Morgunblaðið - 16.12.2021, Blaðsíða 63
MINNINGAR 63
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. DESEMBER 2021
Bragi var fæddur og uppalinn á
Geirlandi þar sem foreldrar hans
stofnuðu nýbýli 1927, heitið eftir
Geirlandi á Síðu. Það var því ein-
stök upplifun að fara með svo fróð-
um manni um æskuslóðirnar, heyra
hann stálminnugan rifja upp minn-
ingar þaðan, segja frá búskap og
mannlífi þar efra og sýna mér hvar
gamla Lækjarbotnaréttin stóð suð-
ur undir Selfjalli. Um hana og safn-
girðinguna sjást nú engin ummerki,
aðeins tóftir gömlu fjárhúsanna
sem hún stóð við. Þarna þekkti
Bragi allt og alla. Hann hafði end-
urbætt og haldið við vegakerfinu í
Lækjarbotnum um áratuga skeið
og gat tilgreint fjölda örnefna og
eigendur sumarbústaða og annarra
mannvirkja á svæðinu á ýmsum
tímum, allt frá Selfjalli og norður
fyrir Lögberg. Betri heimildar-
mann var ekki hægt að hugsa sér
enda varð ég margs vísari. Í lok
ferðarinnar komum við í Fossvalla-
rétt í Lækjarbotnalandi og þá rifj-
aðist upp að Bragi hafði flutt allt
efni til hennar þegar hún var end-
urbyggð sumarið 1973. Nú vildi
hann leggja fram efni til jarðvinnu
vegna byggingar nýrrar lögskila-
réttar norðan Suðurlandsvegar um
leið og tilskilin leyfi fengjust. Það
ætlaði hann að gera í minningu
fjögurra fjáreigenda sem voru hon-
um mjög kærir. Bragi var mikill
framkvæmdamaður sem lét verkin
tala á ýmsum sviðum.
Við fjáreigendur kveðjum Braga
Sigurjónsson með virðingu og þökk
fyrir ánægjuleg kynni og hugul-
semi alla tíð.
Aðstandendum vottum við inni-
lega samúð.
Ólafur R. Dýrmundsson
Það er þungt að draga staf á blað
þegar höggvið er stórt skarð í vina-
hópinn og félagsskapinn sem kall-
aði sig L-iða. Bragi og Heiður voru
kærir liðsfélagar í L-iða og nú er
Bragi farinn í sitt síðasta ferðarlag
þar sem ástin hans hún Heiður mun
taka vel á móti honum.
Þeir kvöddu með sjö daga milli-
bili vinirnir og Oddfellowbræðurnir
Þorsteinn minn og Bragi.
Kynni okkar hjóna og vinátta við
Heiði og Braga hófst fyrir 63 árum.
Í 63 ár var fylgdumst við að í
mörgu. Við eignuðumst frumburði
okkar á svipuðum tíma, stóðum í
húsbyggingum á svipuðum tíma
sem og mörgu öðru. Bragi var
hjálpsamur með eindæmum og var
gott eiga hann að. Bifvélavirkinn
Bragi var iðulega mættur til að at-
huga hvort ekki væri hægt að verða
að liði ef hann vissi af bilun í bíl hjá
okkur. Það kom fyrir að Bragi bæði
Steina um hjálparhönd og þá skipti
ekki máli hvað stóð til; ef Bragi ósk-
aði eftir aðstoð, sem ekki var oft, þá
var öðru slegið á frest.
Saumaklúbburinn L-iði stendur
þétt saman og hefur ferðast mikið
um landið okkar. Þá var gaman og
við grillið var létt yfir þessum miklu
gleðigjöfum sem hafa staðið þétt
saman í öll þessi ár. Margar falleg-
ar minningar fara um huga manns,
ein er af Braga með bros á vör og
vindil í munnviki.
Ég hugsa um þann tíma sem
Bragi og Heiður voru með hesta og
kindur á Geirlandi, sem var æsku-
heimili Braga. Bragi sá hvað Steini
hafði gaman af kindum, enda Steini
fæddur og uppalinn í sveit, og gaf
honum tvær kindur. Verkaskipti
voru höfð á Geirlandi þar sem
Steini fékk að vera bóndinn á föstu-
dögum og var spennandi fyrir okk-
ar börn að fara með pabba sínum að
gefa kindunum. Þetta voru Steina
mikilsverðar stundir og hugarró að
fara til gjafa, hvað er betra?
