Strandapósturinn - 01.06.1968, Page 117
fótmál.
— Þegar ég rek þessa þræði úr liðinni ævi, finnst mér að flest
sem ég man frá þeim 34 árum, sem ég mátti fullhraust fara,
hafi verið gott og skuggalaust. Þrátt fyrir fábreytta lífshætti og
hörð ár var veröldin björt og lífið glatt og fuUt af fyrirheitum.
Og jafnvel eftir að mér hafði fallið fjötur um fót, var oft
bjart í bænum. Maðurinn minn og barnið mitt urðu styrkur
minn og meinabót, svo langt sem í því efni eru tök á að kom-
ast. Augu mín voru heil og andleg heilsa ólömuð. Meðan við
áttum heima á Melum var ennþá byggð í flestum Breiða-
fjarðareyjum. A kyrrum vetrarkvöldum var gaman að sjá Ijósin
loga þar úti, og um áramót og að liðnum jólum brunnu vitar
á hverju byggðu bóli, sem stöfuðu ljóma í dökkan vetrarhimin
og djúp fjarðarins. Þessir ljósstafir urðu huglægur tengihður milli
þessara dreifðu byggða, sem harðir straumar og blindskerjaleiðir
gerðu önnur nánari sambönd torfær.
Þannig rekur hún þráðinn, aldraða konan, sem nú situr and-
spænis mér, mædd af langri vanheilsu, en þó hugró.
Norðan heiða, þar sem úrsvalir vindar blása af hafi og báran
svellur um útnes, hfði hún æsku sína alla.
A þessu vori hefur hafíshrönn sorfið flúðir og fjörur Ennis-
reka. Kalsárar grundir bera minjar veðrabrigða vetrarins —- En
er nokkur ástæða til að kvíða komandi tíma í návist þeirra,
sem eiga ókalinn anda, þrátt fyrir marga erfiða ísavetur og þung
þrautaspor langrar ævi.
Gifta þeirrar byggðar, sem Valgerði ól, veltur ef til vill mest
á því, að þeir sem í dag vaxa þar ungir að árum og leggja htlar
hendur á hafrekin sprek í grýttri fjöru, geti grætt kuldasár
móður jarðar án þess að kalskemmdin særi þá sjálfa.
(Júlíkvöld á Akranesi 1968. — Þ. M.)
115