Bændablaðið - 16.07.2020, Blaðsíða 31
Bændablaðið | Fimmtudagur 16. júlí 2020 31
Það er víða venja hjá
skógarbændum að safnast
saman og fara í skógargöngur
um Jónsmessuleytið og nú í júní
blésu Skógræktin og samtök
skógarbænda til skógargöngu
og samráðsfunda í öllum
landshlutum. Skógarbændur
voru duglegir að grípa tækifærið
og hitta félaga sína og nutu
samverunnar í fallegum skógum
og góðra veitinga. Mæting var
með miklum ágætum og eru
gestgjöfum víða um land færðar
kærar þakkir fyrir höfðinglegar
móttökur og góða leiðsögn.
Jónsmessuganga Félags
skógarbænda á Suðurlandi
Félag skógarbænda á Suðurlandi
fór í sína árlegu Jónsmessugöngu
sunnudaginn 21. júní sl. Að þessu
sinni var gengið um skóginn að
Núpum í Ölfusi. Skógarbóndinn
Guðmundur A. Birgisson leiddi hóp-
inn um skóginn og sagði frá þessum
einstaka útivistar- og nytjaskógi. Þar
er að finna allar helstu trjátegundir,
ásamt miklu úrvali af eðaltrjám.
Upphaf skógræktar að Núpum
er frá 1985 en stórum hluta nytja-
skógarins var plantað árið 2000 og
næstu ár þar á eftir. Vöxtur skógarins
er með eindæmum góður en athygli
vöktu eðaltré sem er að finna vítt
og breitt um skóginn. Þar á meðal
er hlynur sem vex vel og er án allra
óþrifa. Unnið er að því að rækta hlyn
í nokkrum hekturum lands og verður
fróðlegt að fylgjast með þeirri rækt-
un á næstu árum.
Rennisléttir göngustígar og veg-
slóðar eru um allan skóg sem er vel
við haldið, m.a. með reglulegum
slætti. Vandfundnir eru skógar með
betra og snyrtilegra aðgengi en að
Núpum og ræktendum til mikils
sóma.
Heimsókn að Ferstiklu
Félag skógarbænda á Vesturlandi var
stofnað þann 23. júní 1997. Hefð er
að félagsmenn hittist þennan dag
hjá skógarbónda innan félagsins
og skoði skógræktina hjá honum.
Í ár buðu hjónin Guðmundur Rúnar
Vífilsson og Margrét Stefánsdóttir
að Ferstiklu skógarbændum í
heimsókn. Guðmundur Rúnar leiddi
hópinn um skóginn sem er orðinn
mjög vöxtulegur og fjölbreyttur.
Fyrr um daginn hafði verið mikið
gróðurveður en á meðan skógar-
gangan fór fram var þurrt og skapaðist
því góð stemning meðal göngumanna.
Bændur á Ferstiklu gerðu samning
við Skógræktina 2001. Fyrstu fimm
árin var sett niður með plógi, oftast
Markúsarplógi, og gróðursettir tugir
þúsunda plantna á hverju ári. Greni og
ösp í túnin en lerki og fura í melinn,
birkið var svo sett víða í jaðrana. Síðar
hafa verið settar niður 4 til 12 þús-
und plöntur á ári. Skógræktargirðingin
friðar 120 hektara og ekki á eftir að
setja niður í nema 3 til 4 hektara og
íbætur í annað eins.
Fallegur og fjölbreyttur
skógur í Vatnsdal
Félag skógarbænda á Norðurlandi
boðaði til skógargöngu að Hofi í
Vatnsdal 24. júní en ábúendur þar
eru Eline Manon Schrijver og Jón
Gíslason. Vatnsdalurinn tók vel á
móti göngufólki, enda óvíða fegurra,
og þrátt fyrir rigningu í upphafi
göngu var leikur einn að njóta þess
að ganga um í fallegum skógi.
Að Hofi er afskaplega fallegur og
fjölbreyttur skógur. Fyrst var plantað
þar upp úr 1930 en skógurinn er alls
um 40 hektarar að stærð. Jón og
Eline leiðsögðu gestum um skóginn,
bæði eldri og yngri hluta. Í þeim
eldri má meðal annars sjá töluvert
af blæösp sem virðist kunna ákaflega
vel við sig og ýmsar trjátegundir sem
fyrri ábúendur settu niður af mikilli
forsjálni fyrir um 90 árum. Gestir
fengu einnig að kynna sér hentugan
tækjakost sem Jón og Eline hafa
komið sér upp til að nytja skóginn.