Oft voru þeir félagar saman uppi
á Geirlandi enda að mörgu að sinna
og þegar sauðburður hófst að vori
var mikið fjör hjá þeim. Síðar
byggðu Heiður og Bragi glæsilegt
íbúðarhús á Geirlandi, þar nutu
grænir fingur Heiðar minnar sín,
en Bragi gaf ekki mikið eftir í garð-
ræktinni með því að koma með
réttu gróðurmoldina sem hann
framleiddi sjálfur og seldi um víða
borg.
Það eru margar ógleymanlegar
stundir sem við Steini höfum átt
með þeim heiðurshjónum Heiði og
Braga sem ylja manni á svona
stundu.
Ef þeir vinir Steini og Bragi
finna fjárhús frelsarans þarna
uppi þá er ég viss um að þá er að
finna þar sitjandi á garðabandinu
að spjalla og hlæja mikið.
Kæru afkomendur og fjöl-
skylda Braga, missir ykkar er
mestur en minningar um kæran
föður og afa lifa.
Edda Aspelund.
„Til hvers þarftu frí?“ svaraði
Bragi því til þegar ég bar það upp
við hann hvort ég gæti fengið frí
eina helgi í júlímánuði 1997. Þessi
orð eru lýsandi fyrir Braga enda
allir dagar góðir dagar til að vinna
ef til þess viðraði. Braga kynntist
ég þegar fjölskyldur okkar fluttu
hlið við hlið í Birkigrund í Kópa-
vogi og Rúnar, sonur hans, kom til
mín þar sem ég var að leika mér í
sandhrúgu á bílastæðinu. Þetta
var árið 1975 en foreldrar okkar
voru nágrannar yfir í rúmlega 25
ár eða þar til Bragi og Ragnheiður
fluttu upp á Geirland. Ég var þó
áfram í reglulegu sambandi við
Braga enda tengdumst við Rúnar
traustum vinaböndum og hefur
ekki fallið skuggi á vináttu okkar
þau 47 ár sem við höfum þekkst.
Æskuminningar mínar tengj-
ast margar Braga enda margt
brallað á þessum árum. Þar eru
mér minnisstæðar ferðir okkar
Rúnars með honum sem snáðar á
Laugarvatn á vörubílnum þar sem
við sváfum lungann úr ferðinni í
kojunni á White-inum og ótal ferð-
ir upp á Geirland svo eitthvað sé
nefnt. Síðar þróaðist það svo að ég
fór að vinna hjá Braga á sumrin.
Fyrst „í grjótinu“ þar sem við
flokkuðum hraun með höndum til
útflutnings og síðar á vinnuvélum í
mörg ár eða út allt háskólanámið.
Bragi var dugnaðarforkur, kröfu-
harður en um leið sanngjarn og
heiðarlegur. Ég er eilíflega þakk-
látur fyrir að hafa kynnst Braga
og fjölskyldu hans en árin sem ég
vann hjá honum lærði ég margt
sem nýtist mér enn í dag, bæði í
leik og starfi. Eftir að ég lauk námi
og hóf störf á öðrum vettvangi
vann ég hin ýmsu verkefni fyrir
hann, nánast fram á síðasta dag.
Samstarf okkar var alltaf ánægju-
legt enda áttum við gott skap sam-
an.
Með djúpu þakklæti kveð ég nú
traustan vin sem var mér góð fyr-
irmynd. Enda þótt áfram megi ef-
laust deila um hvort ég hafi átt
skilið fríið nefnda helgi sumarið
1997 deilir enginn um að Bragi
hefur unnið fyrir sínu fríi.
Hvíl þú í friði kæri félagi.
Ólafur Örn Svansson
og fjölskylda.
Elsku Bragi minn er látinn. Ég
man fyrst eftir Braga í Skógrækt-
arstöðinni í kringum Villa afa og
Dísu ömmu, en þau hjónin Bragi
og Heiður voru líka vinir afa og
ömmu.
