Morgunblaðið - 29.02.2020, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 29.02.2020, Blaðsíða 34
34 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. FEBRÚAR 2020 Við minnumst ömmu okkar með hlýju hjarta en syrgjum þennan mikla missi úr lífi okkar. Stund- irnar á Háaleitisbrautinni ein- kenndu æsku okkar, þar sem við sátum tímum saman í eldhúsinu, gæddum okkur á ofnhituðu brauði með bræddum osti og sötruðum á heitu kakói. Síðar um kvöldið fylgdumst við með ævintýrum Svanaprinsessunnar og hlustuð- um á ömmu lesa Grimms-ævintýr- in. Oft lágum við í faðmlögum saman uppi í rúmi að klóra hvor annarri á bakinu og snúa hárinu upp á fingur. Á síðari árum var amma alltaf áhugasöm um nýjasta slúðrið, hlustaði vandlega á það erfiði sem hrjáði okkur unglingsstelpurnar og deildi sögum um áhugaverða karaktera. Með tímunum dýpkuðu samræðurnar þar sem við rædd- um lífsspeki og sálfræði með ap- peritíf í hönd. Amma var okkar trúnaðarvinkona, það var ekkert sem við gátum ekki deilt með henni og fengið í staðinn góðar leiðbeiningar um hvernig við gæt- um tæklað ýmis mál. Auk þess kynnti hún okkur þau helstu áhugamál sem hafa mótað okkar lífsleið. Staðráðin í að „allt sem við systurnar tækjum okkur fyrir hendur gerðum við 100% pró- sent“. Amma gerði Ísland að okkar heimili en hikaði ekki við að koma og heimsækja okkur hvar sem við annars vorum staddar. Hún studdi okkur í því fjölbreytta verk- efni að flytja til nýs lands og fylgd- ist spennt með öllum okkar ætl- unarverkum, hvernig sem þau fóru. Hún var sjálf full af ævin- týraþrá og ferðaðist til margra menningarheima, sem einkenndi hana mjög. Hún var full af visku og þekkingu sem hún miðlaði áfram til okkar systranna. Rauðsokkan, hún amma okkar, stoð okkar og stytta. Aukið sjálfs- öryggi okkar og stolt af fjölbreytta bakgrunninum er ömmu að þakka. Hún kenndi okkur listina að læra, lifa og njóta. Þökk sé ömmu höld- um við út í lífið með þekkinguna að vopni, auk styrkleika og skarp- Vilborg Sigurðardóttir ✝ Vilborg Sig-urðardóttir fæddist 14. janúar 1939. Hún andaðist 15. febrúar 2020. Útför Vilborgar fór fram 28. febr- úar 2020. leika sem hún veitti okkur. Við geymum minninguna um hana með því að lifa eftir þeim lífsreglum sem hún kenndi okk- ur. Alexandra Jóns- dóttir og Anas- tasía Jónsdóttir. Árið 1980 var ég í framhaldsnámi mínu að vinna að könnun um áhrif menningarauðs á nám og Vilborg lenti í símaúrtak- inu: „Hvað ég á margar bækur? Ég get mælt metrana með tommustokknum,“ svaraði hún að- spurð um bókaeign sína. Þegar ég hafði lokið spurningum mínum sagði hún að nú væri kominn hennar tími til að yfirheyra mig. Það gerði hún og tveimur árum síðar hafði hún frumkvæði að því að ég kom til kennslu sem fé- lagsfræðikennari við Fjölbrauta- skólann við Ármúla. Þessi fyrstu kynni mín af Vil- borgu urðu þannig örlagavaldur í lífi mínu og í framhaldinu varð hún minn helsti áhrifavaldur í starfi. Vilborg var enda einn frumkvöðla þess að félagsfræði var tekin upp sem kennslugrein í framhalds- skólum. Ég lærði margt af Vilborgu enda var hún skarpgáfuð og