Skessuhorn


Skessuhorn - 28.10.2020, Blaðsíða 37

Skessuhorn - 28.10.2020, Blaðsíða 37
 23 Þótt tilboðin væru hliðstæð þá var staðsetningin það ekki og tilboð Stefáns því verið lagt til hliðar. Akurnesingar höfðu strax í upphafi haft veður af þessum áformum kvennanna og vildu kanna grundvöll fyrir byggingu sameiginlegs dvalarheimilis í nágrenni Akraness. En það er vandi góðu boði að neita. Staðarvalið hefur verið verulegur höfuðverkur fyrir dvalarheimilisnefndina og stjórn SBK. Aðalfundur SBK árið 1960 kaus níu manna nefnd (dvalarheimilisnefndina auk fjögurra til viðbótar) til að leiða staðarvalsmálið til lykta. Málið var borið undir landlækni og einnig var leitað álits Gísla Sigurbjörnssonar forstjóra Grundarheimilianna sem færði rök fyrir því að Borgarnes væri heppilegasti staðurinn. Gísli hafði sýnt áhuga sinn fyrir þessu framtaki og fylgst með starfi nefndarinnar. Hann bauð nefndinni og fulltrúum sýslnanna ásamt formanni SBK að skoða elliheimilin syðra. Segja má að þáverandi landlæknir, Sigurður Sigurðsson, hafi hoggið á hnútinn er hann gaf það út að hann samþykkti ekki að dvalarheimilið yrði í sveit og færði bréflega rök fyrir því. Staðarvalsnefndin fundaði 23. júní 1961 og ákvað að stefna til Borgarness, að heimilið yrði reist þar. Var það samþykkt með átta atkvæðum af níu. Borgarneshreppur bauð fram lóð á Bachmanstúni án endurgjalds og kr. 500 þús. í meðgjöf. Þar með var teningunum kastað. Helstu rökin með því að velja heimilinu stað í Borgarnesi voru m.a. þau að heimsóknir til heimilismanna væru auðveldari aðstandendum og vinum. Til Borgarness ættu héraðsbúar erindi með nokkuð reglubundnum hætti vegna verzlunar og þjónustu. Auðveldara yrði með ráðningu starfsfólks þar. Ekki þyrfti að byggja yfir það sérstaklega. Læknisþjónusta á Kleppjárnsreykjum yrði ekki þar til frambúðar. Það varð, Kleppjárnsreykjalæknishérað var lagt niður með tilkomu Heilsugæzlustöðvarinnar í Borgarnesi. Svo fór að DAB lagði til þess hluta af sinni lóð og var heilsugæzlustöðin byggð áföst dvalarheimilinu. Sú tilhögun hefur haldizt síðan og reynzt DAB/Brákarhlíð og íbúum dvalarheimilisins afar dýrmæt. Það hefur verið mjög til hagræðis og sambýlið gengið afar vel alla tíð. Staðarvalið hafði hins vegar þær afleiðingar að kvenfélögin sunnan Skarðsheiðar endurskoðuðu afstöðu sína til dvalarheimilismálsins og ákváðu að styðja fremur við byggingu elliheimilis á Akranesi enda var viðfangsefnið ekki lengur bundið við sveitafólk eins og það hafði hljóðað í fyrstu, þegar málið kom fram á aðalfundi SBK árið 1957. Um þessa ákvörðun ríkti full sátt og skilningur. En þótt staðarvalið hafi verið til lykta leitt um sumarsólstöður árið 1961 þá þýddi það ekki að allir væru sáttir við niðurstöðuna. Þannig gerast hlutirnir ekki. Bæði var látið eins og málið væri ófrágengið eða gerðar tilraunir til að því yrði hnekkt, síðast þegar framkvæmdir voru í þann veginn að hefjast. Málið þokast í rétta átt Aftur skal vitnað orðrétt í 40 ára afmælisrit SBK: „Á sýslufundum 1958 voru kosnir tveir fulltrúar, annar fyrir Mýrasýslu og hinn fyrir Borgarfjarðarsýslu, til að starfa með dvalarheimilisnefnd SBK. Hélst sú skipan til ársins 1964. Á árunum 1964-68 tókst nefndinni smátt og smátt að fá forráðamenn sýslna og hreppsfélaga í héraðinu til að ganga í málið, enda gat nefndin þá lagt fram myndarlega fjárhæð til dvalarheimilisbyggingar, og hafði einnig unnið geysimikið undirbúningsstarf að öðru leyti.