Syrpa - 01.03.1947, Qupperneq 36

Syrpa - 01.03.1947, Qupperneq 36
„hlotið meiri lífsreynslu en margur hlýtur á þrefalt lengri ævi“, en sú reynsla sýnist helzt fólgin í of nánum kynnum af hinu veika kyni allt frá bernsku; og hann eignast barn með ástandsstúlku, sem hann kynnist á lýðveldishátíðinni á Þing- velli 1944. Hann virðist hvorki nenna að stunda nám sitt né vinna, skvettir í sig á stundum, iðkar biljarð og ræður kross- gátur. Hann hefur áhuga fyrir engu nema sjálfum sér, gremst við allt og alla, „gefur skít fyrir það allt“. Hann hefur lesið „aragrúa af sálfræðibókum og öðrum pésum varðandi per- sónuleikann og hvatalífið", en botnar ekki neitt í neinu; hann reynir að yrkja, 'en tekst það ekki; yfirleitt virðist hann fremur lítið gefinn. Hann segist stefna að miklu takmarki, en ekki er ljóst hvert förinni er heitið, enda skiptir það lesandann engu máli. Þessi þrautleiðinlegi unglingur kynnist stúlku á líku reki, Önnu dóttur Borghildar píanókennara. Henni er þannig lýst; „Hún virtist meir en lítið kúltíveruð“. „Kvenleg — kvenleg, — það var hún fyrst og fremst. Móðurleg — og þó ekki svo gömul eða þroskuð að maður gæti ímyndað sér, að hún gæti orðið móðir fyrr en efir mörg, mörg ár“. „Ung og falleg Reykjavíkurstúlka, mjög svo laus við tilgerð, enda þótt hún væri allmikið máluð". Anna er góð stúlka (eða „kvenvera", eins og höfundur segir), og Þórhalli finnst hann verða nýr og betri maður, er hún hefur veitt honum ást sína. Ótvxræðust merki þeirra umskipta eru þau, að hann lætur flytja myndina af Wagner úr herbergi sinu niður í forstofu, en setur teikningu af amerískum skýjakljúf í staðinn, og selur „stóran bunka af klassískum grammófónplötum" „fyrir sama og ekkert verð“. En dýrðin er skammvinn, móðir stúlkunnar kemst á snoðir um feril piltsins og sendir dóttur sína til Kaupmannahafnar. Hinn vonsvikni, kjarklausi elskhugi verður tæplega mönnum sinnandi, og þjáist af sífeldum höfuðverk eftir þetta, setzt þó niður og skrifar bók sína til þess að „gefa unað lífinu nokkuð betur en áður“. Skáldsaga þessi gæti vart annað verið en fyrsta bók óþrosk- aðs skálds. Frásögnin er þróttlítil og ærið barnaleg á stundum, sagan laus í reipunum og morar af óþörfum endurtekningum og hugleiðingum, sem engu máli skipta. Höfundurinn ætlar sér að skrifa talmál, Reykjavíkurmál — en mistekst það að vonum, árangurinn er hið mesta hrognamál, og skánar þó heldur er á bókina líður. Þrátt fyrir allt má vera að Elíasi Mar takist að skrifa góða skáldsögu, þegar hann vex úr grasi, margt ólíklegra hefur komið fyrir. Á. Hj. Jón Björnsson: HEIÐUR ÆTTARINNAR. Skáld- saga. (Nýir pennar) Reykjavík, Víkingsútgáfan, 1946. Höfundur þessarar skáldsögu er íslendingur, sem ritar á dönsku. Hann hefur gefið út þrjár skáldsögur, auk smásagna og drengjabóka. þessi bók heitir á dönsku „Slægtens Ære“, og kom út árið 1944, en birtist nú á íslenzku í þýðingu höf- undar. Sagan gerist á árunum 1905-06 í Djúpadal, afskekktri sveit einhvers staðar á landi hér. íslendingar hafa fengið heima- stjórn, framfaraalda gengur yfir landið. Af upphafi sögunnar er ljóst, að henni er ætlað að lýsa hörðum atökum afturhalds og framsóknar, baráttu hins gamla og nýja tíma. Foringi hinna ungu framfaramanna er Eysteinn á Kambi, en Hallvarður faðir hans og Bjarni hreppstjóri á Leiru, ríkustu bændur sveitarinnar og ráðamenn, eru