Morgunblaðið - 03.12.2020, Blaðsíða 55
ÍÞRÓTTIR 55
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. DESEMBER 2020
Í blaðinu í gær reyndum við hér
á Morgunblaðinu að gera lands-
leiknum mikilvæga gegn Ung-
verjalandi góð skil og ekki síður
þeirri góðu niðurstöðu sem
fylgdi í kjölfarið.
Sjálfsagt hafa einhverjir les-
endur blaðsins velt því fyrir sér
hvers vegna ekki var leitað við-
bragða Berglindar Bjargar Þor-
valdsdóttur. Hún skoraði markið
mikilvæga en hefur ekki átt fast
sæti í byrjunarliðinu.
Mér þykir því eðlilegast að upp-
lýsa lesendur um að við fengum
ekki að ræða við Berglindi að
leiknum loknum. Við fengum þau
skilaboð frá KSÍ að ekki væri í
boði að ræða við Berglindi né
fyrirliða liðsins, Söru Björk
Gunnarsdóttur. Ástæðan var sú
að þær höfðu þá farið í sjón-
varpsviðtal.
Tengiliður okkar bauð okkur
að ræða við aðra leikmenn, og
var hjálplegur við að bjarga því,
en þarna virðist vera einhver
dreifiregla hjá KSÍ. Leikmenn fari
ekki í fleiri en eitt viðtal eftir
landsleiki. Mun það einnig hafa
verið gert eftir umspilsleikinn
hjá körlunum í Búdapest. Við
gátum verið með viðbrögð frá
Söru á mbl.is og í Morgun-
blaðinu vegna þess að komið var
á blaðamannafundi með henni
þegar fyrir lá að sæti á EM væri í
höfn.
Dreifireglu sem þessa hef ég
ekki rekið mig á áður og botna
lítið í henni. Í starfinu er ég í
samskiptum við fleira íþrótta-
fólk, og fleiri landslið, en knatt-
spyrnufólkið. Hjá bæði HSÍ og
KKÍ mætir manni það viðmót að
starfsmenn reyna að bjarga
flestum ef ekki öllum þeim við-
tölum sem við óskum eftir. Hvort
sem við höfum haft efni á því að
fara utan á viðburðinn eða sitj-
um heima. Senda jafnvel sjálf
viðtöl heim til að auka umfjöllun.
BAKVÖRÐUR
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Knattspyrnukonan Clara Sigurðar-
dóttir hefur skrifað undir samning
við uppeldisfélag sitt ÍBV sem gild-
ir út næsta tímabil. Clara, sem er
miðjumaður og uppalin í Vest-
mannaeyjum, lék með Selfossi á síð-
ustu leiktíð en hefur nú snúið aftur
heim. Þrátt fyrir að Clara sé aðeins
18 ára hefur hún leikið 65 leiki í
efstu deild og skorað í þeim sjö
mörk. Þá hefur Clara leikið 35
landsleiki með yngri landsliðum og
skorað í þeim sjö mörk. Hún lék alla
16 leiki Selfyssinga í Pepsi Max-
deildinni á síðustu leiktíð.
Snýr aftur til
Vestmannaeyja
Skapti Hallgrímsson
Eyjar Clara er komin aftur heim til
ÍBV eftir stutt stopp á Selfossi.
Handknattleikskonurnar Elín Rósa
Magnúsdóttir og Þórey Anna Ás-
geirsdóttir hafa framlengt samning
sinn við Val út tímabilið 2024. Þór-
ey gekk til liðs við Val frá Stjörn-
unni fyrir þetta tímabil en hún hef-
ur verið einn besti leikmaður
úrvalsdeildarinnar, Olísdeildar-
innar, undanfarin ár. Elín er fædd
árið 2002 og var hún í lykilhlut-
verki með 3. flokki Vals á síðustu
leiktíð. „Frábærar fréttir fyrir fé-
lagið og verður gaman að fylgjast
með þeim þegar boltinn fer aftur af
stað!“ segir í tilkynningu Vals.
Morgunblaðið/Eggert
Hlíðarendi Þórey Anna verður í
herbúðum Vals næstu fjögur árin.
Framlengdu
á Hlíðarenda
FÓTBOLTI
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Knattspyrnumaðurinn Aron Jó-
hannsson hefur átt góðu gengi að
fagna með sænska liðinu Hammarby
undanfarnar vikur og skorað tólf
mörk í síðustu fimmtán leikjum í
sænsku úrvalsdeildinni. Er hann bú-
inn að skora alls tólf mörk í 22 leikj-
um á tímabilinu en hann hefur fimm-
tán sinnum verið í byrjunarliði á
leiktíðinni.
