Morgunblaðið - 16.12.2021, Blaðsíða 78
78 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. DESEMBER 2021
Þ
ótt kjarnorkuslysinu í
Tsjernóbíl hafi verið slegið
upp í fréttum á sínum tíma
kom ekki í ljós fyrr en síðar
hversu alvarlegt það var og hve litlu
munaði að mun verra hlytist af. Ein
ástæðan fyrir því að athygli hefur aft-
ur beinst að slysinu eru leiknir þætt-
ir, sem hétu einfaldlega Tsjernobyl
og margir sáu og höfðu sérstaka skír-
skotun hér á landi
vegna margverð-
launaðrar tón-
listar Hildar
Guðnadóttur.
Ein heimildin,
sem þættirnir eru
byggðir á, er bók-
in Tsjernobyl-
bænin eftir Svet-
lönu Aleksíevítsj.
Sú bók er nú komin út í íslenskri þýð-
ingu og hún er hrollvekjandi lesning.
Aleksíevítsj lýsir Tsjernobyl sem
„[m]ikilvægasta atburði tuttugustu
aldar, burséð frá þeim hræðilegu
stríðum og byltingum sem hennar
verður minnst fyrir“. Tsjernobyl sé
„sögulegt upphaf nýrra tíma“ sem
„storkaði viðteknum hugmyndum
mannsins um sjálfan sig og heiminn í
senn“ og rústaði „tímaskyn okkar“.
Geislavirku kjarnategundirnar, sem
dreifðust eftir slysið, verði áfram til,
jafnvel um þúsundir ára: „Með hlið-
sjón af einni mannsævi eru þær
eilífar.“
Aleksíevítsj er blaðamaður frá
Hvítarús eins og Hvíta-Rússland er
kallað í bókinni. Frásagnarstíll henn-
ar er sérstakur. Fyrir Tsjernobyl-
bænina tók hún aragrúa viðtala. Þau
birtir hún síðan hvert á eftir öðru,
yfirleitt eins og eintal. Höfundurinn
sést vart nema þegar hún „tekur
sjálfa sig tali um sagnfræði sem lend-
ir á milli þilja“ og þaðan eru tilvitn-
anirnar hér fyrir ofan teknar.
Ein áhrifaríkasta og átakanlegasta
frásögnin í bókinni kemur þegar í
upphafi og hún mun líka hafa verið
notuð í þáttunum. Ljúdmíla Ígna-
tenko var eiginkona slökkviliðs-
manns, sem var með þeim fyrstu á
vettvang og lést af völdum geislunar-
innar. Farið var með hann á sjúkra-
hús í Moskvu ásamt fleirum og hún
elti og leitaði hann uppi. Það átti að
meina henni að hitta mann sinn, en
hún lét sig ekki þótt hún legði sig í
lífshættu við að vera nálægt honum.
Ígnatenko bar barn undir belti. Barn-
ið dó fjórum dögum eftir fæðingu og
segir Ígnatenko að fóstrið hafi dregið
í sig geislunina og bjargað lífi hennar.
Þar er einnig sagt frá sjálfboðalið-
unum, sem fórnuðu sér til að opna
loku á kafi í vatni til að hægt væri að
þurrka vatnið upp undir kjarnakljúf-
num og koma í veg fyrir að það kæm-
ist í tæri við úran og grafít því þá
hefði orðið sprenging, sem „hefði ekki
aðeins þurrkað út allt líf í Kíev og
Minsk heldur hefði stór hluti Evrópu
orðið óbyggilegur“.
Tsjernobyl-bænin er frásögn af
hetjuskap og lygum, yfirhylmingu,
viðvaningshætti, vanmætti, sársauka
og doða.
Ungir menn voru kvaddir til að
hreinsa upp og lögðu í hann í anda
þeirra, sem börðust í seinni heims-
styrjöld, föðurlandsstríðinu mikla, og
litu niður til þeirra, sem veigruðu sér
við að fara vegna geislunarinnar.
Þessir menn áttu margir hræðileg ör-
lög í vændum vegna geislunarinnar.
„Við vorum að berjast við kjarnorku
með kústskafti,“ sagði einn viðmæl-
andinn.
Reynt var að bregðast við slysinu,
fólk var flutt á brott og svæðin næst
Tsjernobyl rýmd en yfirvöld höfðu
einfaldlega ekki bolmagn til að
vernda almenning með fullnægjandi
hætti og þar við bættist óttinn við að
spyrðist umfang geislavirkninnar og
hættunnar út yrði það vatn á áróðurs-
myllu andstæðinga Sovétríkjanna.