sannir fulltrúar kyrrstöðu og aftuihalds. Og þeim fylgir meiri hluti bændanna, ótrúlega íhaldsamir menn, sem senda faktorinn í Djúpavík inn á Al- þing til þess að berjast gegn öllum framförum, þeir vilja jafn- vel ekki af því vita, að sótt sé um styrk til þingsins til þess að leggja veg inn í þeirra eigin sveit, enda þótt Dauðsmanns- kleifin sé ófær vögnum og stóihættuleg klyfjahestum! Þeir hatast auðvitað við símamálið fræga, en baráttan um það virðist eiga að vera uppistaða sögunnar. Úr því verður þó ekki: Eysteinn stofnar að vísu fáliðað framfarafélag í sveitinni, en dvelur síðan á búnaðarskólum og kemur lítt sem ekki við sögu, enda ótæk söguhetja, trédrumbur, sem höfundi tekst aldrei að gæða einstaklingseðli né lífi. Um skeið fjallar sagan um Hrefnu á Fossá og raunir hennar, hina örfátæku en fallegu og þrekmiklu stúlku, sem trúlofast hefur Eysteini af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Halldór, son- ur Bjarna ríka á Leirá, elskar Hrefnu, og nú heldur lesand- inn, að lýst verði baráttu þessara tveggja manna um ást henn- ar, en svo er þó ekki: Þegar móðir Hrefnu er dáin og eignir þeirra seldar á nauðungaruppboði, hverfur hún að mestu inn í skuggann. „Lífið gekk sinn vanagang eins og venjulega", segir höfundur, og skýrir síðan frá bændafundinum í Reykja- vik 1905 og sigri símamálsins. — Halldór er þriðja og í raun og veru mesta hetja sögunnar, feiminn að vísu og bældur vegna ofríkis föður síns, en mikill skapgerðarmaður, sannur drengur. Hann fer að heiman í óþökk föður síns og flækist til Noregs, misjafnar sögur fara af honum og hann gerir ættinni smán; loks vill faðir hans hvorki sjá hann né heyra. Ferill hans er þó allur mjög óljós og höfundur er auðsæilega í vandræðum með þessa söguhetju sína. Áður en varir bjargar Halldór fimmtán manns úr sjávarháska, en drukknar sjálfur f brim- rótinu. Faðir hans fær aðkenning af slagi og hræðilegt sam- vizkubit, en heiðri ættarinnar er borgið. Sögunni lýkur með því að Bjarni á Leiru stofnar framfarasjóð mikinn til minn- ingar um son sinn, og gefur auk þess nægilegt fé til vegalagn- ingar gegnum Dauðsmannskleifina. Baráttunni við afturhalds- öflin í Djúpadal er lokið. Sú barátta var raunar altaf með nokkuð sérstæðu móti, framfarafélagið gerði aldrei nokkurn skapaðan hlut, velti engum steini úr götu. Þó að bók þessi sé léleg skáldsaga, virðist höfundur hennar gæddur nokkurri frásagnargáfu, og hann kemur auga á ýmis- legt misjafnt í fari manna. Sýnilegt er, að hann hefur lesið rit Jóns Trausta og Guðmundar Hagalíns með mikilli athygli, og í 9. kapítula stingur gamall kunningi upp höfðinu: „Upp- reistin á Brekku" eftir þá Poul Martin Möller og Gest Pálsson. En það söguefni verður leiðinlegt og grófgert í höndum Jóns Björnssonar. Stíll höfundar er snauður að litbrigðum og einkennalaus með öllu. Málið er sums staðar dönskuskotið og orðaröð út- lenzkuleg. í bókinni eru nákvæmar lýsingar á gerð íslenzkra sveitabæja og búskaparháttum öllum, útilegumannatrú og haustleitum; allt er það ritað fyrir danska lesendur. Undar- legt má heita, ef bók þessi hefur hlotið mikið lof erlendis, svo sem sagt er frá í auglýsingum hér á landi. Á. Hj. ☆ 74 SYRPA

x

Syrpa

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Syrpa
https://timarit.is/publication/1642

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.