Morgunblaðið - 18.09.2021, Blaðsíða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. SEPTEMBER 2021
HURÐIR
Tunguháls 10, 110 Reykjavík, sími 567 3440, vagnar@vagnar.is, vagnar.is
• Stuttur afhendingartími
• Hágæða íslensk
framleiðsla
• Val um fjölda lita í
RAL-litakerfinu
• Vindstyrktar hurðir
Bílskúrs- og iðnaðarhurðir
Iðnaðarhurðir
Iðnaðarhurðir með gönguhurð
Bílskúrshurðir
Hurðir í trékarma
Tvískiptar hurðir
Smíðað eftir máli
Fyrsta flokks þjónusta og ráðgjöf
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Einn af virtari háskólakórum heims,
kór Clare College í Cambridge á
Englandi, kemur fram á tónleikum í
Hallgrímskirkju í dag, laugardag, kl.
17 og flytur blandaða efnisskrá
íslenskra verka og erlendra og þá
einkum enskra.
Kórinn hljóðritaði í sumar plötu
með íslenskum verkum, ásamt
hljómsveitinni The Dmitri Ensemble
og sópransöngkonunni Carolyn
Sampson, sem hið virta útgáfufyrir-
tæki Harmonia Mundi mun gefa út í
byrjun næsta árs og verða nokkur
verk af henni á dagskrá tónleikanna.
Á plötunni verða tónverk eftir
Önnu Þorvaldsdóttur, Jón Leifs, Jón
Ásgeirsson, Snorra Sigfús Birgisson,
Atla Heimi Sveinsson, Hjálmar H.
Ragnarsson, Tryggva M. Baldvins-
son, Þorkel Sigurbjörnsson, Sigurð
Sævarsson og hljómsveitina Sigur
Rós og verður platan án efa góð
kynning á íslenskri tónlist þar sem
Harmonia Mundi er eitt af umfangs-
meiri útgáfufyrirtækjum heims á
sviði klassískrar tónlistar.
Syngur þrisvar í viku
Kórinn er blandaður og skipaður
nemum við Clare College á aldrinum
18 til 22 ára, að sögn stjórnanda
hans, Grahams Ross, sem er 36 ára
og fyrrverandi nemandi skólans og
með langt nám að baki í tónlistar-
fræðum, píanóleik og hljómsveitar-
stjórn. Hann fór í framhaldsnám í
hljómsveitar- og kórstjórn við Royal
College of Music í London, lauk því
árið 2008 og hefur upp frá því starfað
sjálfstætt sem stjórnandi hljóm-
sveita og kóra og er nú bæði
tónlistarstjóri Clare College og
stjórnandi kórsins.
Skólinn var stofnaður árið 1326 og
syngur kórinn í fallegri kapellu sem
er áföst skólabyggingunni, að sögn
Ross. Hann segir kórinn syngja
þrisvar í viku í kapellunni og þá eink-
um trúarleg verk en á tónleikaferð-
um er meira um veraldleg verk.
Söngvarar kórsins eru í grunnnámi í
skólanum, sumir hverjir í tónlistar-
námi og segir Ross að inntökupróf
fyrir kórinn séu býsna strembin.
Sumir hafi lært söng, aðrir ekki, en
allir sem fái inngöngu í kórinn, karlar
jafnt sem konur, eigi sameiginlegt að
vera með gott tóneyra, fljótir að læra
og með mikinn áhuga á tónlist og
söng.
Ross segir að jafnaði um 28 söngv-
ara og söngkonur í kórnum og að
kórinn hafi farið víða um lönd og til
ólíkra heimsálfa en ferðin til Íslands
sé fyrsta ferð kórsins út fyrir land-
steinana í langan tíma, vegna kófsins.
„Þetta eru fyrstu tónleikar okkar er-
lendis í 639 daga,“ segir hann kíminn.
Dásamlegur hljómburður
Ross hefur áður komið hingað til
lands og stjórnað tónleikum í Hall-
grímskirkju. Það var árið 2019 og
sungu átta söngvarar úr kórnum á
þeim tónleikum. Ross er því vel
kunnugur kirkjunni og hljómburð-
inum í henni. „Hann er dásamlegur
og ég valdi efnisskrána með hann í
huga,“ segir Ross um hljómburðinn.
Þá sé Klais-orgelið líka stórkostlegt
hljóðfæri sem tveir nemendur fái að
spreyta sig á, bæði á tónleikunum og
messu á sunnudagsmorgni.
Ross er spurður út í efnisskrá tón-
leikanna og segist hann flétta saman
fallega sálumessu a capella og ýmis
verk, bæði íslensk og hefðbundin
ensk kórverk eftir tónskáld á borð
við Edward Elgar og Gerald Finzi.
Mun því reyna á söngvarana þegar
kemur að því að syngja á íslensku.
