Strandapósturinn - 01.06.1976, Síða 38
til þess að vera málshefjendur á næsta fundi, þeir fluttu allir mál
sín og urðu töluverðar umræður um þau. Að fundi loknum voru
sungin nokkur ættjarðarljóð, og varð það síðan að föstum lið hjá
ungmennafélaginu, er lengi var við lýði, að sungin voru nokkur
lög í fundarbyrjun og fundarlok. Þriðji fundur félagsins á þessu
fyrsta ári, er svo haldinn í Miðhúsum 31. október. Á þeim fundi
bættust 8 nýir félagsmenn og var þá félagatalan komin upp í 32.
Málshefjendur voru þrír og urðu miklar umræður út af erindum
þeirra, en að þeim loknum, vakti Guðlaugur Jónsson formaður
athygli á því, að í lögum félagsins stæði, að það væri eitt af
hlutverkum félagsins að halda úti skrifuðu blaði. Taldi hann því
tímabært að kjósa þriggja manna ritnefnd, og væri æskilegt, að
blaðið, er hlaut nafnið ,,Hvöt“, hæfi göngu sína um næstu ára-
mót. I ritnefnd voru kosnir:
Sæmundur Guðjónsson,
Guðlaugur Jónsson,
Skúli Guðjónsson.
Þann 23. janúar 1926, var fyrsti aðalfundur Ungmennafé-
lagsins Hörpu haldinn að Borgum. Hann var mjög vel sóttur og
bættust fjórir nýir félagar í Hörpu, og var félagatalan þá orðin 36
á tæpu ári. Á þessum fundi ræddi formaður um framtíð félagsins
og kom víða við, m.a. minntist hann á það, hve brýn nauðsyn
það væri fyrir félagið að eignast þak yfir höfuðið. Hann taldi
útilokað fyrir félagið að starfa með eðlilegum hætti, nema í eigin
húsnæði og hvatti félagsmenn til samtaka um þetta lífshags-
munamál félagsins. Miklar umræður urðu um þetta mál, en
mjög voru þær jákvæðar. Drepið var á fleiri en einn stað í
sambandi við staðsetningu hússins, en engar deilur urðu um
staðarvalið. Að umræðum loknum bar formaður upp svohljóð-
andi tillögu: „Fundurinn samþykkir að kjósa þriggja manna
nefnd til þess að athuga alla möguleika til samkomuhússbygg-
ingar og leggi hún álit sitt fyrir næsta fund. Nefnd þessi starfi
síðan sem húsbyggingarnefnd, ef bygging verður samþykkt.“
Tillagan var samþykkt með öllum samhljóða atkvæðum. Eftir-
taldir menn hlutu kosningu:
36