Bjarmi - 01.04.2021, Page 27
Uppáhalds
biblíuversin mín:
Orðið varð mér
til blessunar
ODDNÝ GARÐARSDÓTTIR
Þegar ég hugsa um trú mína kemur
amma mín fyrst upp í huga mér. Þegar
ég var barn kenndi hún mér morgun- og
kvöldbænir og sagði mér sögur af Jesú.
Amma sagði að hann fylgdist alltaf með
mér. Hún kenndi mér líka Faðirvorið og
upp frá því fór ég aldrei að sofa án þess að
fara með Faðirvorið. Ég iðkaði ekki mikið
trú fyrr en seinna á ævinni en amma mín
gaf mér fræ trúarinnar sem blundaði í mér
eins og mustarðskornið.
Ritningin segir okkur að ef við höfum
trú eins og mustarðskorn verði okkur
ekkert um megn, (Matt 17.20).
Það er dýrmætt að fá að lesa kristilegt
efni og biðja með barnabörnunum. Við sem
erum ömmur ættum að skipa okkur í það
skarð til að viðhalda trúariðkun hjá börnum
þessa lands. Ekki síst til að afkomendur
okkar fái lifað lífinu í fullri gnægð.
Og Jesús sagði: „Við hvað eigum
við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi
eigum við að lýsa því? Líkt er það
mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er
það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En
eftir að því er sáð tekur það að spretta,
það verður öllum jurtum meira og fær
svo stórar greinar að fuglar himins geta
hreiðrað sig í skugga þess“ (Mrk 4.30-
32).
Það er erfitt að velja uppáhaldsbiblíu-
vers, þau eru svo mörg, en versin eru
í umferð hjá mér svona pínulítið eftir
aðstæðum og hvaða verkefni ég er að fást
við í lífinu. Lífið býður upp á svo margt,
bæði gleði og sorg. Biblíutextar hafa
leiðbeint mér, gefið mér huggun og styrk.
Verið ekki hugsjúk um neitt heldur
gjörið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar
Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
Og friður Guðs, sem er æðri öllum
skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og
hugsanir í Kristi Jesú (Fil 4.6-7).
Mesta gæfusporið mitt var að leita í
trúna eftir erfiða lífsreynslu.
Í Jeremía 33.3 segir: „Hrópaðu
til mín! Ég mun bænheyra þig og ég
mun kunngjöra þér mikla hluti og
leyndardómsfulla sem þú hefur ekki áður
þekkt.“
Þegar raunir þjaka leitar fólk á náðir
æðri máttar. Trúin hefur haft djúpstætt gildi
fyrir mig. Trúin gefur lífinu dýpri merkingu
og hjálpar í viðureign daglegs lífs, ásamt því
sem hún styrkir böndin í samskiptum við
samferðafólkið.
Fyrir tilstuðlan trúarinnar fann ég
merkingu og tilgang í þessu öllu og ræð
betur við öldugang lífsins. Trúin dregur úr
kvíða og veitir sjálfstraust og gefur von um
að böl megi bæta.
Guð er stórkostlegur, hann hefur alltaf
gert hið ómögulega mögulegt fyrir börnin
sín. Hann endurreisir og frelsar okkur sem
viljum kalla okkur börn hans. Guð vísar
okkur veginn í öllum aðstæðum, við þurfum
bara að rétta út höndina í bæn. Það eru
engin takmörk fyrir vilja hans og getu til að
hjálpa okkur þegar við erum í erfiðleikum,
hann elskar okkur eins og við erum, án allra
skilyrða, hann sér okkur falleg og lýtalaus.
Guð þráir að heyra bæn af vörum okkar
og vill leiða okkur í gegnum allt. Hann veit
líka hvað er okkur fyrir bestu, þekkir okkur
jafnvel betur en við sjálf. Hann þrengir sér
ekki upp á okkur heldur bíður álengdar.
Við að lesa orðið og iðka trú, hef ég
upplifað áskoranir í lífinu og það hefur gert
mig að betri manneskju, líf mitt hefur tekið
nýja stefnu og fengið tilgang. Þetta nýja
lífsviðhorf fær mig til að nálgast öll verkefni
af kærleika.
Það er gott að hefja augun til fjallanna
og hvíla í þeirri trú að Drottinn vaki yfir mér
daga og nætur og verndi mig frá öllu illu.
Hann er mér til hægri handar, alltaf.
Stundum finnst okkur trú okkar
lítilfjörleg, kannski þorum við varla að játa
að okkur langi til að trúa, kannski finnst
okkur trú okkar ekki vera nógu kröftug, að
það gerist svo lítið í trúarlífi okkar.
„Auk oss trú!“ sögðu lærisveinarnir við
Jesú. Hann svaraði þeim:
„Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn
þá getið þið sagt við mórberjatré: Ríf þig
upp með rótum og fest rætur í sjó, og það
myndi hlýða.“
Mustarðskorn er eitt minnsta fræ sem
til er, sést varla en í því býr kraftur sem er
líkastur kraftaverki. En mustarðskornið þarf
jarðveg og vökvun til að vaxa og dafna.
Þessi líking á við um trú okkar. Hvernig
sem okkur líður. Munum eftir þessu svari
Jesú. Trúin er gjöf, sem Guð leggur í hjarta
okkar.
Ef við réttum út höndina og tökum
við gjöfinni og búum þannig um litla
trúarkornið, að það fái að vaxa og dafna,
þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur, Guð
sér um vöxtinn. Við erum kölluð til að vera
farvegur kærleika hans.
bjarmi | apríl 2021 | 27