víð- sýn kona og hafði frá mörgu að segja. Hún var gagnrýnin í hugs- un og óhrædd við að setja mál sitt fram á ákveðinn, hreinskilinn og stundum hvassan hátt. Vilborg kenndi mér að forvitni væri kostur fremur en löstur enda undirstaða þekkingarleitar. Ég var ekki einn um að lenda í yfirheyrslu hennar um ætt mína og æsku. Fyrrver- andi samstarfskona hefur sagt frá því að þegar hún byrjaði kennslu þá spurði Vilborg hana um um ættina og þegar í ljós kom að hún þekkti til foreldranna þá horfði Vilborg rannsakandi á viðmæl- andann og sagði: „Hún mamma þín var alltaf svo ansi hreint myndarleg en þú ert svo lík hon- um pabba þínum.“ Þeir sem þekktu til Vilborgar vita að at- hugasemdir af þessu tagi voru uppspretta vináttu. Vilborg var mikil baráttukona fyrir jafnrétti kynja og átti sína aðkomu að stofnun Rauðsokka- hreyfingarinnar. Hún var líka mikil íslenskukona og hneykslað- ist stundum yfir undarlegri notk- un íslensks máls. Hún gat verið kaldhæðinn húmoristi og kunni vel á tvíræðni. Eitt sinn þegar rætt var um kynferðislega áreitni og hugtökum eitthvað ruglað sam- an í umræðunni kvað Vilborg upp úr með því að á kennarastofunni væri allt of lítið um kynferðislegt áreiti. Menn setti hljóða. Vilborg hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Mannlýs- ingar hennar voru oft óborganleg- ar. Fáum dögum áður en hún kvaddi heimsótti ég hana á líkn- ardeild og þrátt fyrir að hún væri í nokkru lyfjamóki sagði hún mér frá manni nokkrum og notaði svo litskrúðug lýsingarorð til að segja frá kostum og löstum að slíkt verð- ur ekki jafnað. Eins og verða vill þegar við eld- umst þá skiptu barnabörnin Vil- borgu miklu. En það voru ekki bara barnabörn hennar heldur vildi hún vita allt um börn og barnabörn annarra. Vilborg var enda mjög góður vinur vina sinna og í veganesti nú sagði hún mér að ég yrði að lesa „Lifandi vatnið“ hennar Jakobínu. Það mun ég gera um leið og ég þakka fyrir að hafa kynnst Vilborgu í gegnum samtal okkar um bækur. Kynni mín af henni bættu líf mitt. Í gegnum veikindi Vilborgar stóð Vikar með henni eins og sá klettur sem hann var henni alla tíð. Við Guðrún sendum honum, sonum Vilborgar og barnabörnun- um okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Hannes Í. Ólafsson. Vilborgu kynntumst við árið 1972 þegar þær Unnur urðu sam- kennarar í Lindargötuskóla og síðan áfram í Ármúlaskóla meðan báðar voru við störf, en á þeim ár- um átti Vésteinn líka samstarf við Ólaf, fyrri mann hennar. Vilborg reyndist frá fyrstu kynnum eftir- minnileg kona, ræðin, fróð og áhugasöm um menn og málefni, hafði ákveðnar skoðanir sem hún átti létt með að orða með hnitmið- uðum hætti og oft kímni blöndn- um, jafnvel háði ef svo bar undir. Hún var vinmörg, heimilið fallegt og gestrisni mikil, veitingar rausn- arlegar og umræður fjörugar. Góðar og skemmtilegar minning- ar eigum við um ferðalög með henni og Vikari. Þegar þau heim- sóttu okkur í Kaliforníu 1989 fór- um við saman í miklum sumarhita í hinn ægifagra fjalladal, Yose- mite, og einnig að Tahoevatni á mörkum Kaliforníu og Nevada. Nokkru eftir aldamótin