Strandapósturinn - 01.06.1968, Side 102
HELGA BJARNADÓTTIR FRÁ DRANGSNESI:
SANDNESHJONIN:
Soffía og Einar
Þegar ég nú á fullorðinsárum lít yfir farinn veg og hugsa um
liðna tíma, kemur að sjálfsögðu margt fram í hugann, sem
gaman væri að tala um. Nokkuð af þeim minningum er þó þann-
ig, að ekki er ástæða til eða heppilegt að draga þær fram í dags-
ljósið og setja á prent. Hitt er svo margt, sem vel má tala
um, jafnvel gleður hugann og verður um stund ljósgeisli, þegar
aldurinn er orðinn hár og lítið að hafa fyrir stafni, — aðeins eftir
að skila aðgöngumiðanum, sem okkur er afhentur við fæðingu.
Þessi frásögn, sem hér fer á eftir, er send frá mér af miklum
vanefnum. Ég hefi fengizt við annað um dagana en skriftir — og
þau atriði, sem hér er komið á framfæri, þyrftu að vera fleiri
og betur framsett en hér er, og bið ég afsökunar á því.
Ein af mínum allra beztu vinkonum, sem ég hef átt um
dagana, var Soffía Torfadóttir á Sandnesi við Steingrímsfjörð.
Hún var fædd árið 1842 á Kleifum á Selströnd og uppahn
þar hjá foreldrum sínum, þeim Torfa Einarssyni, alþingismanni,
og konu hans, Önnu Einarsdóttur frá Fagranesi í Reykjadal.
Soffía giftist Einari Einarssyni á Sandnesi við Steingrímsfjörð
og hófu þau búskap á Bólstað í Selárdal og bjuggu á Bólstað miklu
rausnarbúi og oft margt manna þar í heimili.
Ég var mjög ung, þegar ég heyrði föður minn tala um Soffíu,
en þá var hún og maður hennar flutt að Sandnesi. Og má svo
telja, að ég minnist hennar sjálf eingöngu sem Soffíu á Sandnesi,
og það munu fleiri gera.
100