinn!“ Dagskrárrit Hinsegin daga í Reykjavík, 2009, bls. 29 –32. 10 Rotundo, E. Anthony, „Romantic friendship. Male intimacy and middle-class youth in the Northern United States, 1800-1900“, Journal of Social History,1, 1989, bls. 1-25, hér bls. 20. 11 Sama rit, bls. 21. 12 Faderman, Lillian, Surpassing the Love of Me,. London, The Women’s Press Ltd, 1985. bls. 20. 13 Ítarlega íslenska umfjöllum um frásagnarspegla sjá: Jón Karl Helgason, „Deiligaldur Elíasar“, Ritið, 3, 2006, bls. 101– 130. 14 Friðrik Friðriksson, „Raunverulegur eptirmáli“, Sölvi II, Bókagerðin Lilja, Reykjavík, 1948, bls. 312. Þótt Sölvi sé að draga sig saman við Steinunni í þessu sama jólaboði eru það ástir tveggja ungra manna sem fá rúm í sögu hans, sem styður þá tilgátu að álfafantasían sé birtingarmynd þeirra hómóerótísku tilfinninga sem ríkja í huga hans.

x

Spássían

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.