fórum við fjögur saman skemmtilega og fróðlega ferð til Prag, Dresden, Leipzig og Weimar. Þá kom sér vel mikil þekking þeirra hjóna beggja á evrópskri sögu og menn- ingu, auk þess sem Vikar kunni góð skil á þessum borgum frá námsárum sínum. Eftirminnileg er dagsferð til Vestmannaeyja á fögrum sumardegi um svipað leyti. Þannig mætti lengi telja, en hvenær sem Vilborg var með í för setti hún svip á dagana með návist sinni. Ævistarf hennar var kennsla og vel mátti skynja hve annt henni var um nemendur sína; hún hafði lifandi áhuga á þeim sem einstak- lingum ekki síður en námsfólki. Með þakklæti og söknuð í huga kveðjum við Vilborgu og sendum Vikari, Jóni, Halldóri og öðrum aðstandendum einlægar samúðar- kveðjur. Unnur og Vésteinn. Nær fimmtíu ára samfylgd er lokið. Ég kynntist Vilborgu þegar hún trúlofaðist bróður mínum, Ólafi Jónssyni, snemma á 7. ára- tugnum. „Hver er þessi yndis- fagra stúlka?“ spurði hann vin sinn, Hrafnkel Thorlacius, á balli í Sjálfstæðishúsinu. Hann kynnti þau og framhaldið varð hjóna- band. Óli bróðir var á þessum tíma við nám í bókmenntafræði í Stokk- hólmi. Að því loknu giftust þau hjá sýslumanni og hófu búskap í lítilli íbúð í kjallaranum á Smáragötu 9. Við mamma, Ásgerður Guð- mundsdóttir, bjuggum á efri hæð- unum sem þau höfðu einnig afnot af. Íbúðinni í kjallaranum fylgdi klósett í skonsu undir súð en hend- ur þurfti að þvo í eldhúsvaskinum og sömuleiðis bursta tennur. Mamma dó 1966 sjötíu og eins árs gömul. Þá voru synirnir Jón og Halldór báðir fæddir. Sá yngri að- eins fimm mánaða svo eðlilegt var að við hefðum aðsetursskipti. Ég flutti því í kjallarann og á hlýjar minningar þaðan eins og ég veit að Vilborg og bróðir minn áttu líka. Þessari sambúð lauk 1968 og við eignuðumst okkar eigin íbúðir, Vil- borg og Ólafur á Háaleitisbraut en ég á Fálkagötu. Tengslin voru áfram góð en þó meiri eftir að ég eignaðist Ásgerði dóttur mína 1973. Þau hjálpuðu mér eins og þau frekast gátu. Við mæðgur vor- um t.d. alltaf hjá þeim á aðfanga- dagskvöld og sóttum þá í leiðinni Ragnhildi móðursystur okkar Óla sem var með okkur þangað til hún fór á elliheimilið á Höfn í Horna- firði. Eftir að Ólafur og Vilborg skildu 1976 héldum við mæðgur áfram aðfangadag hátíðlegan með Jóni, Halldóri og Villu, en vorum hjá bróður mínum og Sigrúnu Steingrímsdóttur og síðar líka Völu litlu á annan í jólum. Þessi til- högun hélst í mjög langan tíma einnig eftir að Vikar Pétursson, seinni maður Vilborgar, kom til sögunnar, Kristín yngri dóttir mín fæddist 1979 og bróðir minn var dáinn aðeins 48 ára að aldri. Ég man aðeins eftir einni undantekn- ingu, Vikar og Halldór voru hjá okkur á Fálkagötu þegar Villa brá sér í ferðalag um suðurhöf ásamt systursyni sínum, Benedikt Blön- dal. Villa og Vikar voru mér sérlega hjálpsöm meðan stelpurnar voru litlar, sóttu þær í sveit að Indriða- stöðum í Skorradal og kannski líka að Kálfafellsstað í Suðursveit og þær voru hjá þeim þegar ég brá mér til útlanda eða í fjallaferðir. Vilborg sýndi fólki svo mikinn áhuga, húsfreyjunni á Indriðastöð- um, Betu og Fjalari á