Bjarmi

Volume

Bjarmi - 01.04.2021, Page 20

Bjarmi - 01.04.2021, Page 20
| bjarmi | apríl 202120 bankaritara, sem hafði skoðanir mjög andsnúnar nýguðfræðinni. Þá verður ekki komist hjá því að nefna þremenningana sem gjarnan eru tengdir kassanum á Lækjartorgi, sem var þeirra opinbera ræðupúlt á árunum 1930 - 1970, þá Sigurð Sigvaldason, Sigurð Jónsson frá Bjarnastöðum og Sigurð Sveinbjörnsson. Frá þeim kom mikill fjöldi smárita og einnig margar útgáfur sömu rita, sem sýnir hversu virkir þeir voru í dreifingu þeirra. Um þá og aðra sem komu við sögu kassans ritaði Sigríður Hrönn Sigurðardóttir frábærar greinar í Bjarma fyrir nokkrum árum, greinar sem báru svo sannarlega nafn með rentu: „Þeir hrópuðu til þjóðar sinnar“, en Sigurður Jónsson var faðir hennar og þeirra mikilvirkastur í útgáfu. Á síðari árum var Friðrik Schram virkastur þeirra einstaklinga sem notað hafa smáritin til að koma fram fagnaðarerindinu, fyrst í nafni UFMH og síðar Íslensku Kristskirkjunnar. ER EITTHVAÐ UM AÐ MENN VÆRU MEÐ EINU SMÁRITI AÐ SVARA EFNI FRÁ ÖÐRUM ÚTGEFANDA EÐA BREGÐAST VIÐ ÚTGÁFUM? Það er sjaldgæft en hins vegar eru mörg dæmi þess að blaðaskrif hafi hlotist af útgáfu smárits og einnig dæmi þess að smárit hafi orðið til vegna atburðar t.d. vegna skoðunar Hallesby á trúarlífi Íslendinga. „Boðskapur Hallesbys um afkristnun Íslands.“ (1937) Blaðaskrifin voru margs konar og snúast að sjálfsögðu um mismunandi trúarlegan skilning. Ólafur Ólafsson kristniboði, sem hafði mikið álit á gildi smárita, birtir í því smáritasafni sem hann stóð m.a. fyrir og kom út 1946 undir nafninu Frækorn, óprentað handrit sr. Jóns lærða, þar sem hann svarar þeim sem andmælt hafa smáritunum sem hann var að gefa út. Nafn þessa handrits gefur vísbendingu um hversu hatrömm viðbrögðin virðast hafa verið, en það ber yfirskriftina „ Einvígi milli sannleika og lygi“ og hefst með tilvitnun í Síraksbók: „Forsvaraðu sannleikann allt til dauða þíns og mun Drottinn stríða fyrir þig.“ Oddur V. Gíslason, þá cand. theol., sem stóð að stofnun smáritafélags sem gaf út „Kristileg smárit handa íslendingum“ á árunum 1865-9 og smáritið Hjálpræðisorð“ 1893 fór ekki varhluta af andmælum vegna ákveðinnar framsetningar fagnaðarerindisins. Þá má einnig nefna að 1909 var þessu tímariti, Bjarma, úthlutað 70 krónum úr smáritasjóði Jóns lærða. Af skrifum Sigurbjörns Ástvalds Gíslasonar í Bjarma árið 1914 má ráða að biskupinn, sem þá var Þórhallur Bjarnarson, hafi með tilstuðlan nokkurra annarra komið í veg fyrir að Bjarmi fengi slíkt framlag árlega á þeim forsendum að trúmálastefna blaðsins samræmdist ekki stefnu sr. Jóns lærða. Hins vegar tókst Sigurbirni Ástvaldi að grípa inn í málið og fá styrkinn til útgáfu smárita. Mér hefur ekki tekist að komast að því hvort Bjarma tókst að gefa út smárit 1909. Fyrsta smáritið sem mér er kunnugt um og ég á er sérprentun úr Bjarma 1914 á ræðu sr. Sigurðar Stefánssonar í Vigur : „Prestarnir, nýja guðfræðin og þjóðkirkjan.“ Þá koma einnig upp í hugann viðbrögð við smáriti sr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups, árið 1962: „Vottar Jehóva — aðvörun.“ Þá var þessu slegið upp með stórri fyrirsögn á forsíðu Alþýðublaðsins og sagt að blaðið hefði hlerað að til stæði að dreifa þessu riti í „hvert hús í Reykjavík.“ Síðan voru ýmsir mektarmenn spurðir álits á þessari hegðun og hvort biskupinn „hefði gert rétt í því að gefa út slíkan bækling?“ Í þessum og fleiri viðbrögðum má greinilega sjá hvernig er tekist á um boðskap Ritningarinnar. Rit sr. Sigurbjörns er ekki eina ritið þar sem varað er við einhverju. Það má nefna mormónatrúna, spíritismann, nýguðfræðina og yoga svo eitthvað sé upp talið. TELUR ÞÚ AÐ SMÁRITIN HAFI HAFT ÁHRIF Á KRISTIÐ LÍF OG LÍFERNI? Tvímælalaust. Ég er sömu skoðunar og Ólafur Ólafsson kristniboði sem orðaði það þannig varðandi starfið í Kína: „Ræðunni gleyma þeir, en smáritin taka þeir með sér heim og lesa þau þar, ef til vill ásamt mörgum öðrum.“ Smáritið er þarna og sé það lesið er það sæði sem sáð er i hjarta lesandans og hefur svo sannarlega oft sannað gildi sitt sem eitt af verkfærunum í Guðs ríki. HVAÐ TELUR ÞÚ AÐ HAFI VERIÐ GEFIN ÚT MÖRG SMÁRIT? Þessu er eiginlega ekki hægt að svara, m.a. vegna þess að það er svo erfitt að skilgreina og ákveða hvað telja má með. Þetta er alveg eins og í upphafi. Félag Jóns lærða hét „smáritafélag“ í reglunum en „smábókafélag“ á ritunum sjálfum. Þetta sama er minn vandi og ég hef tekið þá stefnu að túlka hugtakið frekar vítt í samræmi við síðara hugtakið. Miðað við slíka skilgreiningu vantar mikið upp á að minn listi sé tæmandi. HVERSU MÖRG SMÁRIT ÁTTU SJÁLFUR? Ég er með um 1200 skráða titla og á rúmlega 700 þeirra sjálfur, en þá eru t.d. ótaldar seríuútgáfur smárita í gegnum tíðina, bæði ætlaðar börnum og fullorðnum. Ég á hluta þeirra, þar á meðal 27 þeirra 80 rita sem tilheyra útgáfu Jóns lærða, en ýmsar seríur og fjölda rita vantar mig. ER HÆTT AÐ GEFA ÚT KRISTILEG SMÁRIT? Ég vona ekki. Þrátt fyrir tölvutækni og breytt samfélag virðist prentmiðlun halda í við tæknina. Það er heldur ekkert sem stendur í vegi fyrir því að smárit sé sett fram í tölvuformi. Það sem ég óttast meira er að djörfungin til þess að boða fagnaðarerindið og þolinmæðin gagnvart trúarskoðunum virðist fara þverrandi. ÁTTU ÞÉR UPPÁHALDSSMÁRIT? Ég held ekki. Ætli ég sé ekki fastur í hugarfari safnarans: Það sem mig vantar er áhugaverðast í augnablikinu.

x

Bjarmi

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.