Strandapósturinn - 01.06.1996, Blaðsíða 79
eins og mamma hafBi kennt mér. Þá fannst mér þetta langa skaft
vera bara til bölvunar og fór að hugsa um að best væri að ná því
bara af, en hætti þó við það og hugsaði að ef þetta væri lenska hér í
Húnaþingi að nota svona skaft þá væri líklega best að reyna að
læra það, svo tók ég fyrir næsta blett. Þegar ég stóð upp eftir að
hafa lokið við að þurrka hann, renndi ég augunum yfir gólfið.
Hvað myndu þetta verða margir blettir? Nú það myndu verða 5 á
þennan veginn og á hinn veginn yrðu það líka 5, það myndi gera
25 bletti! — 2 búnir, oh ho, nú dugði ekkert hangs, ég skellti mér á
fjóra fætur og byrjaði með miklum krafti á þriðja blettinum. í
sama bili opnast hurðin og Bensi kallar: „ég er búinn“. A eftir
fylgdi eitthvert gorhljóð: „Hova! fjórum fótum, þú átt að standa
maður!“ Sem betur fer skellti hann aftur hurðinni og var farinn,
svo ég þurfti ekki að horfa lengi á glottið á honum. Þetta var
aumkvunarverð uppákoma, sjálfsvirðing mín hlaut þarna stóran
skell. Ég stóð upp og leit á klukkuna á veggnum, það var tæpur
hálftími þar til kennslustund átti að hefjast og ég stóð nánast á
byrjunarreit. Ég var allt í einu orðinn svo lítill, það söng í höfðinu
á mér: „Þú átt að standa maður!“ sagði hann. Jaaá — standa. Allt
hefur sinn tilgang, líka langa skaftið. Nú rann á mig örvæntingar-
fullur berserksgangur og ég sveiflaðist með tuskuna á kústinum
um gólfið. Nú gekk verkið fljótt, en gæðunum hrakaði stórlega og
út úr stofunni slapp ég einhverjum mínútum áður en tíminn átti
að byrja. Morgunkakóinu sem þvottaflokknum stóð alltaf til boða
varð ég að sleppa að þessu sinni. Eftir þennan fyrsta gólfþvotta-
morgun tók ég miklum framförum, þótt aldrei næði ég hraðan-
um hans Bensa Gísla.
Aðalkennarar skólans, Guðmundur Gíslason skólastjóri og séra
Jón Guðnason, voru að mínum dómi mjög góðir kennarar. Þeir
höfðu gott vald á nemendum og lag á að láta þá fylgjast með því
sem fram fór í tímunum. Hjá Guðmundi minnist ég sérstaklega
tímanna í þjóðfélagsfræði. Þetta var á þeim tíma sem við höfðum
enn danskan kóng en þó farið að hilla undir að við fengjum fullt
sjálfstæði, sem þá var reiknað með að yrði Í944. Guðmundur
vakti með okkur sterka þjóðerniskennd og brýndi fyrir okkur
77