Kálfafells- stað og var svo minnug á frásagn- arverða atburði. Fyrir þetta og svo margt margt annað vil ég þakka. Sólveig Jónsdóttir. Þeir segja að maður komi í manns stað. En enginn kemur í stað bestu vinkonu minnar í ára- tugi. Við Villa kynntumst þegar við settumst báðar í MR og urðum vinkonur fyrir lífstíð. Það eru 64 ár liðin síðan þá. Við lærðum latínu í þrjú ár og að því er mig minnir, á hverjum degi síðasta árið. Það þótti ómissandi í þá daga. Fátt stendur eftir af þeim fræðum en orðin integer vitae, scelerisque pu- rus, hafa komið sér fyrir í ein- hverju hugskoti í öll þessi ár sem liðin eru og sitja þar föst enda má segja að þau séu eilíf sannindi. Þessi orð hafa verið þýdd með vammlaus og vítalaus á íslensku en mér finnst þau tákna heilindi hjartans, að svíkja ekki sannfær- ingu sína, fara í gegnum lífið frjáls eins og við vorum borin, segja sannleikann. Þannig var Villa og þannig mun ég ætíð minnast henn- ar. Hún var gæfusöm í lífinu og eiginmaðurinn, synirnir og barna- börnin voru eins og blómakrans kringum hana þar til yfir lauk. Og þá eru ótaldar þær þúsundir sem hún kenndi og hjálpaði í starfi sínu. Vertu sæl, elsku Villa mín. Guð mun gefa þér stað sem þér hæfir í ríki sínu. Guðrún Finnbogadóttir. Vilborg er nú horfin til annarra heima, kvenskörungur sem bar nafnið sitt einkar vel. Ég kynntist henni fyrir hartnær hálfri öld, þeg- ar við Jói komum á Hallormsstað, hvort úr sinni áttinni. Þar réð Vil- borg ríkjum. Hún var brosmild en íbyggin, eins og við hefðum þekkst lengi, þarna urðu endurfundir fornra sálna. Straumur lífsins bar okkur hingað og þangað og áfram mættumst við á óvæntum slóðum. Síðar kom á daginn að við áttum sameiginlega hjartans vinkonu, Jóhönnu Þráinsdóttur, sem við kvöddum fyrir nokkrum árum. Það var dásamlegt að eiga Vil- borgu að í vinkvennahópi Jóhönnu. Framkoma hennar bar jafnan vott um festu, æðruleysi og einurð, en undir niðri bjó ólgandi kímni og sí- kvikur áhugi á margvíslegum mál- efnum. Mikið var alltaf gaman að rabba við hana, og oft hittum við þau Vikar á merkum menningar- viðburðum. Við hjónin erum Vilborgu þakk- lát fyrir samfylgdina og vottum að- standendum hennar innilega sam- úð. Ólöf Pétursdóttir. Það er rétt sem Jón Ólafsson hefur sagt um móður sína, hún var hvorki einföld manneskja né hversdagsleg. Það munar verulega um hana Vilborgu í hugum okkar vina hennar og þannig var það, bæði á góðum stundum sem slæm- um, í gleði og sorg. Það var gott að gleðjast með Villu, en það var líka gott að gráta með henni. Við hlust- uðum saman á Lotte Lenya syngja Brecht og þegar Villa tók undir með stórstjörnunni mátti vart heyra á þeim nokkurn mun. Vilborg tók virkan þátt í barátt- unni fyrir réttindum kvenna og á þar markvert framlag í ræðu og riti. Við fögnuðum góðum sigrum í pólitíkinni og börðumst saman fyr- ir hinum góða málstað. Hún var skarpur og gagnlegur gagnrýn- andi, háðfugl og húmoristi og ekki manneskja hinna ódýru lausna. Mestar þakkir kann ég henni þó fyrir ótal merkisstundir á Háaleit- isbrautinni og ýmis uppátæki okk- ar fullorðna fólksins – og