Hógværð, kærleikur og hlýja
eru orð sem lýsa Braga mjög vel.
Ég man líka eftir mörgum gæða-
stundum upp á Geirlandi með
þeim bræðrum Óla og Braga.
Leiðir okkar skildi um stundar-
sakir er ég flutti út á land ásamt
foreldrum mínum. Leiðir okkur
lágu svo saman rúmum fimmtán
árum seinna er ég hitti þau hjónin
ásamt dóttur þeirra, Guðrúnu
Hlín, í gegnum kirkjustarf, en þar
áttum við margar gæðastundir.
Oft var kátt á hjalla og sest niður
með vöfflur og rjóma. Þar nutum
við þess að spjalla um gamla góða
tíma úr Stöðinni ásamt mörgu
öðru.
Fjölskyldu Braga sendi ég mín-
ar dýpstu samúðarkveðjur. En nú
varir trú von og kærleikur en kær-
leikurinn mestur.
Hvíl í friði elsku Bragi minn.
Þinn vinur,
Vilhjálmur Karl Haraldsson.
- Fleiri minningargreinar
um Braga Sigurjónsson bíða
birtingar og munu birtast í
blaðinu næstu daga.
✝
Listakonan
Tóta Van
Helzing, Þórunn
María Einars-
dóttir, fæddist á
Landspítalanum
21. nóvember
1990. Hún lést
heima hjá sér í
faðmi fjölskyld-
unnar og Prím-
usar 3. desember
2021 eftir hetju-
lega baráttu við krabbamein.
Foreldrar hennar eru Svein-
hildur Vilhjálmsdóttir og Ein-
ar Jónsson.
Tóta átti eina
systur, Valgerði
Önnu Einars-
dóttur. Tóta gekk
hefðbundna skóla-
göngu og útskrif-
aðist af listabraut
frá Tækniskól-
anum 2012 og
lærði textílhönnun
í Glasgow School
of Art. Tóta vann
í kvikmyndagerð
og sem prjónahönnuður.
Útförin fer fram frá Kópa-
vogskirkju í dag, 16. desem-
ber 2021, kl. 15.
Ég kallaði þig hinum ýmsu
nöfnum, Tóta, Tóta Mæ, Tófan
eða Þórunn María.
Heppin var ég að fá þig fyrir
um 31 ári og fylgjast með þér
vaxa og þroskast. Þú varst strax
listræn og varst hvers manns
hugljúfi.
Þegar unglingsárin komu var
augljóst að þú varst sjálfstæð. Þú
sagðir öllum að þegar þú yrðir 18
ára fengi hárið að fjúka til að lýsa
yfir að þú réðir þér sjálf. Þú hafð-
ir í huga sjálfstæðar konur eins
og Sigourney Weaver í Alien og
Sinead O’Connor. Þú vissir jafn-
framt að þú vildir vinna með
höndunum. Þú skiptir um skóla
og fórst í Tækniskólann. Þú naust
þín og fórst í alla áfanga sem
tengdust list og verknámi. Í raun
hefði hvaða listgrein sem er kom-
ið til greina. Það var margt sem
fangaði huga þinn. Skóhönnun,
skart og skúlptúr fannst þér
spennandi. En að lokum valdir þú
textíl og prjónverk.
Eftir höfnun frá
Listaháskólanum skelltir þú í um-
sókn í Glasgow School of Art og
komst þá inn á annað ár. En þar
fannst þú þig ekki og fannst þú
kunna allt sem þar var boðið upp
á. En Glasgowárin færðu þér
góða vini sem sýndu þér mikla
væntumþykju og ómetanlegar
minningar.
Þú fékkst vinnu í kvikmynda-
gerð og það átti svo vel við þig.
Kynntist mörgu skapandi fólki og
eignaðist góða félaga. En textíll
og hönnun áttu hug þinn allan og
hvenær sem færi gafst hannaðir
þú og prjónaðir. Þú elskaðir að
setja saman garn og liti. En
prjónaskapurinn gaf þér líka hug-
arró. Þú elskaðir að handfjatla
garn og vinda upp. Allt garn fór í
hnykla. Þú notaðir alltaf afgangs-
garn sem aðrir höfðu gefið frá
sér. Þú varst endurvinnslukona.
