Rit Landbúnaðardeildar : A-flokkur - 01.05.1967, Blaðsíða 7
FORMÁLI
Preface
Þessi skýrsla er með líku fyrirkomulagi og fyrri skýrslur tilrauna-
stöðvanna að öðru leyti en því, að hér er um að ræða fjögurra ára skýrslu,
1961—1964.
Að undanförnu hefur ríkt nokkur óvissa um útgáfu á tilraunaniður-
stöðum vegna vaxandi efnis, aukins kostnaðar við útgáfu og síðast og ekki
sízt af því, að undanfarin ár hefur verið í undirbúningi breyting á lögum
urn rannsóknir og tiiraunir og voru ný lög samþykkt 10. maí 1965 um
Rannsóknarstofnun atvinnuveganna. Allar landbúnaðartilraunir heyra nú
undir Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, sem skipuð er þriggja manna
stjórn ásamt forstjóra. Stjórnina skipa: jónas Pétursson, alþingismaður,
formaður, Pálmi Einarsson, landnámsstjóri og dr. Halldór Pálsson, bún-
aðarmálastjóri. Pétur Gunnarsson tilraunastjóri er forstjóri.
Með tilkomu þessara nýju laga eru tilraunaráðin, bæði í jarðrækt og
búfjárrækt, lögð niður. Við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins er 13
manna tilraunaráð, sem er ráðgefandi um val tilraunaverkefna og fram-
kvæmdaplön.
Á fundi tilraunaráðs jarðræktar 4. marz 1964 var samþykkt að gefa
út tilraunaskýrslur fyrir árin 1961—-1964 í einni skýrslu. Var stjórn
Rannsóknarstofnunarinnar kynnt þessi samþykkt á stjórnarfundi Rann-
sóknarstofnunarinnar í febrúar 1966.
Sömu reglum er fylgt í þessari skýrslu eins og í fyrri skýrslum varð-
andi útreikninga á töflum. Ekki er lagt stærðfræðilegt mat á niðurstöður
tilrauna, nema sjaldan.
Matthías Eggertsson, tilraunastjóri á Skriðuklaustri, hefur aðstoðað
mig við útreikning á töflum.
Allar efnagreiningar tilraunastöðvanna eru gerðar á Atvinnudeild há-
skólans undir umsjá dr. Bjarna Helgasonar. Hvanneyringar gerðu hins
vegar allar efnagreiningar á uppskeru sjálfir eins og að undanförnu.
I fyrri skýrslum tilraunastöðvanna eru ekki gefnar tæmandi skýringar
á hinum einstöku tilraunum, en hins vegar lögð áherzla á, að þær upplýs-
ingar og athugasemdir, sem fylgja hverri einstakri tilraun, megi verða til
þess, að auðveldara sé að gera sér grein fyrir árangri af niðurstöðum.