Strandapósturinn - 01.06.1976, Side 64
tog og komst með hann alla leið inn á Bolungarvík, en þá var
kominn svo mikill leki að Máfnum, að hann var kominn að því
að sökkva, en Bárði tókst að bjarga áhöfninni þó veðrið væri
afskaplega vont, og þegar síðasti maðurinn náðist um borð í
Dúfuna, sökk Máfurinn.
Við, sem horfðum á úr landi, sáum ekki hvort allir björguðust,
en Dúfan hleypti, eins og hinir bátarnir, inn á ísafjörð.
Brimið var svo mikið í Bolungarvík, að með öllu var ólendandi
þar. Mikill ótti var hjá öllum í Bolungarvík, að slys hefði orðið.
Þá var ekki kominn sími eða vegir, sem flýtt gátu fvrir að fréttir
bærust.
Eins og að líkum lætur, voru allir hraktir og þreyttir, er þeir
náðu landi á Isafirði, og enginn tók í mál að fara fótgangandi í
foraðsveðri alla leið út í Bolungarvík með fréttir af bátunum. Þá
var það, að Ari Magnússon, pabbi minn, lagði af stað úteftir.
Ekki hefur Oshlíð verið árennileg í svona veðri, þar sem búast
mátti við ofanfalli og skriðugangi, í roki og rigningu, en hann lét
það ekki hefta ferð sína.
Hann kom út í Bolungarvík klukkan 3 um nóttina, en Máf-
urinn sökk um miðjan dag. Allir glöddust við að fá fréttirnar og
rómuðu mjög dugnað og viljafestu Ara.
Síðast var Ari formaður árið 1929 á litlum bát, sem hann átti
Þá átti hann heima á Drangsnesi við Steingrimsfjörð. Háseti hjá
honum var þá Einar Guðmundsson, og var hann búinn að vera
háseti hjá Ara áður.
Sjöunda ágúst þ. á. réri Ari og lagði línuna innan við Grímsey.
Þá renndi á með aftaka suðvestan rok, er þeir voru að draga
línuna, og fengu þeir við ekkert ráðið í slíkum veðurofsa. Þá vildi
svo til, að Hjalti Steingrímsson frá Hólmavík var á leið á bát
sínum ,,Geir“, sem var dekkbátur, út í Grímsey að athuga vitann
á eynni. Þá kom Hjalti auga á lítinn bát, sem hraktist undan
veðrinu og var rétt kominn að því að sökkva. Hjalti brá fljótt við
og tókst að bjarga mönnunum, (sem voru Ari og Einar), á síðustu
stundu, því bátnum hvolfdi og rak á hvolfi út á Húnaflóa.
(Bátinn rak all-löngu seinna á Nesströnd i norðan garði og stór-
brimi og fór þar í spón).
62