Fyrir vikið varð til eins konar
tómarúm í kringum Tsjernobyl. Alek-
síevítsj hefur lýst því að það hafi verið
auðveldara að vinna og skrifa
Tsjernobyl-bænina en aðrar bækur
hennar vegna þess að viðmælendur
hennar töluðu frá eigin brjósti. Það
var ekki til nein opinber útgáfa af því
sem gerðist, engin stöðluð frásögn
stjórnvalda til að smitast inn í frásögn
viðmælenda hennar. Það var bara
eyða.
Tsjernobyl-bænin kom út árið 1997
og vakti þá þegar athygli. Það var
hins vegar ekki fyrr en hún hlaut
Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið
2015 að skrif hennar fengu þá athygli,
sem þau áttu skilið. Það á ekki bara
við um bók hennar um Tsjernobyl,
heldur bækur hennar um síðustu
vitni seinni heimsstyrjaldar, lífs-
reynslu sovéskra hermanna sem
börðust í Afganistan og lífið á rústum
sósíalismans eftir hrun Sovét-
ríkjanna.
Bók Aleksíevítsj er frábærlega
þýdd. Gunnar Þorri Pétursson vinnur
verkið af alúð og þekkingu. Víða eru
neðanmálsgreinar til að setja textann
í samhengi og þær bæta miklu við.
Honum tekst meira að segja að koma
þeim gálgahúmor að, sem fram kem-
ur hjá mörgum viðmælendum í bók-
inni, eins og í frásögn manns af
geislavirkri máltíð „beint frá Tsjernó-
býli“.
Tsjernobyl-bænin er eins og púslu-
spil þar sem hvert viðtal, hver vitn-
isburður, fyllir upp í og bætir við uns
verður til heildarmynd af þeim hryll-
ingi, sem átti sér stað í Tsjernobyl 26.
apríl 1986 og mun teygja ósýnilegar,
geislavirkar krumlur sínar inn í
ókomna tíð.
Barist við kjarn-
orku með kústskafti
Blaðamennska
Tsjernobyl-bænin – Framtíðarannáll
bbbbm
Eftir Svetlönu Aleksíevitsj.
Þýðing Gunnar Snorri Pétursson.
Angústúra, 2021. Kilja, 394 bls.
KARL
BLÖNDAL
BÆKUR
Aleksíevítsj Höfundurin fékk
Nóbelsverðlaunin árið 2015.
Morgunblaðið/RAX
Úkraína Þrettán árum eftir kjarnorkuskysið í Tsjernóbyl glímdi hin 12 ára
Alina, sem er hér með móður sinni, við hvítblæði af völdum geislunar.
E
in helstu tíðindi þessarar
bókavertíðar eru að 32 ár-
um eftir að Ísak Harðar-
son sendi síðast frá sér
smásagnasafn – Snæfellsjökull í
garðinum – Átta heilagra nútíma-
manna sögur kom út 1989 – þá er bið-
in eftir næsta sagnsafni hans á enda.
Hitinn á vaxmyndasafninu er heiti
nýju bókarinnar, undirtitillinn Sjö
nútímakraftaverkasögur, og þetta er
vandað, afar vel stílað og vel mótað
safn hrífandi sagna.
Ísak er eitt helsta ljóðskáld sinnar
kynslóðar og kom af miklum krafti
fram á sjónar-
sviðið snemma á
níunda áratug
liðnnar aldar, með
ljóðabókunum
Þriggja orða nafn
(1982) og Ræfla-
testamentið
(1984). Ísak hefur
síðan sent frá sér
margar ljóðabæk-
ur og meðal annars fyrrnefnt sagna-
safn og skáldsögu. Þá hefur hann
verið mikilvirkur þýðandi.
Fyrra sagnasafn Ísaks, Snæfells-
jökull í garðinum, hefst á örstuttri
sérkennilegri táknsögu, „Góðan dag
góðir dvalargestir“, um Jósef og
konu hans sem eru kvalin og þjáð í
felum í kjallarakompu en utan
gluggans er spegill sem reynir að
gægjast inn til þeirra. Nýja bókin
hefst á sögunni „Kvöld í heims-
rústum“ en hún var þessum lesanda
kunnugleg enda reyndist þar sama
sagan komin, bara með nýjum titli og
örlítið slípuð og breytt. Og er hluti af
merkilegum og marglaga leik höf-
undarins með tengingar og vísanir. Í
undirtitli bókarinnar segir að í henni
séu „Sjö nútímakraftaverkasögur“
en sögurnar eru átta – sem skýrist
undir bókarlok því síðasta sagan og
sú áttunda, „Morgunn biðukollanna“,
reynist vera seinni hluti upphafssög-
unnar sem þannig rammar inn allar
hinar. Og þar kemur í ljós að kona
Jósefs er vitaskuld hún María, sár-
þjáð og hefur sætt sig við að enginn
trúi frásögn hennar um að Snæfells-
jökull sé úti í garði þeirra – aftur vís-
að í fyrra sagnasafnið (og hellistákn-
sögu Platós). En sagan endar vel og
Jósef og María virðast hafa lifað í
blekkingu í kjallaranum allan þennan
tíma.
