Strandapósturinn - 01.06.1996, Blaðsíða 139
Jensína
Ég hef oft alið tófuyrðlinga, sleppt þeim og iðulega gefið þeim á
veturna. Ég var einu sinni með fjóra tófuyrðlinga í einu — þá kom
Páll Hersteinsson, núverandi veiðimálastjóri, til mín og bað mig
um að gefa sér einn hvítan. Páll hafði hann síðan með sér norður í
Ófeigsfjörð og gerði hann fylgispakan. Hann skírði tófuna Jens-
ínu í höfuðið á mér. Stuttu eftir að Páll fer suður um veturinn,
kemur Jensína til okkar. í fyrstu urðum við að loka hana inni.
Hún var alveg kolvitlaus, óð um öll hús og inn í eldhús til að stela
kleinum. Hún og hundurinn okkar, hann Vaskur, léku sér allan
daginn og hún elti hænsnin út í sjó. Guðmundur sonur minn var
úti í bát og vissi ekki fyrr en hún var komin upp á öxlina á honum.
Sem oftar lá ég á greni hér ofan við bæinn — ég hafði lagt út agn
þar til að tæla tófu. Þá kemur hún Jensína á agnið og mórauð tófa
rétt á eftir. Ég skaut þá mórauðu og lagði hana við hlið mér því ég
ætlaði að liggja lengur. Jensína lá hjá hræinu alla nóttina og eftir
það flýði hún. Hún kom seinna fram við Kaldbak og var þar í
nokkurn tíma eða þar til hún var send Páli, sem var staddur í
Reykjavík. Páll sendi hana aftur hingað en hún strauk aftur inn á
Kaldbak og var þar um sumarið.
Einu sinni var fólk þar á ferð og var að borða nestið sitt. Kom
hún þá og stal frá þeim sígarettupakka. Fólkið var í mestu vand-
ræðum við að ná pakkanum, þar til það gaf henni köku. Öðru
sinni var sonur Jóns á ferð í Byrgisvík og kaliar „það vildi ég að
hún Jensína kæmi“, kemur þá kvikindið hlaupandi niður hlíðina
og beinustu leið inn í bíl. Að lokum var hún farin að ónáða fólkið
á Kaldbak um of, kerlingin þar var orðin alveg vitlaus. Tófan lá í
hænunum hjá þeim og stal mat úr eldhúsinu, svo endaði með því
að karlinn skaut hana, helvítis beinið. Það var mjög gaman af
henni, hún var svo frek og frökk. Það er aftur á móti alveg
vonlaust að temja mink. Drangamenn reyndu það einu sinni, þeir
höfðu þá í súrheysgryfju en þeir urðu snarvitlausir.
137