“ Þeir sem kosnir voru af sýslunefndunum til að starfa með dvalarheimilisnefnd SBK voru þeir Þórður Pálmason frá Mýrasýslu og Kristleifur Þorsteinsson frá Borgarfjarðarsýslu. Ljóst er af viðbrögðum sýslunefndanna að þær hafa tekið málflutningi dvalarheimilisnefndarinnar vel og af fullri alvöru. Var svo alla tíð. Á þetta var litið sem nauðsynlegt framfaramál í héraði en að borgfirzkum hætti ekki stokkið til og tekin fyrsta skólflustungan enda krafðist málið ýtarlegs undirbúnings áður en til slíks kæmi. En málefnið var komið á dagskrá. Á árinu 1964 virðist að málið sé að færast meira í fang sýslunefndanna eða nefndar á þeirra vegum þótt dvalarheimilisnefnd SBK slái hvergi slöku við. Á aðalfundi sýslunefndar Mýrasýslu árið 1965 lá fyrir beiðni frá byggingarnefnd dvalarheimilisins um fjárframlag. Sýslunefndin tók málinu vel og lýsti yfir orðrétt: „Heitir sýslunefndin stuðningi sínum við þetta mál eftir því sem úrræði séu til hverju sinni, svo sem ábyrgðum sýslusjóðs fyrir byggingarlánum eftir því, sem nánar kann að verða ákveðið síðar.“ Þetta heitir nú að vera bæði með belti og axlabönd, því allur er varinn góður, en samþykkt var að ábyrgðarheimildir yrðu til staðar ef á þyrfti að halda til lántöku. Á sýslunefndarfundum ári síðar 1966 eru í fyrsta sinn samþykktar fjárveitingar af hálfu sýslunefndanna til verkefnisins og þá væntanlega til undirbúnings framkvæmdanna. Ekki er að efa að öflugt fjáröflunarstarf Sambands borgfirzkra kvenna og ýtni hefur gert aðilum ljóst að þar væri um að ræða þátttakanda sem stæði fyrir sínu. Geirnegling Á aðalfundum sýslunefndanna beggja í maí 1968 var endanlega staðfest þátttaka sýslnanna í framkvæmdunum með samþykkt kostnaðarhlutfalla þeirra aðila sem að byggingunni standa og að þau yrðu þannig: Mýrasýsla 30%; Borgarfjarðarsýsla 15%; hreppar milli Hvítár og Skarðsheiðar 22%; Borgarneshreppur 18% og SBK 15%. Málið var svo geirneglt í júlímánuði sama ár með undirritun stofnsamnings um byggingu 1. áfanga dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi. Áætlaður framkvæmdakostnaður hljóðaði upp á 10 m.kr. Ákveðið var; „að skiptingin næði til þess kostnaðar sem héraðið yrði að leggja fram umfram það sem fengizt frá öðrum opinberum aðilum, félögum eða einstaklingum sem vilja leggja fé til þessa nauðsynjamáls.“ Sýslunefnd Mýrasýslu áréttaði að hún teldi sig óbundna af þátttöku í rekstrarkostnaði, þrátt fyrir þessa samþykkt, en muni taka afstöðu til þess síðar er áætlun um rekstrarkostnað liggur fyrir. Fáum árum síðar komu Kolbeinsstaðahreppur og Eyjahreppur til samstarfs um dvalarheimilið en Miklaholtshreppur 1994 með sameiningunni við Eyjahrepp. Byggingarnefnd tekur við og framkvæmdir hefjast Er hér var komið var ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa. Í ágústmánuði sama ár var kosin framkvæmdanefnd sem í daglegu tali var kölluð byggingarnefnd. Hún var þannig skipuð að Aðalheiður Jónsdóttir húsfreyja á Bjargi og formaður dvalarheimilisnefndar SBK var fulltrúi SBK, Halldór E. Sigurðsson sveitarstjóri Borgarneshrepps og alþm. og Ásgeir Pétursson sýslumaður og oddviti