ekki síður fyrir syni hennar, sem gerðust strokupiltar úr sumarbúðum og voru mér bæði skemmtan og yrk- isefni. Vikari Péturssyni, Jóni, Hall- dóri og barnabörnunum sendi ég mínar innilegustu kveðjur og ást- arþakkir fyrir allar góðu stundirn- ar. Guðrún Helgadóttir. Mislengi er líf vort í hafi, yrkir Hannes Pétursson. Við Vilborg vorum samstarfsmenn í FÁ um aldarfjórðungs skeið en þekkt- umst fyrr vegna ættartengsla; konan mín og hún eru systkina- dætur. Hún hugsaði svo sannar- lega um fjölskyldu sína og frænd- garð. Saga og félagsfræði voru aðalkennslugreinar hennar í FÁ þótt stundum kæmi hún að fleiri fögum. Hún var vel að sér, sótti námskeið, fylgdist grannt með nýjungum og velti fyrir sér náms- efni en tók ekki upp nýjar bækur nema þær stæðust gagnrýni. Nemendum varð hún minnisstæð. „Henni tókst að skilja eftir ein- hverja vissu hjá mér sem fékk mig til þess að trúa því að ég hefði hæfi- leika til þess að tjá mig í orðum. Hún lét í ljós persónuleg viðbrögð við verkefnum og var sterkur kar- akter, hafði ríka nærveru. Hún fann leiðir til þess að hvetja þá sem voru alveg úti á túni. Gafst ekki upp heldur rótaði í þeim,“ sagði gamall nemandi í skeyti til mín. Hún hélt góðum aga áreynslulaust en henni mislíkaði þegar klárir krakkar sóuðu hæfileikum sínum í leti og vanrækslu og tók þá til bæna. Sumir fyrirgáfu henni ekki fyrr en eftir nokkra daga, sáu þá að sér og áttu síðan í henni hvert bein. Hún bar hag nemenda fyrir brjósti og ég veit mörg dæmi þess að hún liðsinnti þeim í stóru og smáu utan kennslu. Hún var stór- veldi á kennarastofunni og leyndi því ekki ef henni fannst samstarfs- menn sjúska við fræði sín, flytja skrítnar tillögur á fundum eða sýna ekki fullan metnað í starfi, gat þá verið hvassyrt en mildaðist með árunum. Sem nemandi í MR og HÍ var hún býsna beinskeytt, hef ég sannspurt, og gerði ríkar kröfur til kennara. Hún var róttæk í skoðunum og var meðal stofn- enda Rauðsokkahreyfingarinnar, lét þar til sín taka og átti sinn þátt í kvennafrídeginum 1975. Hún var prýðilega ráðholl. Í skólum þurfa yfirvöld að taka ótal ákvarðanir, helst fljótt og þó ígrundaðar. Að- gát skal líka höfð í nærveru sálar því að í skólum snýst starfið um fólk, ekki fisk eða fénað. Það var gott að bera undir hana álitamál, fá nýtt sjónarhorn og röksemdir áður en hlutirnir voru geirnegldir. Hún var vandaður yfirlesari, orð- fær og hafði góða tilfinningu fyrir vönduðu máli. Hún blessaði allar skólaslitaræður mínar og gerði þá gagnlegar athugasemdir áður en ég flutti þær. Þau hjón Vikar og Vilborg voru gestrisin heim að sækja og þar var vel veitt og margt spjallað og stundum lengi sumarbjartar næt- ur. Þau voru einstaklega samhent hjón og fylgdust vel með í menn- ingarlegum efnum og tóku vissu- lega þátt í stormum tíðarinnar. Nú hafa kvölddyrnar lokist upp fyrir henni eins og bíður okkar allra einhverja óvissa stund. Hún hefur slegist „í fylgd með söngn- um / silfurbjarta / inn í kvöld- skuggaþröng / þar sem klukku- hljómur ferðalagsins þagnar“ eins og Hannes Pétursson segir á vís- um stað. Við Magnea þökkum henni