Strandapósturinn - 01.06.1969, Qupperneq 31
og sat og stóð eins og hann vildi. Síra Jón var ekki gæddur
djörfung, kjarki og mannúð Jóns lærða, enda fundust þá fáir
slíkir. Ef síra Jón hefði tekið aðra afstöðu en hann gerði hefði
það kostað hann a.m.k. embætti og æru. Aðeins örfáir afburða-
menn að siðferðilegri dómgreind og þreki fórna slíku vegna fylgis
við réttan málstað. Víst er, að síra Jón hefur fengið meira en
nóg af stórmælum þeim, sem hann var við riðinn, og viljað losna
sem fyrst úr þessu háskasamlega ræningjabæli. Fór hann sama
ár að Prestsbakka í Hrútafirði og fara ekki síðan af honum neinar
sögur. En Víkursveitungar gátu ekki flýð vandann, um langt
skeið urðu þeir enn að verjast ágangi erlendra fiskveiðimanna og
valt á ýmsu um vinfengið, þótt þeir ættu oft við þá góð kaup.
Loks leituðu til Víkursveitar margir sakamenn, leyndu Stranda-
menn sumum og komu í þjóðir, aðra létu þeir afskiptalausa,
nokkrir sakamenn gerðust svo djarfir, að þeir settust að á auðum
býlum. Stundum áttust þeir illt við, eins og vænta mátti.
Næsti prestur í Árnesi eftir Jón Grímsson var Þorvarður
Magnússon, ættaður úr Biskupstungum. Var hann þar prestur
í hálfa öld eða frá 1615—1666. Hann var dugnaðarmaður og
„hraustmenni á gamla vísu“. Sat hann ekki heldur á friðarstóli
fremur en fyrirrennari hans, þótt hann hlypi ekki frá söfnuði
sínum. Á hans dögum risu upp galdramál mikil í Víkursveit.
Hófust þessi firn að marki 1651 með móðursýkisfaraldri eða
fjöldasefjun, mest meðal kvenna. Féllu einkum konur unnvörp-
um í öngvit í kirkjunni, svo að síra Þorvarður þóttist naumlega
geta flutt messu „fyrir þeirra hljóðum, mási, froðufalli og ofboði,
svo að oft voru úr kirkjunni út bornir fjórir, fimm, tíu eða tólf og
fleiri á einum helgum degi, hvað skelfilegt var, en miklu skelfi-
legra á slíkt að horfa og nálægur vera“. Var þessi faraldur og
geðveiki konu einnar, svo og óhöpp á fénaði eignað göldrum nokk-
urra manna þar í hreppnum. 1654 voru þrír menn, þeir Þórður
Guðbrandsson á Munaðarnesi, Grímur Jónsson í Reykjarfirði,
og Egill Bjamason brenndir lifandi í Trékyllisvík 20. og 25.
september. Virðist Þorleifur sýslumaður Kortsson, sem var óður
galdratrúarmaður, frekar hafa átt frumkvæði að ofsóknum á
hendur þessum mönnum, en síra Þorvarður. Hið eina, sem varpar
29