Þú vildir vernda jörðina. Ekkert
var skemmtilegra en að skipu-
leggja „photoshoot“ eins og þú
kallaðir það og koma list þinni á
framfæri. Instagram Tótu Van
Helzing ber vott um það.
Við mæðgur vorum og verðum
nánar. Við áttum sömu áhugamál,
list og handverk. Við skemmtum
okkur við að fara á loppumarkaði
og finna garn og gersemar. Þú
varst alltaf að færa mér gjafir.
Ekkert minna en perlur, silki,
loðfelda og mohair fyrir mömmu
sína. Þú hafðir einstakt auga fyrir
fallegum hlutum. Þú varst líka
minn klettur er á bjátaði. Taldir í
mig kjark og þor. Það varst þú
sem leiddir mig í gegnum veikindi
þín en ég reyndi að styðja þig af
veikum mætti.
Þú elskaðir LungA, listahátíð
unga fólksins á Seyðisfirði. Þú
elskaðir að vera í faðmi fjallanna í
góðu yfirlæti hjá hinni mömmu
þinni, Írisi Einhildi á Borgarhól. Í
sumar keyrðum við um Seyðis-
fjörð og skoðuðum alls konar hús
sem þig langaði að eignast og
gera að þínum bólstað. Full bjart-
sýni og með skýra framtíðarsýn.
Tótan mín var kisukona og
hafði átt sinn Prímus Túlínus í um
16 ár. Hann passaði og verndaði í
hennar veikindum. Fyrir rétt um
ári greindist Tófan mín með
krabbamein sem hún var svo
ákveðin í að sigra að ekkert annað
kom til greina.
Tóta og Valgerður systir henn-
ar voru og verða nánar og treysti
Tótan henni fullkomlega fyrir lífi
sínu. Það hefur verið mér ómet-
anlegt að sjá og finna slíka ást.
Elsku Tóta Mæ!
Ég er stolt af því að vera
mamma þín.
Þú munt ætíð eiga stað í huga
mér og hjarta. Elska þig.
Mamma.
Þær eru margar, kveðjurnar
sem við höfum skrifað hvor ann-
arri í gegnum tíðina, elsku vin-
kona mín.
Fyrstu skilaboðin sem ég fékk
frá þér var þegar við vorum sam-
an í tímum í Tækniskólanum, og
þrátt fyrir að við þekktumst lítið
sendirðu mér skilaboð því þú viss-
ir ekki hverju átti að skila í áfang-
anum hjá Fjólu og Siggu. Þú
varst svo upptekin af alls konar
félagsstörfum og öllu mögulegu
sem þú varst með á prjónunum að
þú hafðir engan tíma til að fylgj-
ast með í þessum tímum. Í sömu
skilaboðum sagðirðu mér að kis-
inn þinn hefði komist í annað
verkefni sem til stóð að skila og
hellt vatni yfir það. Svo það má
segja að ég hafi kynnst ykkur
Prímusi á sama tíma.
Fimm árum síðar fékk ég aftur
skilaboð frá þér. Þá hafðirðu frétt
að ég væri, líkt og þú, á leið til
Glasgow í meistaranám og þig
langaði að hittast. Ég áttaði mig
ekki á því þá en í dag veit ég
hversu ótrúlega lánsöm ég var að
fá þig senda inn í líf mitt í annað
sinn. Og tímann okkar í Glasgow
áttum við saman. Lærdómstarn-
ir, göngutúrar í Kelvingrove,
partí í Art School, partí heima hjá
þér, sushi-veislur, teboð, búðarölt
um vintage-búðir í West End og
óteljandi ferðir á okkar uppá-
halds Papercup í ískaffi og hallo-
umi-samloku.
Alla daga byrjuðum við á að
senda hvor annarri skilaboð með
lagi dagsins. Mikið gæfi ég fyrir
lag dagsins frá þér í dag. Ég held
það yrði Lebanese blonde með
Thievery Corporation.
Hún var ansi mögnuð, kveðjan
sem ég fékk frá þér rétt eftir að
Hrafnhildur fæddist, löngu eftir
að við fluttum heim frá Glasgow.
