Orð og tunga - 2020, Page 113
Orð og tunga 22 (2020), 101–110, https://doi.org/10.33112/ordogtunga.22.7
© höfundur cc by-nc-sa 4.0.
Jóhannes B. Sigtryggsson
Yfirlit yfir bil
1 Inngangur
Í þessu yfirliti er fjallað um bil. Þau lenda á milli stafs og hurðar í
umfjöllun um stafsetningu, eru ekki greinarmerki enda ósýnileg
og falla varla undir almennar ritreglur. Það er þó mikilvægt að vita
hvenær á að vera bil og hvenær ekki. Víða er þó vikið að notkun þeirra,
til dæmis í tengslum við punkta og skammstafanir. Sums staðar hefur
hefð um notkun þeirra breyst á síðustu áratugum. Það á sérstaklega
við um bil á eftir málsgreinum og í skammstöfunum. Í umfjölluninni
hér á eftir (2., 3., 4. kafli) tilgreini ég helstu reglur og hefðir um notkun
þeirra í íslensku og vísa í ritreglur Íslenskrar málnefndar (2016 og
2018) þar sem það á við. Ég fjalla einnig um bundin stafbil (5. kafli).
Í sumum tilvikum eru óskráðar hefðir um bil eða jafnvel engin skýr
venja og þar hef ég reynt að setja fram reglur til viðmiðunar.
Í hefðbundnum forritum er almennt aðeins notuð ein tegund
bils (e. word space) sem kallað er fram með því að ýta á bilstöng
hnappaborðs. Það er mismunandi að stærð eftir letri og jöfnun texta.
Í hefðbundnu prenti og umbroti hafa hins vegar lengi verið notaðar
fleiri ólíkar gerðir bila, til dæmis heilbil (e. em space), hálfbil (e. en space),
þriðjungsbil (e. 1/3em space, M/3), fjórðungsbil (e. 1/4space, M/4), mjóbil
(e. thin space) og hársbil (e. hair space) (Íslensk táknaheiti 2003:19).
tunga_22.indb 101 22.06.2020 14:03:53