sýslunefndanna. Fyrsti fundur byggingarnefndarinnar var haldinn 2. ágúst 1968. Nefndin skipti þannig með sér verkum að Ásgeir varð formaður, Halldór ritari og Aðalheiður meðstjórnandi. Nefndin réði síðan Þórð Pálmason oddvita í Borgarnesi og fyrrum kaupfélagsstjóra til þess að annast gjaldkera- og bókhaldsstörf vegna framkvæmdanna. Þá var ákveðið að leita tilboða í framkvæmdir við grunn dvalarheimilisins og hefjast handa við framkvæmdir að fenginni niðurstöðu tilboða. Tvö tilboð bárust og á næsta fundi nefndarinnar þann 25. ágúst voru þau opnuð. Tilboðsgjafar voru Guðmundur Ingi Waage og Þorsteinn Theódórsson, báðir byggingameistarar í Borgarnesi. Voru þeir báðir mættir á fundinn. Ekki hafði verið leitað út fyrir Borgarnes eftir tilboðum. Tilboð Guðmundar nam 394 þ.kr. en Þorsteins 426 þ.kr. Arkitekt byggingarinnar, Ragnari Emilssyni, var falið að gera samanburð á tilboðunum sem hann og gerði á öllum síðari útboðsverkefnum. Niðurstaðan að þessu sinni varð sú að tilboði Guðmundar Inga var tekið á því verði sem hann hafði boðið. Og nú verður vitnað orðrétt í skrif Ásgeirs Péturssonar formanns byggingarnefndarinnar: „Nú var verkið hafið og var góð samstaða allra aðila sem að framkvæmdinni stóðu um að drífa verkið kröftuglega áfram. Byggingarnefndin sem vissulega var skipuð aðilum með ólíkar stjórnmálaskoðanir, átti sérlega gott samstarf sem aldrei féll skuggi á. Það kom vissulega í minn hlut að leiða þetta starf sem formaður byggingarnefndarinnar. En það var mikils virði fyrir mig að hafa jafn reyndan mann og Þórður Pálmason var í því starfi sem hann tók að sér. Aðalheiður á Bjargi vann að þessari hugsjón sinni af eldmóði og var oft gaman að starfa með henni, því hún er í senn bjartsýn og glaðlynd. Halldór E. Sigurðsson var okkur líka góð hjálparhella í ýmsum efnum.“ Uppsteypa hússins kom síðan í hlut Guðmundar Inga Waage sem hann skilaði af sér komnu undir þak. Tilbúið undir tréverk Eitt af verkefnum byggingarnefndarinnar var að tryggja fjármögnun framkvæmdanna. Þar kom inn í myndina sjóður í vörzlu félagsmálaráðuneytisins sem nefndur var Jóhannssjóður. Jóhann sá sem sjóðurinn var kenndur við hafði gefið fjárhæð sem hann ætlaði til mannúðar- og menningarmála. Ráðuneytið samþykkti að lána kr. 800 þ. úr sjóðnum. „Sparisjóður Mýrasýslu ábyrgðist með bakábyrgð dvalarheimilisins, sem studdist við sýslusjóði Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu auk sveitarsjóðs Borgarness.“ Ekki var skuld þessi áhyggjuefni í huga formanns byggingarnefndarinnar, því hann var sannfærður um að henni yrði breytt fyrr eða síðar í óafturkræft framlag. Margir gáfu fé til framkvæmdanna. Einnig þekktist að fólk sem vildi tryggja sér dvöl á heimilinu, legði fram fé í byggingarsjóðinn; kallaðist próventa hér í eina tíð. Slíkt var auðvitað lánsfé sem jafnaðist á móti daggjöldum síðar. Dvalarheimilisnefnd SBK sem á þessum tíma hafði skipt um nafn og kallaðist fjáröflunarnefnd dvalarheimilisins hélt áfram sínu ötula starfi. Snemma árs 1970 var byggingin tilbúin undir tréverk og aðra innviði og framkvæmdakostnaður kominn í 6 m.kr. Rafblik hf., Reynir Ásberg Níelsson rafvirkjameistari í Borgarnesi, átti tilboð sem var tekið í að ljúka framkvæmdinni. Þorsteinn Theódórsson tók að sér hurðasmíði en Trésmiðjan Víðir hafði gert tilboð í smíði húsgagna og var því tekið „enda var það hagstætt.