„Síðustu mánuðir hafa verið mjög
góðir,“ sagði Aron við Morgun-
blaðið. „Ég byrjaði árið þokkalega
þegar við fórum að keppa í bik-
arnum, þá skoraði ég þrjú mörk í
þremur leikjum eftir gott undirbún-
ingstímabil og var klár í tímabilið en
svo fæ ég Covid 2-3 vikum fyrir
fyrsta leik hjá okkur. Ég var farinn
að vonast til að geta byrjað tímabilið
almennilega og byrja þetta strax, en
svo fékk ég Covid og það rann úr
mér öll orka,“ sagði Aron sem var
kominn á völlinn fljótlega eftir að
hann jafnaði sig á veikindunum og
var í byrjunarliðnu gegn Elfsborg í
2. umferð. Framherjinn fór af velli í
hálfleik.
Of hratt af stað eftir Covid
„Þegar tímabilið byrjaði var ég
settur í byrjunarliðið strax í öðrum
leiknum sem ég var greinilega ekki
tilbúinn í út af Covid. Í kjölfarið lenti
ég í meiðslum á fæti eftir að ég var
tæklaður, ég fékk takka í ristina.
Það hélt mér frá í 2-3 vikur og á 2-3
vikum spilaði liðið 6-7 leiki því það
var spilað mjög þétt í byrjun. Það
var svo erfitt að koma sér aftur í
gang því þetta voru meiðsli á fæti og
ég meiddist aftur fljótlega eftir að ég
var kominn af stað aftur. Þá missti
ég aftur af nokkrum leikjum svo það
má segja að ég byrjaði ekki tímabilið
almennilega fyrr en í tólfta leik, eitt-
hvað svoleiðis. Þá var ég að komast í
gang og var að komast í gott leik-
form og um leið og ég fór að spila 90
mínútur leik eftir leik þá small þetta
allt saman,“ sagði hann.
Aron viðurkennir að það hafi verið
erfitt að meiðast en hann spilaði afar
lítið frá 2015 til 2018 vegna þrálátra
meiðsla. „Ég hafði ekki beint
áhyggjur af að tímabilið myndi fara í
vaskinn en ég viðurkenni að það
komu upp hugsanir; á maður að
nenna að standa í þessu? Að meiðast
alltaf aftur og aftur? Innst inni í
hausnum á mér vissi ég samt að ég
þurfti bara tvo, þrjá eða fjóra leiki,
90 mínútur, til að komast í alvöru-
leikform og þá myndi allt smella og
sú varð raunin. Ég hef aldrei efast
um getuna hjá mér. Ég hef bara ver-
ið óheppinn með meiðslin síðustu ár
en alltaf þegar ég er heill hef ég
staðið mig vel.“
Sem betur fer gekk þetta upp
Eftir gríðarlega erfiða tíma er Ar-
on hæstánægður með að vera kom-
inn á fulla ferð á ný, spila leiki og
skora mörk. Á tímabili íhugaði hann
að leggja skóna á hilluna vegna
meiðslanna. „Það er erfitt að koma
þessu í orð en best af öllu fannst mér
bara að geta spilað. Ég er að spila 90
mínútur nánast í hverjum leik. Viku
eftir viku og leik eftir leik er ég alltaf
klár. Sú tilfinning er æðisleg. Ég
hugsaði áður en ég kom til Svíþjóðar
hvort ég myndi einhvern tímann ná
þessu aftur og fór að efast um að
þetta væri möguleiki. Ég hugsaði
um að hætta og einbeita mér að ein-
hverju öðru eftir gríðarlega erfið ár,
en sem betur fer gekk þetta upp sem
er frábært og eiginlega bara ólýsan-
legt.“
Þrátt fyrir gott gengi Arons fyrir
framan mark andstæðinganna hefur
tímabilið hjá Hammarby ekki gengið
sem skyldi. Liðið er í sjöunda sæti,
16 stigum á eftir Malmö sem hefur
þegar tryggt sér sænska meistara-
titilinn. „Það hafa verið mikil von-
brigði. Við lögðum upp fyrir tímabil-
ið að berjast á toppnum. Við áttum
von á að Malmö myndi vera þarna og
kannski Djurgården og síðan við
sem myndum berjast um efstu sæt-
in. Núna erum við í sjöunda sæti og
ekki lengur möguleiki að komast í
Evrópusæti. Það er í rauninni lítið
hægt að bæta við það, þetta eru búin
að vera vonbrigði.“
Ætlar í sterkari deild
Aron mun róa á önnur mið eftir
tímabilið og semja við annað félag í
janúar. Ekki er komið í ljós hvert
framherjinn fer, en hann hefur verið
orðaður við félög bæði í Þýskalandi
og í Bandaríkjunum. Hann lék áður
með Werder Bremen í þýsku 1.
deildinni og þekkir það því vel að
spila í sterkari deild en þeirri
sænsku. „Ég veit ekki hvert ég mun
fara en staðan er orðin þannig að ég
mun fara í janúar og róa á ný mið.
