Strandapósturinn - 01.06.2010, Blaðsíða 98
96
í húsinu. Árið áður var haldinn þar hátíðarfundur og veitingasala
höfð í sambandi við Lýðveldishátíðina 1944. Skugga-Sveinn hefur
ekki verið sýndur á staðnum síðan. Svo rækilega hafa Hólmvíkingar
reynst bólusettir fyrir stykki þessu að það mun aldrei hafa komið
til tals að færa það upp þar í fjórða sinn.
Ekki er lengur hægt að skoða þessi húsakynni, það er nýbúið
að rífa norðurenda sláturhússins þar sem sýningarnar fóru fram.
Kirkjan 1955. Húrrakrakki var sýndur til fjáröflunar fyrir
byggingu Hólmavíkurkirkju. Vera má, að fleiri leikrit hafi verið
flutt til fjáröflunar fyrir kirkjubygginguna. Líklega var það ekki
einsdæmi að leikið væri til styrktar kirkjunni.
Svo er það stóra spurningin. Hefur nokkurt félag annað en
Leikfélagið nýja sýnt leikrit á Hólmavík eftir að það var stofnað
1981? Hafi svo verið vantar hér þann kafla allan. Ef ekki, hverjir
mundu nú vera tekjustofnar gamalla félaga sem áður byggðu
eingöngu á leiklistargróða?
Léttara hjal
Allt í kringum Hólmavík spratt upp leikárátta. Frá smitleiðum
kann ég ekki að greina. Litlar sögur bárust af því hvað fram fór úti
um sveitirnar, nema helst ef eitthvað fór í handaskolum. Allt þess
konar kvisaðist furðu fljótt milli bæja. Skiljanlegt er að sumir hafi
ekki kunnað mikið fyrir sér í flutningi leiktexta til að byrja með og
kannski gert lítinn greinarmun á því sem segja átti og skýringum
sem í svigum voru:
Þessar svigasetningar: (Tekur pokann sinn og fer), (Veltir sér
um hrygg og æjar), voru hafðar eftir Matthíasi Aðalsteinssyni og
Hirti Samsonarsyni. Áttu þeir að hafa mælt þær fram á sviðinu
fullum hálsi og ekki áttað sig á að þær voru þeim einum ætlaðar.
Inni í Staðardal og eða Selárdal var leikið. Eitt sinn var það
Kristrún í Hamravík. Benedikt Sæmundsson lék unga manninn,
Fal, og hafði hárkollu og húfu yfir. Nú gengur hann inn á sviðið.
Þar átti hann að taka ofan húfuna, en hárkollan fylgdi. Benedikt
segir þá stundarhátt: „Nú dámar mér ekki“, og salurinn sprakk.