Skessuhorn - 28.10.2020, Blaðsíða 23
9
Til hamingju með 50 árin!
Tannlæknastofa Hilmis
Berugötu 12, 310 Borgarnesi
á eftir. „Hvernig geta stúlkurnar
setið á hestbaki í þessu,“ sögðu þær
alveg hissa,“ segir Margrét og hlær
að endurminningunni. Þá segir
hún að það hafi verið daglegt brauð
að ræða klæðaburð þeirra kvenna
sem fluttu fréttir í sjónvarpinu.
„Þær voru sko margar mikið að spá
í tískunni og þá var gjarnan rætt
hverju Jóhanna Vigdís og þessar
fréttakonur klæddust. Stundum
fannst þeim þær alveg glæsilegar og
stundum bara alls ekki og svo voru
ekkert allar sammála. Þetta var
sko hægt að ræða,“ segir Margrét.
„Á heimilinu myndaði maður
svo mörg góð vinasambönd bæði
við starfsfólk og íbúa, þetta fólk
átti eiginlega í manni hvert bein.
Stúlkurnar sem unnu þarna voru
alveg dásamlegar, þær lögðu svo
mikinn metnað í starfið og voru
alltaf allar tilbúnar að gefa af sér.
Ég get alveg hiklaust sagt að það
var mitt happ í lífinu að hafa fengið
að vinna þarna,“ segir hún.
Stólasöfnun
Þegar búið var að stækka Brákarhlíð
var heimilið komið með stóran og
flottan sal á jarðhæðinni. Þá þótti
Margréti ómögulegt að sjá að ekki
væru til stólar og borð í salinn. Hún
ákvað því að hrinda af stað söfnun
svo hægt væri að kaupa stóla. „Ég
sat hér heima eitt kvöldið að prjóna
og hugsaði með mér hvort ég
gæti gert eitthvað sjálf til að safna
pening. Það var ómögulegt að vera
með þennan fína sal en ekki neina
stóla í honum,“ segir Margrét og
brosir og bætir við að næst hafi hún
leitað ráða til sona sinna, Sigurþórs
og Halldórs. „Ég byrja á að hringja
í Sissa og spyr hann hvort það
sé ekki eitthvað sem ég get gert.
Hann var ekki lengi að svara því til
að ég þyrfti bara að hafa fjáröflun
og vera með fjölskylduskemmtun.
Hann sagði mér að hafa þetta á
sunnudegi í september, þegar allir
væru komnir úr sumarfríi en ekki
farnir að hugsa um jólin. Þetta
þótti mér alveg gráupplagt,“ segir
Margrét. „Ég lét Bjarka strax
vita og þar með var ég búin að
koma mér í stöðu sem ég gat ekki
bakkað út úr. Ég er stundum svo
fljótfær sko,“ bætir hún við og hlær.
Næst hafði Margrét samband við
sveitarstjórann til að fá Hjálmaklett
undir skemmtunina. „Það var nú
minnsta mál. Það var bara allt í
sambandi við þetta alveg sjálfsagt
mál. Ég hefði nú ekki getað þetta
allt án Báru vinkonu minnar og
samstarfskonu. Hún fór með mér
í öll fyrirtækin í bænum að leita
að styrkjum og það skipti ekki
máli hvert við komum það voru
allir tilbúnir að styrkja. Ég hringdi
í Gísla Einarsson og bað hann
að vera kynnir og það var bara
sjálfsagt,“ segir Margrét. Eldri
borgarar í Borgarfirði komu og
sýndu línudans, Olgeir Helgi og
fjölskyldan hans tóku öll lagið auk
þess sem Eva Margrét, barnabarn
Margrétar, og fleiri góðir listamenn
sungu og skemmtu fólki. „Svo
rauk ég á konur úti í bæ til að
biðja þær að baka pönnukökur.
Starfsstúlkurnar í Brákarhlíð
bökuðu líka og það voru allir svo
jákvæðir. Sissi minn er að vinna
í Geirabakaríi og hann fékk leyfi
hjá Geira að nota aðstöðuna til
að steikja kleinur. Við fórum
tvö saman í það og Geiri gaf allt
efnið,“ segir Margrét augljóslega
mjög ánægð með vel heppnaða og
eftirminnilega skemmtun.