“ Heilsugæzlan Eins og fyrr var greint frá í sambandi við staðarvalið þá voru á sjöunda áratugnum uppi áform um að sameina læknishéruðin í Borgarfirði í eitt með aðsetri í Borgarnesi. Sambýli við dvalarheimilið hafði mjög komið til álita í því efni, það væri góður kostur, talið beggja hagur og staðsetningin heppileg. Málið hafði verið rætt af hálfu viðkomandi ráðuneytis við formann byggingarnefndarinnar og þá nefnt að læknamiðstöðin yrði byggð sem viðbygging vestan við nýbygginguna en þar hafði verið gert ráð fyrir viðbyggingu fyrir dvalarheimilið. Formaður læknamiðstöðvarinnar óskaði eftir viðræðum um málið við byggingarnefndina. Efnt var til fundar 9. janúar 1971 í því skyni. Mættust þar byggingarnefnd dvalarheimilisins ásamt framkvæmdastjóra sínum Þórði Pálmasyni og stjórn læknamiðstöðvarinnar en hana skipuðu læknarnir Aðalsteinn Pétursson og Valgarð Björnsson, Húnbogi Þorsteinsson sveitarstjóri og Friðjón Sveinbjörnsson sparisjóðsstjóri. Farið var yfir aðdraganda málsins og gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem byggingarnefndin taldi nauðsynlegt að setja ef til þessa kæmi. Þar var nefnt að það yrði skylda læknamiðstöðvarinnar að taka þátt í frágangi lóðar og bifreiðastæða og lagningu sameiginlegra lagna s.s. fyrir miðstöð, vatn, frárennsli og síma. Einnig að arkitekt dvalarheimilisins fylgdist með þeim breytingum sem gera þyrfti. Að svo búnu staðfestu aðilar samkomulag um sambyggingu læknamiðstöðvarinnar við dvalarheimilið og dvalarheimilið afsalaði sér hluta lóðar sinnar til læknamiðstöðvarinnar. Báðir aðilar settu fyrirvara um staðfestingu samkomulagsins í sínu baklandi. 31. janúar 1971 Nú dró til tíðinda í héraði. Nýbygging dvalarheimilisins var því sem næst tilbúin. Það hefur verið vel að verki staðið. Seinni hluta janúar fluttu fyrstu íbúarnir inn. Þremur mánuðum fyrr hafði verið ráðin forstöðukona til heimilisins. Hún hét Anna Gestsdóttir úr Borgarnesi. Hafði hún síðan þá unnið að undirbúningi starfseminnar. Þann 31. janúar 1971 rann svo vígsludagurinn upp. Ekki er vafi að eftirvænting hafi ríkt í brjóstum margra og ekki sízt þeirra kvenna sem höfðu lagt líf og sál í þetta verkefni undanfarin fjórtán ár. Og vegleg afmælisgjöf hefur það verið Sambandi borgfirzkra kvenna sem þá stóð á fertugu, að sjá þetta þeirra hjartans mál í höfn. Stofnkostnaður var kominn í 13 m.kr. sem er ekki hærri upphæð en vænta mátti að teknu tilliti til verðbólgu þess tíma. Frá þessari upphæð drógust peningagjafir og framlög óskuldbundinna áður en til til skipta kom samkvæmt samkomulaginu um skiptahlutföll. Samband borgfirzkra kvenna var í skilum með sitt en var jafnframt orðið fjárvana. Heimilið rúmaði 29 íbúa og ekki leið á löngu þar til það var fullskipað. Herbergin voru öll nema eitt tveggja manna. Þórunn Eiríksdóttir lítur yfir farinn veg 15 árum síðar: „Ánægjulegt var að vera boðinn til vígslu Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi, afhenda því gjafir í nafni S.B.K. og hugsa til þess með stolti, hvað sambandið átti stóran þátt í að koma því upp.“ Þessi mynd var tekin stuttu eftir vígslu hússins í janúarlok 1971. framhald á næstu opnu
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.