Ross hlær þegar blaðamaður spyr
hvernig það hafi gengið á æfingum.
„Það hefur gengið hægt en þetta er
dásamlegt verkefni og við höfum haft
mikinn tíma til að æfa okkur í fram-
burðinum,“ segir Ross. Sigurður
Sævarsson tónskáld hafi líka komið
til hjálpar, heimsótt kórinn og leið-
beint söngvurum með framburðinn.
Heillandi hljóðheimur
Ross segist hafa hrifist af verkum
tónskáldanna íslensku sem finna má
á plötunni væntanlegu. Hann segir
hafa verið heillandi að kynnast þess-
um heimi íslenskrar tónlistar og
tungumálinu og vonast til þess að
hlustendur upplifi þá töfra og að
platan kynni þeim verk sem þeir hafi
ekki þekkt til áður.
Blaðamanni kom nokkuð á óvart
að sjá hljómsveitina Sigur Rós meðal
höfunda og í ljós kemur að kórinn
syngur lagið „Fljótavík“ án texta.
Vinur Ross, Guy Button, útsetti lagið
fyrir kórinn. Ross segist aldrei áður
hafa stýrt flutningi á popplagi.
Af öðrum verkum má nefna
„Requiem“ eftir Jón Leifs, „Heyr þú
oss himnum á“ eftir Önnu Þorvalds-
dóttur, „Nunc dimittis“ eftir Sigurð
Sævarsson og „Heyr, himna smiður“
eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
Ungar raddir
Ross er beðinn að lýsa hljómi kórs-
ins. „Við erum karlar og konur, í
fyrsta lagi, en sumir kóranna okkar í
Cambridge eru drengjakórar. Við
höfum verið blandaður kór í nær 50
ár og fyrir vikið er hljómurinn – og
þá sérstaklega í hærri röddunum,
sópran og alt sem eru ungar kven-
raddir – mjög hreinn og tær þegar á
þarf að halda,“ segir Ross. Kórinn
eigi líka auðvelt með að laga sig að
ólíkum verkum og breyta hljómnum,
sem sé þó alltaf hljómur ungra
radda. „Við leggjum líka mikla
áherslu á textann, að orðin séu borin
skýrt fram,“ bætir Ross við og að
bassinn í kórnum myndi styrkan
grunn fyrir aðrar raddir að byggja á.
Fyrstu tónleikarnir erlendis í 639 daga
- Kór Clare College í Cambridge heldur tónleika í Hallgrímskirkju - 18-22 ára söngvarar og
háskólanemar - Plata væntanleg frá Harmonia Mundi með flutningi kórsins á íslenskum verkum
Þekktur Kór Clare College í Cambridge á Englandi með stjórnanda sínum, Graham Ross, sem er fyrir miðju. Söngvarar eru ungir og raddirnar tærar.
Wikipedia/Gmauri
Virðuleg Clare College er í þessari fallegu byggingu í Cambridge.
Björgvin Jónsson opnar sýninguna
Spegil-mynd í Portfolio galleríi,
Hverfisgötu 71, í dag kl. 16. Björg-
vin sýnir nú í fyrsta sinn á Íslandi en
hann hefur áður sýnt í New York,
Los Angeles og Kýpur. Hann gengur
undir listamannsnafninu V.K.N.G.
og liggja ræturnar í götulist. Björg-
vin útskrifaðist úr School of Visual
Arts í New York árið 2018 og var
valinn einn af 20 bestu nemendum
skólans. Hann er í tilkynningu sagð-
ur frumlegur í sinni list, koma hug-
arheimi sínum vel til skila og vinna
mikið með óhefðbundinn efnivið.
Sýnir í Portfolio
Grafískt Hluti verks eftir Björgvin.
Ró í náttúrunni nefnist sýning sem
hófst í gær í Mjólkurbúðinni, sal
Myndlistarfélags Akureyrar, og
lýkur 28. september. Á henni sýnir
Sólveig Dagmar Þórisdóttir mál-
verk en hún hefur verið starfandi
listamaður á Korpúlfsstöðum í
Reykjavík frá árinu 2007 til 2020 og
á langan starfsferil að baki sem
myndlistarmaður, grafískur hönn-
uður og hagnýtur menningarmiðl-
ari. Hún tengir listsköpun sína við
sköpunarkraft í ró og flæði í nátt-
úrunni og málar oftast á staðnum á
ferðalögum sínum. Málverkin eru í
tilkynningu sögð uppspretta af
mikilli vinnu myndlistarmannsins
með það í huga að fá innsýn í hug-
arheim, þroska og dýpt, sem ein-
staklingurinn þroskar með sér úti.
Vatnslitaverk Eitt af málverkum Sólveigar Dagmarar Þórsdóttur.
Ró í náttúrunni í Mjólkurbúðinni