Þá hafði þig sama dag dreymt
fæðingu hennar og í draumnum
varstu uppi á fæðingardeild með
okkur. Síðan þá hafið þið tvær átt
alveg einstakt samband sem mér
þykir svo óendanlega vænt um.
Þú kallaðir hana alltaf álfinn þinn
og hún sá ekki sólina fyrir þér.
Það er ómetanlegt að hér á heim-
ilinu séu þrjár uppáhalds Tótu-
peysur sem hægt er að hjúfra sig
í. Eins og stórt faðmlag frá þér.
Hjartað mitt er brotið því þessi
kveðja verður mín hinsta kveðja
til þín, elsku Tótan mín, þar til
leiðir okkar liggja saman enn á
ný. Þangað til mun ég sakna þín
ólýsanlega, heimurinn verður
aldrei jafn litríkur, hávær og hlýr
án þín.
Ég elska þig.
Björg, Hrafnhildur
og Eysteinn.
Við sitjum saman fyrir utan
Vitabar og borðum franskar með
kartöflukryddi, með stóra kok-
teilsósudollu í töskunni og ekta
reykvíska sumarsól á andlitinu.
Með fituga putta og asnalega stór
sólgleraugu að tala um allt og
ekkert, tímunum saman.
Við erum í gersemaleit í Kola-
portinu, Hjálpræðishernum eða
Rauða kross búðinni. Þú á hvolfi í
hrúgu af fötum, búin að finna
hina fullkomnu flík fyrir okkur
allar og nokkra fleiri í leiðinni.
Með fangið fullt af garnhnyklum
og kannski jólagjöf fyrir mömmu
þína þótt það sé bara júní.
Við erum á Seyðisfirði að
skreyta tónleikasvæðið fyrir
Lunga-hátíðina, þú á þönum, allt-
af með símann við eyrað að redda
hinu eða þessu. Með stærstu
skoðanirnar, ferskustu kjafta-
sögurnar og flottasta fatastílinn.
Tóta á svörtum pickup-bíl,
með leðurblöku um hálsinn. Tóta
með prjónana á lofti, hvar og hve-
nær sem er. Tóta, meistari í að
gera ævintýri úr hversdeginum.
Sterka Tóta, með drifkraft upp á
mörg hestöfl. Tóta sem getur allt.
Það er svo fullkomlega óraun-
verulegt að þú sért búin að
kveðja okkur, elsku, elsku Tóta,
en partur af okkur dvelur með
þér og partur af þér verður alltaf
hjá okkur. Nærvera eins stór og
þín getur ekki horfið. Eldur eins
og þinn mun aldrei slokkna því
hann smitaði svo rækilega út frá
sér og nú berum við hann öll með
okkur sem vorum svo heppin að
þekkja þig. Svo heppin að eiga
svolítið í þér. Þú átt allavega feit-
an bita í okkur. Hvíldu fallega
besta vinkona. Við elskum þig.
Þínar eilífðarvinkonur,
Arna, Birna og Helena.
Tóta var mikill fjölskylduvinur
okkar frá átta ára aldri. Ég
þekkti Sveinu frá menntaskóla-
árunum og heimsótti Tótu ný-
fædda á fæðingardeildina en
Arna mín var þá nokkurra mán-
aða. Tóta mikið hjá okkur þegar
þær Arna voru börn og unglingar
og fram á fullorðinsár og var allt-
af gaman að fá hana í heimsókn.
Þær voru báðar listrænar og
bestu vinkonur. Tóta varð líka
vinur minn og ég hennar. Það var
gott að eiga vináttu hennar. Hún
kallaði mig „auka-mömmu“ sína í
síðasta netspjalli okkar. Mér þótt
vænt um það.
Tóta var fyndin og skemmtileg
og á tímabili sagðist hún heita
Tóta Lee (totally).
Prjónahönnun hennar er ein-
stök og ber henni fagurt vitni. Þá
er ég ekki aðeins að tala um hve
fallegar flíkurnar eru heldur líka
að garnið í þær kemur frá Rauða
kross búðunum; hún prjónaði úr
notuðu garni.
