Rit Landbúnaðardeildar : A-flokkur - 01.05.1967, Blaðsíða 23
Júlí varð óvenju úrkomusamur og hiti talsvert undir meðallagi. Sláttur
hófst almennt fyrstu daga mánaðarins, en tafðist nokkuð vegna þrálátra
rigninga. Hey hröktust víða talsvert og varð útlitið slæmt um tíma, en
tíðarfarið í ágúst bætti það upp, því að sólfar var flesta daga, ásamt þurr-
viðri og góðum þurrki, en kólnandi veðráttu. Eftir 15. gerði hvað eftir
annað næturfrost, er skaddaði kartöflugrös og gjörfelldi þau sums staðar.
I ágúst komu alls um 8 kuldanætur, en þrátt fyrir kuldann, sem gerði illt
korni og kartöflum, meðal annars tók fyrir áframhaldandi mjölsöfnun,
varð nýting heyja með ágæturn og heyskaparlok góð.
Vetrarbygg náði fullum þroska 10.—15. ágúst, en annað korn náði
aldrei fullum mjölva eða þeim þroska, er verður í meðalsumri. Grasfræ
þroskaðist 20.—25. ágúst og varð þá skorið. Er þetta með fyrra fallinu og
gætir hér vorveðráttunnar.
Septembermánuð má telja hagstæðan á marga lund. Hitinn var að vísu
1° C fyrir neðan meðallag, en þó var það ekki verst, heldur tíðar frost-
nætur, er tálmuðu fullþroskun á byggi og höfrum. Alls urðu 10 kulda-
nætur fram að 23. sept., en þó varð allt korn uppskorið á þeim tíma og til
mánaðamóta. Kartöflur náðust upp í mánuðinum, en uppskera varð víða
mjög lítil, og kartöfluuppskeran sú minnsta, sem orðið hefur í áratugi.
Að öðru leyti var tíðin hagstæð fyrir öll útiverk, Smölun sauðfjár, upp-
skerustörf og jarðvinnslu.
Haustið, október—nóvember. í októberbyrjun dró til meiri rokviðra
en í fyrri mánuði, en þó var fremur milt tíðarfar fram að 14 nóvember,
en þá gerði frostveður og snjókomu, er með litlum úrtökum hélzt des-
embermánuð allan og til áramóta. Desember varð óvenju kaldur og á
köflum illveðrasamur með snjókomu, er tók fyrir alla útbeit og torveldaði
gott færi á vegum.
Árið 1964 má telja á ýmsa Iund sérstætt, hvað veðráttuna snertir, og
skýlir það göllum sínum undir háum ársmiðalhita. Veldur hér mestu, hvað
veturinn frá nýári varð óvenjuhlýr og góður, vorið milt og gott. Sumarið
var gott og milt í byrjun, en óhagstætt á köflum. Gætir þar einkum, að
sumarið varð mun kaldara en meðallag sýnir um þrjátíu ára skeið. Árið
endar með snjó yfir alla jörð, en nær frostlaust og hægviðri síðasta dag
ársins. Árið má teljast fremur hagstætt fyrir Suðurland, hvað snertir fén-
aðarhöld og heyöflun, en fremur slæmt hvað snertir kartöflurækt og korn.
Klemenz Kr. Kristjánsson.
21