Ísak hefur lengi ort og skrifað um
hugmyndir um æðri mátt, alheiminn
og tilgang lífsins, og hér má strax sjá
margskonar vísanir og úrvinnslu á
slíku, þar sem lítilsigldur einstakling-
urinn stendur frammi fyrir stórum
spurningum um tilveruna. Jósef og
María falin í sinni kompu eru eitt
dæmi um slíkt, annað til dæmis í sög-
unni „Aksúbab“ þar sem deyfðar-
legur páfagaukur ungs drengs slepp-
ur einn dag út í garð og þegar hann
er kominn aftur í búrið sitt getur
hann ekki hætt að syngja og er sýni-
lega að dásama heiminn sem hann
kynntist eina dagstund; það rifjast
upp fyrir drengnum þegar hann er
orðinn gamall og bíður þess að hon-
um opnist gátt „út í nýtt og alls ólifað
tilverustig – hin raunverulegu tré og
sól og himin sem biðu hans rétt utan
við skelina“.
Lífshlaupið er efni sögunnar „Ein-
ar alheimsins“ en Einar sá er á
hlaupabrautinni, hleypur þar og
hleypur ár eftir ár, og stefnir með
hlaupunum á að „vinna til verð-
launanna – umbunarinnar – sem allir
vita að er það eina sem rakalaus til-
vistin býður upp á, semsagt: að fanga
hamingjuna“. Og þar sem Einar
hleypur, einn árhring eftir annan,
hefur hann komist upp á lag með að
hugsa og vonar að hann hlaupi ham-
ingjuna uppi. Þegar hann er á sex-
tugasta og sjötta árhring (semsagt
jafnaldri höfundar sögunnar) þá
fyrst birtist einhver annar á braut-
inni og það dregur til tíðinda …
Í snjallri titilsögunni hefur hitnað
inni á evrósku vaxmyndasafni og það
að vax hitni getur skapað hættu á
bráðnun en þá vakna ólíkar vax-
myndir ýmissa tíma til lífsins og taka
að ræða saman. Þar er margt
frægðarmennið en sjónir beinast að
Maríu nokkurri (María mætt enn og
aftur) og sveinbarni hennar.
Í „Lífsins söngur, stígar, blóð“ er
mjög vel unnið með kunnuglegt
þema; hér er drykkju- og hústöku-
maður sem fær annað tækifæri í líf-
inu þegar honum tæmist arfur. Hann
getur farið hvert sem er en tilviljun
dregur hann til Hveragerðis þar sem
hann í sögulok þarf að takast á við or-
sök vanda lífsins. Og allra best er hin
listavel skrifaða saga „Óp saman-
burðarmálfræðingsins“ en sá er
kominn til Finnlands að vinna að
metnaðarfullum fræðistörfum – hann
hefur eytt ævi sinni í „að kanna hin
ýmsu tungumál mannsins, rekja þau
til róta og bera þau saman“. Í sög-
unni mætast á gamansaman hátt
metnaðarfull glíma mannsins við
fræðin og hina stóru sögu manna og
svo hans persónulega saga af sam-
skiptum við annað fólk.
Sögurnar í bókinni eru afar vel
byggðar, þær eru bæði dramatískar
og launfyndnar, og afslappaður stíll-
inn er lipur, tær og fagur – þetta er
sannkallaður ánægjulestur.
Ísak „… vandað, afar vel stílað og
vel mótað safn hrífandi sagna.“
Umbunin sem rakalaus
tilvistin býður upp á
Smásögur
Hitinn á vaxmyndasafninu bbbbb
Eftir Ísak Harðarson.
JPV útgáfa, 2021. Innbundin, 196 bls.
EINAR FALUR
INGÓLFSSON
BÆKUR
Fiskislóð • Bíldshöfði • Smáratorg • Helluhraun • Baldursnes
www.gaeludyr.is
Ekki láta gæludýrið
fara í jólaköttinn