Börn og menning - 01.09.2006, Qupperneq 24

Börn og menning - 01.09.2006, Qupperneq 24
Börn og menning 22 Brynja Baldursdóttir Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar eftir Margréti Tryggvadóttur og Halldór Baldursson. Þessi bók er allt öðruvísi en þær bækur sem undirrituð hefur skoðað og ætlaðar eru litlum börnum. Fyrst er það æði skrautleg kápumynd þar sem háorgandi smábam og örvæntingarfullir foreldrar prýða myndina. Lesandinn horfir ofan í vögguna og þess vegna er eins og barnið sé á haus. Strax finnur lesandi efann og vantrúna vaxa í hjarta sér og spyr sjálfan sig hvar hún sé þessi fagra prinsessa sem titillinn gefur til kynna. En auðvitað eru allir foreldrar stoltir af barninu sínu og finnst sinn fugl fegurstur af öllum. Saurblöð eru gul að lit en á titilsíðu má sjá mynd af prinsessu með mann um öxl. Ja, hérna, hvað á maður í vændum? Sagan um prinsessuna og hugrakka prinsinn er sögð á sextán opnum. Stuttur hnitmiðaður texti Margrétar og gamansamar og stundum groddalegar myndir Halldórs koma sögunni örugglega til skila. Prinsessan kemur til foreldra sinna með storkinum og miðað við svipinn á fuglinum er þetta gríðarlega erfið ferð og mikil byrði og hann er sko guðslifandi feginn að losna við hana. Sagan er fyndin, a.m.k. skelltu nemendur undirritaðrar upp úr þegar sagan var lesin fyrir þá um leið og myndirnar voru sýndar. Hvað í sögunni fannst þeim fyndið? Það er sú staðreynd að textinn segir eitt og myndirnar allt annað. Vissulega eru texti og myndir samstíga en textinn segir einhvern veginn allt annað en myndirnar sýna. Prinsessan er sögð undurfögur, stillt og prúð, kurteis og elskuð af öllum en myndin með þessum texta sýnir heljarinnar skass sem hefur bitið handlegg af einum starfsmanni hirðarinnar. Nemendurnir hlógu mikið þegar þeir sáu myndina af drekanum sem gætir turnsins. Hann er óttalega ræfilslegur og með englavængi að þeirra mati. Og þeir skemmtu sér konunglega yfir orðaleiknum á sjöundu opnu. Þar stendur: „En þegar á hólminn var komið lagði enginn í það [að bjarga prinsessunni] því drekinn ógurlegi var ekkert lamb að leika sér við." Á myndinni sem fylgir textanum er lamb og drekinn að spila á spil í mestu makindum! Prinsessunni er svo „bjargað" en ekki skal fara nánar út það til að eyðileggja ekki spennuna fyrir lesendum! Eins og fram hefur komið eru myndir Halldórs bráðskemmtilegar og gætt er að öllum smáatriðum. Til dæmis má geta þess að aumingja maðurinn sem missir handlegg í kjaft prinsessunnar fær hann bróderaðan á sig aftur og kemur það í Ijós á myndum síðar í bókinni og er hann þá með saumför á erminni. Sem sagt, engu gleymt! Hér er á ferðinni afar áhugaverð og forvitnileg bók og verður gaman að sjá hvernig viðbrögðin verða þegar hún er komin í hendur hins fullorðna og barnið bíður spennt í kjöltunni. Höfundur er framhaldsskólakennari og í ritnefnd Barna og menningar

x

Börn og menning

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.