samfylgd og trausta vináttu og vottum ástvinum hennar sam- úð okkar. Sölvi Sveinsson. Kveðja frá rauðsokkum Það voru galvaskar og baráttu- glaðar konur sem gengu á rauðum sokkum niður Laugaveginn 1. maí 1970 í kröfugöngu verkalýðsins, aftast. Þar var Villa og þar vorum við. Í kjölfarið varð Rauðsokka- hreyfingin til. Síðan þá höfum við gengið saman margan veginn okkur til skemmtunar og þroska. Samstilltar stóðum við að baráttu- málum og uppákomum hreyfing- arinnar. Glöddumst þegar vel gekk og héldum þétt saman þegar á okkur var ráðist fyrir nýstárleg- an málstað sem braut gegn alda- gömlum hefðum. Margt sem nú þykir sjálfsagt þótti fádæma rót- tækt á þeim árum, eins og t.d. það að öll börn ættu að eiga möguleika á leikskóladvöl yfir daginn eða konur ættu rétt á sambærilegum launum fyrir sambærileg störf. Starfsaðferðir rauðsokka voru óvenjulegar á þess tíma mæli- kvarða, með mótmælum á götum úti, dreifingu flugrita og fleiri að- gerðum sem voru ekki daglegt brauð í þá daga. Kröfum var kom- ið á framfæri, gjarnan beint við ráðamenn þjóðarinnar. Vilborg var hugmyndarík og í aðgerðum hreyfingarinnar var hún málefna- leg; sókndjörf kynnti hún áherslur rauðsokka hvort sem var á opinberum vettvangi eða á fund- um margvíslegra félagasamtaka. Sokkholt nefndist aðsetur hreyf- ingarinnar og þar lagði Villa sitt af mörkum. Til er mynd af henni þar einbeittri, bograndi yfir ritvélar- skrifli að semja texta. Vilborg var fróð og kunni að miðla þekkingu sinni. Á fyrstu mánuðum hreyfingarinnar mynd- aði hún fræðsluhóp um sögu kven- réttinda á Íslandi á árunum 1850 til 1916, enda sagnfræðingur að mennt. Við samningu endurminn- inga rauðsokka, Á rauðum sokk- um, baráttukonur segja frá, sem út kom árið 2011, var henni falið að rita sagnfræðilegan inngangs- kafla. Villa hafði sterka viðveru, var gefandi og ræðin á sinni fallegu norðlensku mállýsku. Minnug um menn og málefni skemmti hún samferðafólki sínu með sögum sem hún setti oft í skemmtilegan búning. Samheldnin og vináttan hefur verið okkur mikils virði í gegnum árin. Við kveðjum með trega Vil- borgu Sigurðardóttur, litríka vin- konu og samstarfskonu um leið og við þökkum henni framlag hennar til kvennabaráttunnar á Íslandi. F.h. okkar sem stofnuðum Rauðsokkahreyfinguna saman, Helga Ólafsdóttir og Gerður G. Óskarsdóttir. Þökkum auðsýnda samúð, vináttu og hlýhug við andlát og útför ástkærrar frænku okkar, KOLBRÚNAR JENSDÓTTUR hjúkrunarfræðings. Innilegar þakkir færum við starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Mörk fyrir alúð og góða umönnun. Bróðurbörn og systursynir Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð, kærleika og hlýjar kveðjur við andlát og útför elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, RUTHAR PÁLSDÓTTUR. Sérstakar þakkir til starfsfólks Hjúkrunarheimilisins Eirar fyrir góða umönnun og hlýju í garð Ruthar. Brynja Vermundsdóttir Logi Úlfarsson Kristín Fenger Vermundsd. Helgi Benediktsson Páll Ómar Vermundsson Sigurbjörg I. Vermundsdóttir Öystein Moe barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.