Okkar síðasti fundur var á
Seyðisfirði í sumar fyrir ótrúlega
tilviljun: Við hjónin höfðum verið
á Djúpavogi í sumarfríi í nokkra
daga. Þá var komið að heimferð-
ardeginum og við ætluðum að
fara suðurleiðina enda er hún
styttri. Mig langaði að fara norð-
urleiðina enda langt síðan ég
hafði farið þá leið og það varð úr.
Á Egilsstöðum fór ég á salernið á
bensínstöð N1 og þar sé ég
Sveinu í röðinni. Hún sagði mér
að hún hefði keyrt Tótu á Seyð-
isfjörð til vinafólks en svo (ó)
heppilega vildi til að Tóta
gleymdi veskinu sínu í bílnum hjá
mömmu sinni. Sveina treysti ekki
bremsunum á bílnum sínum til að
fara til baka. Þá hitti hún rétta
fólkið (okkur) og við tókum að
okkur að fara með veskið til Tótu
á Seyðisfirði. Þetta voru ógleym-
anlegir endurfundir. Tóta var á
milli krabbameinsmeðferða og
augljóslega mikið veik. Hún var
samt hin kátasta þar sem hún sat
og prjónaði hvítt „cape“ og sagði
okkur bæði sjúkrasöguna og líka
frá framtíðarplönum sínum. Hún
hafði séð gamalt yfirgefið slátur-
hús sem hún hafði áhuga á að
gera upp og búa þar með kett-
inum sínum. Við dáðumst að
bjartsýninni og kjarkinum sem
við sáum þarna. Þetta var stúlka
sem var ekki að gefast upp fyrir
þeim grimma sjúkdómi sem
herjaði á hana. Það er margt
hægt að læra af henni.
Það er sárt að kveðja elsku
Tótu en við hugsum til hennar
með þakklæti fyrir allar sam-
verustundirnar og varðveitum
minningu hennar.
Innilegar samúðarkveðjur til
ykkar, Sveina, Einar og Valgerð-
ur.
Guðrún Theodórsdóttir.
Við mæðgurnar hittum aðrar
mæðgur á göngunum í Mela-
skóla en það voru þær Tóta og
Sveina. Þá vorum við Tóta 8 ára
og vorum svo heppnar að lenda í
sama bekk. Við urðum strax góð-
ar vinkonur og svo seinna bestu
vinkonur.
Okkar „idol“ voru Lara Croft
og Blues Brothers. Hún var
Elwood og ég var Jake og við
vorum báðar Lara Croft. Við
vorum alltaf eitthvað að bralla
saman. En mest vorum við að
horfa á ævintýramyndir, taka
ljósmyndir eða föndra. Stundum
fórum við til ömmu og fengum
gamla varaliti og pönnukökur.
Svo klæddum við okkur upp og
þóttumst vera í öðrum heimi. Við
bjuggum nefnilega í ævintýra-
heimi sem var á milli Vesturbæj-
arins og Skerjafjarðarins.
Stundum hjóluðum við út í Naut-
hólsvík og þá alltaf með eitthvert
verkefni sem við höfðum búið
okkur til.
Tóta nennti alltaf að leika við
mig, alveg þangað til við vorum
orðnar fullorðnar. Hún elskaði
kisur og glimmer og var best í að
finna það flottasta í Kolaportinu.
Tóta var mikill grallari með
ótrúlega listræna hæfileika.
Henni datt alltaf allskonar
skemmtilegt í hug og okkur
leiddist aldrei. Hún var með mik-
inn drifkraft og fór 110% að
flestu sem hún tók sér fyrir
hendur. Hún var með mikla út-
geislun og svo var hún líka for-
vitnileg og laðaði að sér nýja vini.
Við ætluðum á nýju Ghost
Busters-myndina saman. Ég var
búin að kaupa special edition
Ghost Busters-snakk handa okk-
ur en það þurfti ekki mikið til að
gleðja Tótu.
Ég geymi minninguna um fal-
legu Tótu og öll þau ævintýri
sem við lentum í.
Innilegar samúðarkveðjur til
fjölskyldu Tótu.
Arna María.
Tóta Van Helzing
Útför í kirkju
Stuðningur
og sálgæsla
þegar á reynir
utforikirkju.is
Minningarkort á
hjartaheill.is
eða í síma 552 5744