Ég fer inn í gluggann og bíð eftir
einhverju spennandi,“ sagði Aron.
Hann viðurkennir að draumurinn
hafi verið að stoppa stutt við í Sví-
þjóð og fara síðan í stærri deild.
„Það var kannski ekki planið en það
var draumurinn; að taka eitt skref til
baka til að taka tvö áfram. Ég var í
þriðju sterkustu deild í heimi og ég
veit að ég get spilað í sterkustu
deildunum. Ég hef sannað það og ég
hef líka sannað að ég get komið mér
í leikform aftur og ég er búinn að
spila fullt af leikjum, skora mörk og
standa mig vel. Þetta eru spennandi
tímar og ég hlakka til að sjá hvað
gerist núna.“
Í myndinni hjá Bandaríkjunum
Aron kaus á sínum tíma að leika
með bandaríska landsliðinu frekar
en því íslenska. Hann er fæddur í
Alabama í Bandaríkjunum en fékk
sitt knattspyrnuuppeldi fyrst og
fremst með Fjölni og lék með liðinu
áður en hann hélt út til Árósa og
samdi við AGF. Eftir gott gengi,
fyrst með AGF og síðan AZ Alk-
maar í Hollandi, var hann kallaður
upp í bandaríska landsliðið og lék
með því á HM í Brasilíu 2014. Alls
hefur hann leikið 19 landsleiki fyrir
Bandaríkin og skorað í þeim fjögur
mörk. Síðasti landsleikurinn var árið
2015, en Aron er kominn aftur í
myndina hjá bandaríska liðinu og
landsliðsþjálfaranum Gregg Ber-
halter.
„Ég talaði við þjálfarann fyrir um
það bil mánuði. Við áttum gott spjall
um framtíðina og hvað er að gerast.
Hann var ánægður með að ég væri
kominn í gott leikform aftur. Hann
veit hvað ég get og hann var spennt-
ur fyrir mér. Hann talaði vel til mín
og gaf það í skyn að ég fengi að sýna
aftur hvað í mér býr með landslið-
inu. Það var ánægjulegt fyrir mig að
heyra að hann hefði áhuga á að hafa
mig í hópnum,“ sagði Aron.
Íhugaði að hætta eftir
gríðarlega erfið ár
Ljósmynd/Hammarby
Mörk Framherjinn Aron Jóhannsson er byrjaður að skora á nýjan leik eftir að þrálát meiðsli ógnuðu ferli hans.
Aron hefur spilað vel í Svíþjóð Fékk kórónuveiruna Ætlar að færa sig í janúar
Jóhann Berg
Guðmundsson,
landsliðsmaður í
knattspyrnu, við-
urkennir í viðtali
sem birtist á
heimasíðu Burn-
ley að síðustu
mánuðir hafi ver-
ið erfiðir. Jóhann
hefur verið mikið
frá vegna meiðsla
síðasta eina og hálfa árið.
„Þetta hefur verið afskaplega erf-
itt. Ekki síst þegar þú ert að glíma
við þessi litlu atriði sem halda aftur
af þér. Það er erfitt að meiðast aftur
þegar þú ert nýbúinn að jafna þig.
Það hefur verið sagan hjá mér, en ég
verð að sætta mig við það, leggja
mikið á mig í ræktinni og á vellinum
og vera í eins góðu standi og ég get,“
sagði Jóhann.
Burnley hefur farið afar illa af
stað í ensku úrvalsdeildinni á leiktíð-
inni og er í nítjánda og næstneðsta
sæti með fimm stig og einn sigur.
„Byrjunin hefur ekki verið góð og
við vitum það, en við vitum líka hvað
þarf til að halda okkur uppi,“ sagði
Jóhann Berg.
Kantmaðurinn hefur leikið 100 úr-
valsdeildarleiki með Burnley en á
þessari leiktíð og þeirri síðustu hef-
ur hann aðeins náð 16 leikjum enn
sem komið er. sport@mbl.is
Jóhann Berg
í mótvindi
í Burnley
Jóhann Berg
Guðmundsson