Vel heppnuð skógarganga
á Ströndum
Föstudaginn 26. júní sl. var
haldinn skemmtilegur viðburður á
Vestfjörðum þegar sameinaður var
aðalfundur Félags skógarbænda á
Vestfjörðum (FsVfj.), skógarganga
og heilnæmur hádegisverður að
Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum
hjá þeim Höllu og Lóa. Bjarnarfjörður
er einstök náttúruperla, steinsnar frá
Hólmavík.
Eins og gjarnan vill verða í skóg-
um lék veðrið við þátttakendur í
skógargöngunni. Í Bjarnarfirði hefur
vaxið upp mikill skógur, bæði nátt-
úrulegur og gróðursettur. Á Svanshóli
er stunduð kraftmikil og fjölbreytt
skógrækt en hvorki meira né minna
en 26 trjátegundir vaxa á jörðinni.
Stærstu trén eru komin á annan tug
metra og tilheyra trén aspartilraun þar
sem prófaðir eru mismunandi asp-
arklónar við asparryði. Enn er verið
að gróðursetja og bæta við flóruna
á jörðinni. Eftir skógargönguna var
litið inn í tvö gróðurhús. Í öðru þeirra
er stunduð trjáplöntuframleiðsla og í
hinu vaxa stórkostleg ávaxtatré með
kirsuberjum og eplum.
Skógarganga að
Mýrum í Skriðdal
Blíðuveður lék við göngufólk frá
Félagi skógarbænda á Austurlandi
og Skógræktinni þegar farið var í
göngu um skógræktina á Mýrum í
Skriðdal þann 30. júní.
Göngufólk hittist í Stefánslundi,
sem er minningarlundur um Stefán
Þórarinsson, fyrrum bónda á Mýrum.
Byrjað var að planta greni í lundinn
árið 1971 og síðar einnig lerki.
Páll Guttormsson stjórnaði verkinu
en hvatamaður að skóginum var
Zophonías Stefánsson. Síðan var
gengið um hluta skógræktarinnar
sem er frá árunum 1996–2000. Þar
er mestmegnis lerki- og furuskóg-
ur en einnig þó nokkuð af ösp sem
vex vel upp úr bláberjalyngsmóa.
Jónína Zophoníasdóttir, Jón Júlíusson
og Einar Zophoníasson, bændur á
Mýrum, tóku höfðinglega á móti
gestum en um 50 manns mættu. Það
er alltaf fróðlegt að heimsækja aðra
skógarbændur, spjalla saman og njóta
samverunnar.
Samráðsfundir með Skógræktinni
Eftir skógargöngurnar var tæki-
færið nýtt til samráðsfundar með
Skógræktinni en Þröstur Eysteinsson
skógræktarstjóri og Sigríður Júlía
Brynleifsdóttir, sviðsstjóri skógar-
auðlindasviðs, ásamt fleira starfsfólki
Skógræktarinnar, komu og ræddu
við skógarbændur. Ýmislegt bar á
góma, m.a. kolefnisbinding, girðinga-
mál, yfirvofandi skortur á lerkifræi,
skortur á fjármagni í grisjun og milli-
bilsjöfnun og sitthvað fleira. Það er
alltaf gott þegar tækifæri gefast til að
hittast í góðu tómi og fara yfir stöð-
una og fundirnir voru skógarbændum
ákaflega gagnlegir.
Höfundar
Laufey Leifsdóttir, FsN
Bergþóra Jónsdóttir, FsV
Björn Bjarndal Jónsson, FsS
Maríanna Jóhannsdóttir, FsA
Naomi Bos, FsVfj.
LANDSSAMTÖK SKÓGAREIGENDA
Skógargöngur skógarbænda
Draganleg Hobby Smágrafa
ARGO Borgarnesi-sími 8610000 argoiceland@gmail.com
ARGO.IS
Félag skógarbænda á Suðurlandi fór í sína árlegu Jónsmessugöngu um skóginn að Núpum í Ölfusi. Þar er meðal annars unnið að því að rækta hlyn í
nokkrum hekturum lands og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri ræktun á næstu árum. Myndir / Aðsendar.
Á Hofi í Vatnsdal eru ábúendur farnir að vinna timbur úr skóginum.