Peysurnar hennar Imbu
Fjáröflunin var virkilega vel
heppnuð og var fjöldi fólks sem
lagði leið sína í Hjálmaklett
þennan dag til að styrkja málefnið.
„Það voru líka margir sem styrktu
þó þeir gætu ekki verið með. Það
var fólk sem kom við og borgaði og
fór svo aftur og ein hjón réttu mér
umslag með 100 þúsund krónum
og önnur hjón vestur af fjörðum
lögðu inn pening fyrir tveimur
stólum. Þetta var í alvöru talað
bara ótrúlegt og svo skemmtilegur
og vel heppnaður dagur, þó ég
segi sjálf frá,“ segir Margrét og
hlær. „Það var líka gaman að
sjá starfsfólk Brákarhlíðar mæta
og hjálpa þó það ætti kannski
frí. Ég var líka búin að hekla
dúllur í hárið á öllu starfsfólkinu
og íbúum Brákarhlíðar svo við
vorum öll voða fín með slaufu
í hárinu,“ bætir hún við. Á
fjáröflunardeginum voru einnig
boðnar upp þrjár skrautlegar
peysur prjónaðar af Imbu frá
Rauðsgili, íbúa í Brákarhlíð.
„Hún Imba var alveg einstök.
Hún prjónaði þrjár peysur með
allskonar fígúrum og svo voru
þær boðnar upp og seldust á 20
þúsund krónur hver peysa,“ segir
Margrét. „Imba var alltaf að prjóna
og var svo snögg. En þessar peysur
prjónaði hún á svo stuttum tíma,
að ég er eiginlega viss um að hún
hafi setið fram á nótt að prjóna,“
bætir hún við.
Sláturnælur sem
slógu í gegn
Á vinnustofunni voru gerðar
sláturnælur sem slógu alveg í
gegn og fóru meðal annars í sölu
í Fjarðarkaupum, Hagkaup og
Kaupfélaginu á Sauðárkróki. „Þar
fengum við pening til að kaupa inn
efni fyrir handvinnuna og hann
Bjarni frá Hurðabaki, Ragnar
Olgeirsson og fleiri sátu bara alveg
við að gera þessar nælur. Svo var
Vignir [húsvörður. innsk. blms.]
farinn að gera nælur í tíma og
ótíma því það var svo mikil sala
að við höfðum varla undan,“ segir
Margrét. Þá rifjar hún upp þegar
íbúar í Brákarhlíð seldu bolluvendi
og öskupoka til Þjóðminjasafnsins.
„Öskupokagerð er eiginlega barn
síns tíma og við ákváðum því að
hringja í Þjóðminjasafnið og segja
frá því sem við vorum að gera. Þau
vildu endilega fá til sín nokkra poka
og nokkra bolluvendi til að sýna á
safninu. Svo var hringt í okkur ári
seinna og beðið um meira, þá voru
þau farin að selja þetta. Við gerðum
þetta í nokkur ár, sem var svo
gaman,“ segir Margrét.
Vaknaði til lífsins í
Brákarhlíð
„En ég var lánsöm að fá að vinna
í Brákarhlíð. Ég var áður að vinna
við afgreiðslu í Kaupfélaginu, sem
var fínt. Svo var mér boðin þessi
vinna og hafði satt að segja enga
trú á að ég gæti unnið við þetta.
En svo reyndist þetta vera algjör
himnasending fyrir mig persónulega
og ég mæli af öllu hjarta með
þessum vinnustað. Mér finnst ég
hafa vaknað til lífsins þegar ég fór að
vinna í Brákarhlíð,“ segir Margrét
Sigurþórsdóttir og brosir. arg
Við kökuborðið á basar í Brákarhlíð fyrir nokkru síðan.
Hluti af varningi sem var til sölu á árlegum basar heimilisins.
Frá basar á heimilinu.